Opinberir starfsmenn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10933/2021)

Kvartað var yfir því að Íslandspóstur ohf. og Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs hf. neituðu að rökstyðja ráðningu háttsettra starfsmanna.  

Bæði Íslandspóstur sem opinbert hlutafélag og Keilir sem hlutfélag teljast til einkaréttarlegra aðila. Þar sem kvörtunin beindist að atriðum sem ekki fólu í sér beitingu opinbers valds sem félögunum hefði verið fengið féll það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um hana.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Ég vísa til erindis yðar til mín, dags. 3. febrúar sl., sem þér beinið að Íslandspósti ohf. og Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs hf. og lýtur að því að framangreind fyrirtæki neiti að rökstyðja ráðningu háttsettra starfsmanna.

Í tilefni af kvörtuninni er rétt að taka fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga er starfssvið umboðsmanns nánar afmarkað og nær það einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hafa opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða falla undir 3. mgr. 3. gr. Að öðru leyti tekur starfssvið umboðsmanns ekki til einkaaðila.

Ástæða þess að ég nefni framangreint er sú að Íslandspóstur ohf. er opinbert hlutafélag en Keilir hf. er hlutafélag og því teljast framangreind fyrirtæki til einkaréttarlegra aðila. Kvörtun yðar beinist þannig að athöfnum einkaréttarlegra aðila sem fela ekki í sér stjórnsýslu í skilningi 3. gr. laga nr. 85/1997 enda er ekki í henni fólgin beiting opinbers valds sem félögunum hefur verið fengið með lögum eða ákvörðunartaka á þeim grundvelli. Þar breytir eignarhald félagana engu. Það fellur því utan við starfssvið umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í áður­greindum ákvæðum laga nr. 85/1997, að fjalla frekar um kvörtunarefni yðar og læt ég athugun minni á máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson