Samgöngumál.

(Mál nr. 10920/2021)

Kvartað var yfir verklagi Vegagerðarinnar við snjómokstur á Fnjóskadalsvegi eystri, vegnúmer 835.

Þar sem viðkomandi hafði ekki leitað eftir afstöðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hans voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki afstöðu til kvörtunarinnar.

   

Settu umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 24. janúar sl., þar sem þér kvartið yfir verklagi Vegagerðarinnar við snjómokstur á Fnjóskadalsvegi eystri, vegnúmer 835.

Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið núverandi fyrirkomulag Vegagerðarinnar á snjómokstri ófullnægjandi þar sem ófært er að heimili yðar þegar snjór er mikill. Þannig séuð þér tilneydd að leggja bifreið yðar við Grenivíkurveg, vegnúmer 83, í [...] fjarlægð frá heimili yðar, en vegna þessa hafið þér meðal annars orðið fyrir tjóni er ekið var á bifreið yðar sem stóð við veginn. Þá verður ráðið af kvörtun yðar að þér teljið veghald Fnjóskadalsvegar eystri ábótavant þar sem efni vegarins torveldar snjómokstur, en hluti hans er malarvegur.

  

II

1

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 120/2012, um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, hefur Vegagerðin það hlutverk að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins samkvæmt lögunum og öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir. Meðal þeirra laga sem stofnunin starfar eftir eru vegalög, nr. 80/2007, en þau hafa það markmið, samkvæmt 1. gr. þeirra, að setja reglur um vegi og veghald sem stuðla eiga að greiðum og öruggum samgöngum. Lögin taka m.a. til vega sem ætlaðir eru til umferðar ökutækja og veghalds þeirra. Vegagerðin annast þátt ríkisins í framkvæmd laganna nema á annan veg sé kveðið á um í lögum, sbr. 1. mgr. 5. gr. vegalaga.

Í 1. mgr. 8. gr. vegalaga eru þjóðvegir skilgreindir sem þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegaskrá. Á grundvelli 2. mgr. ákvæðisins er þjóðvegum skipað í fjóra flokka, stofnvegi, tengivegi, héraðsvegi og landsvegi, sem nánar eru skilgreindir í fjórum töluliðum ákvæðisins. Samkvæmt vegaskrá Vegagerðarinnar fellur Fnjóskadalsvegur eystri í flokk tengivegar.

Veghaldari ber ábyrgð á veghaldi vegar samkvæmt 12. gr. vegalaga. Við veghaldið skal gæta umferðaröryggis og að umferð eigi greiða og góða leið um vegi að teknu tilliti til umhverfis-, náttúru- og minjaverndar í samræmi við kröfur sem leiða af gildandi lögum á hverjum tíma. Vegagerðin er veghaldari þjóðvega samkvæmt 13. gr. vegalaga.

Í VIII. kafla vegalaga er fjallað um hönnun, lagningu og viðhald vega og er þar í ákvæði 44. gr. fjallað um vetrarþjónustu. Á grundvelli 1. mgr. ákvæðisins hefur Vegagerðin gefið út reglur, um vetrarþjónustu á þjóðvegum landsins, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra staðfesti hinn 5. janúar 2018 og auglýstar voru í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 44/2018. Ákvæði 1. mgr. 1. gr. reglnanna kveður á um Vegagerðin sjái um allan mokstur á þjóðvegum og greiði allan kostnað við mokstur þeirra leiða, sem sýndar eru á vetrarþjónustukorti Vegagerðarinnar í viðauka I við reglurnar, og í samræmi við þær reglur sem þar gilda. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglnanna, sbr. 2. mgr. 44. gr. vegalaga, hefur Vegagerðin skilgreint þá vegi þar sem heimilt er að beita svokallaðri helmingamokstursreglu, en þá má finna í viðauka II við reglurnar. Samkvæmt viðaukanum er Fnjóskadalsvegur eystri, frá Grenivíkurvegi að Skarði, vegnúmer 835 – kafli 02, skilgreindur sem slíkur vegur.

Falli vegur undir helmingamokstursreglu er heimilt að moka með kostnaðarþátttöku Vegagerðarinnar að hámarki þrisvar sinnum í viku, meðan fært þyki vegna veðráttu og snjóþyngsla. Vegagerðin greiðir þá helming kostnaðar þegar beðið hefur verið um moksturinn og greiðsla mótaðila hefur verið tryggð, enda komi moksturinn fleiri vegfarendum til góða en þeim, sem um hann biður. Óskir sveitarfélaga um slíkan mokstur skulu að jafnaði ganga fyrir óskum einstaklinga. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. reglnanna á reglan um helmingamokstur aðeins við að býlum með vetursetu en kostnaður við allan annan mokstur, umfram það sem framan greinir, skal greiddur af viðkomandi sveitarfélagi eða þeim sem óskar eftir viðbótarmokstri.

Með vinnureglum þjónustudeildar Vegagerðarinnar, sem finna má á vefsíðu stofnunarinnar www.vegagerdin.is, er vetrarþjónusta við vegi nánar skilgreind og framangreindar reglur Vegagerðarinnar sem ráðherra staðfesti, nánar útfærðar. Lúta þær þær m.a. að snjómokstri við 815 Hringveg: Akureyri-Kross, Grenivíkurveg, Svalbarðseyrarveg og Víkurskarðsveg. Af reglunum leiðir að fyrirkomulag um helmingamokstur er í gildi að beiðni Grýtubakkahrepps varðandi snjómokstur á Fnjóskadalsvegi eystri, frá Grenivíkurvegi að Skarði.

  

2

Vegagerðin, sem annast snjómokstur á umræddum vegi að beiðni Grýtubakkahrepps, er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 120/2012 en hann fer einnig með yfirstjórn vegamála, sbr. 4. gr. vegalaga nr. 80/2007. Vald ráðherra og lagaleg ábyrgð hans birtist einkum í þeim yfirstjórnar- og eftirlitsheimildum sem hann hefur samkvæmt settum lögum og óskráðum reglum til að hafa raunhæf og virk áhrif á starfsemi undirstofnanna sem undir hann heyra samkvæmt lögum á hverjum tíma.

Á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda sinna getur ráðherra meðal annars gefið stjórnvaldi almenn og sérstök fyrirmæli um starfsrækslu verkefna þess, fjárreiður og meðferð eigna, enda mæli lög eða eðli máls því ekki í mót. Um þessar heimildir ráðherra er nánar fjallað um í IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands.

Ástæða þess að ég rek framangreint er að kveðið er á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í 3. mgr. 6. gr. kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem kunna að hafa verið á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar.

Ef þér teljið núgildandi verklag Vegagerðarinnar, sem snýr að snjómokstri Fnjóskadalsvegar eystri, ófullnægjandi eða teljið að veghaldi vegarins sé að öðru leyti ábótavant er yður unnt að freista þess að leita eftir afstöðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hans, með erindi þar að lútandi. Að fenginni afstöðu ráðherra til slíks erindis er yður heimilt að leita til mín að nýju, ef þér teljið yður þá enn beitta rangsleitni. Ég tek þó fram að með framangreindri umfjöllun hef ég enga afstöðu tekið til efnis kvörtunar yðar.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson