Almannatryggingar. EES-samningurinn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10927/2021)

Kvartað var yfir útreikningum Tryggingastofnunar á örorkulífeyrisgreiðslum sem skerti þær á hverju ári vegna búsetu viðkomandi í Noregi. Af sömu sökum fengist heimilisuppbót ekki greidd.

Þar sem hvorki er gert ráð fyrir að umboðsmaður taki afstöðu til þess hvernig tekist hefur til með löggjöf frá Alþingi né að hann fjalli um mál fyrr en æðra stjórnvald, í þessu tilfelli úrskurðarnefnd velferðarmála, hefur lokið umfjöllun sinni voru ekki forsendur til að hann tæki kvörtunina til meðferðar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

 

 

I

Ég vísa til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 30. janúar sl., þar sem þér kvartið yfir útreikningum Tryggingastofnunar á örorkulífeyrisgreiðslum til yðar. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtun yðar er örorkulífeyrir yðar skertur á hverju ári af Tryggingastofnun sökum búsetu yðar í Noregi. Jafnframt fáið þér ekki greidda heimilisuppbót, einnig vegna búsetu yðar í Noregi.

Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið skerðingu Tryggingastofnunar á rétti yðar til greiðslu örorkulífeyris, vegna búsetu yðar í Noregi, og núverandi fyrirkomulag um greiðslu heimilisuppbótar, að þeir hljóti aðeins heimilisuppbót sem eigi lögheimili á Íslandi, sé ólögmætt. Því til stuðnings vísið þér til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og verður því ekki annað ráðið en að þér teljið núverandi fyrirkomulag lífeyristrygginga almannatrygginga, fyrir einstaklinga með lögheimili annars staðar en á Íslandi, brjóta í bága við skuldbindingar íslenskra ríkisins samkvæmt ákvæðum hans.

  

II

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett.

Í 6. gr. laganna er jafnframt kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra sett stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að ég upplýsi yður um framangreint er að fjallað er um lífeyristryggingar, þar á meðal örorkulífeyri, í III. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Í 1. mgr. 18. gr. laganna er fjallað um þá aðila sem rétt eiga til greiðslu örorkulífeyris og þau skilyrði sem þeir einstaklingar þurfa uppfylla. Meðal þeirra er að hafa verið búsettur á Íslandi a.m.k. þrjú ár síðustu árin áður en umsókn var lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu, sbr. a-lið 1. mgr. 18. gr. Af 68. og 71. gr. laganna og almannatryggingareglum Evrópusambandsins, sem hafa verið innleiddar í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins, leiðir þó að lífeyrisþegi sem flytur til annars EES-lands heldur rétti sínum sínum til lífeyrisgreiðslna uppfylli hann skilyrði laganna að öðru leyti.

Í því felst ekki að hann eigi óskoraðan rétt til slíkra greiðslna heldur er við útreikning þeirra tekið mið af búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007, og hafi hann ekki verið búsettur hér a.m.k. 40 almanaksár byggist réttur hans til örorkulífeyris á áætluðum búsetutíma frá örorkumati að 67 ára aldri, sbr. 4. mgr. 18. gr. þar sem fram kemur að við ákvörðun búsetutíma skuli reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda.

Löggjafinn hefur þannig tekið afstöðu til þess með lögum að örorkulífeyrir skerðist í samræmi við búsetuhlutfall á Íslandi, sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 20. júní 2018 í máli nr. 8955/2016 og dóm Hæstaréttar Íslands frá 13. júní 2013 í máli nr. 61/2013. Ekki verður séð að það eitt og sér brjóti gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum enda er markmið þeirra almannatryggingareglna sem hafa verið innleiddar á grundvelli hans fyrst og fremst að tryggja samræmda beitingu löggjafar aðildarríkjanna gagnvart einstaklingum sem flytjast milli aðildarríkja samningsins þannig að þeir glati ekki réttindum sínum með því að teljast hvergi tryggðir.

Í þessum skilningi skal einnig litið til 9. gr. laga nr. 119/2013, um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar, þar sem segir að hafi skilyrðum fyrir því að lífeyrir sé einnig reiknaður út á grundvelli ætlaðra trygginga- eða búsetutímabila, sem hefðu komið til hefði lífeyrisatburður ekki gerst, verið fullnægt í fleiri en einu norrænu landi skuli við útreikning í hverju einstöku landi eingöngu tekið tillit til hluta ætlaðra tímabila. Sá hluti er ákveðinn á grundvelli raunverulegra trygginga- eða búsetutímabila sem eru notuð við lífeyrisútreikning frá hlutfallinu milli raunverulegra tímabila í landinu og samanlagðra raunverulegra tímabila í löndunum.

Í lögum nr. 99/2007, um félagslega þjónustu, er svo fjallað um bætur félagslegrar aðstoðar sem er, samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna, meðal annars heimilisuppbót. Bætur félagslegrar aðstoðar greiðast, samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur, og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim. Samkvæmt 1. mgr. síðastnefnda ákvæðis laga nr. 80/2018 telst lögheimili sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu en óheimilt er eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis.

Alþingi hefur með framangreindu ákvæði laga nr. 99/2007 útfært í lögum hvaða rétt einstaklingar hafi til greiðslu heimilisuppbótar og er sá réttur háður því skilyrði að viðkomandi eigi lögheimili hér á landi. Í því sambandi tek ég fram að almannatryggingareglur Evrópusambandsins gilda samkvæmt efni sínu ekki um félagslega aðstoð og því er ekki unnt, við töku ákvörðunar um rétt yðar til heimilisuppbótar, að líta til búsetu yðar í öðru EES-landi með sama hætti og á við um greiðslu örorkulífeyris á grundvelli laga nr. 100/2007.

Að því leyti sem kvörtun yðar lýtur að því fyrirkomulagi við lífeyristryggingar almannatrygginga og greiðslu heimilisuppbótar sem gerð er grein fyrir hér að framan og löggjafinn hefur tekið skýra afstöðu til tel ég ekki skilyrði til að ég taki kvörtun yðar til meðferðar, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Hins vegar tek ég fram að af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið ákvörðun Tryggingastofnunar um fjárhæð örorkulífeyris yðar undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Þá liggur ekki fyrir hvort þér hafið óskað eftir því að fá greidda heimilisuppbót og að þeirri beiðni hafi þá verið synjað.

Ef þér teljið að ákvörðun sem tekin hefur verið í máli yðar af hálfu Tryggingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við lög, s.s. með tilliti til þess búsetuhlutfalls sem er lagt til grundvallar útreikningi á lífeyrisgreiðslum yðar eða þeirra tekna sem kunna að hafa leitt til skerðinga á þeim greiðslum bendi ég yður á að þér getið freistað þess að kæra slíka ákvörðun til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007, þar sem fram kemur að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð eða greiðslna samkvæmt lögunum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Rétt er að vekja athygli á því að í 5. gr. laga nr. 85/2015, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007, er kveðið á um að kæra til nefndarinnar skuli vera skrifleg og borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Fari svo að þér kærið ákvörðun Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála, og teljið yður enn rangsleitni beittan að fenginni niðurstöðu nefndarinnar, getið þér leitað til mín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hver niðurstaða í slíku máli ætti að verða.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson