Almannatryggingar. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10945/2021)

Kvartað var yfir Tryggingastofnun og eftir atvikum ríkisskattstjóra vegna útreiknings á ellilífeyri. Það er að stofnunin telji ávöxtun lífeyrissjóða á innborguðu iðgjaldi í séreignarsparnað ekki til fjármagnstekna en líti aftur á móti til fjármagnstekna af hlutabréfum og innstæðum í bönkum við útreikninga sína sem geti þá leitt til lækkunar á ellilífeyri.  

Þar sem hvorki er gert ráð fyrir að umboðsmaður taki afstöðu til þess hvernig tekist hefur til með löggjöf frá Alþingi né að hann fjalli um mál fyrr en æðra stjórnvald, í þessu tilfelli úrskurðarnefnd velferðarmála, hefur lokið umfjöllun sinni voru ekki forsendur til að hann tæki kvörtunina til meðferðar.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 12. febrúar sl., sem þér beinið að Tryggingastofnun, og eftir atvikum að ríkisskattstjóra, og lýtur að útreikningi á ellilífeyri. Nánar tiltekið verður ráðið af kvörtuninni, og tölvupóstsamskiptum yðar við Tryggingastofnun sem henni fylgdu, að athugasemdir yðar beinist að því að stofnunin telji ávöxtun lífeyrissjóða á innborguðu iðgjaldi í séreignarsparnað ekki til fjármagnstekna en líti aftur á móti til fjármagnstekna af hlutabréfum og innstæðum í bönkum við útreikninga sína sem geti þá leitt til lækkunar á ellilífeyri. Af kvörtuninni verður jafnframt ráðið að þér teljið þessa tilhögun fela í sér mismunun.

  

II

1

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, s.s. með tilliti til þess hvort þau samrýmist stjórnarskrá. Í hérlendu réttarkerfi er almennt álitið að það sé hlutverk dómstóla að skera úr um stjórnskipulegt gildi laga.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er jafnframt kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra sett stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

  

2

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er að fjallað er um lífeyristryggingar, þ. á m. ellilífeyri, í III. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Í 23. gr. laganna er kveðið á um fjárhæð ellilífeyris en þar segir að ellilífeyrir skuli lækka frá fullum lífeyri um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr. laganna, uns hann fellur niður. Í 2. mgr. 16. gr. laganna segir meðal annars að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í 7. gr. laga nr. 90/2003 segir meðal annars að skattskyldar tekjur teljist „hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru“. Þar undir falla m.a. eftirlaun og lífeyrir, sbr. 1. tölul. A-lið ákvæðisins. Þá segir í 3. tölul. C-liðar 7. gr. laganna að til tekna teljist vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður, sbr. 8. gr. laganna.

Í 6. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 kemur fram að vextir, verðbætur og önnur ávöxtun af lífeyrissparnaði samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða teljist til tekna sem lífeyrir samkvæmt A-lið 7. gr. þegar slíkar greiðslur eru greiddar út. Sambærilegt ákvæði var í eldri lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 154/1998. Í athugasemdum með frumvarpi er varð að þeim lögum kemur fram að lagt sé til að skýrt verði kveðið á um að þessar tekjur komi ekki til skattlagningar fyrr en við útborgun á lífeyri og teljist þá til tekna samkvæmt A-lið 7. gr. laga nr. 75/1981 og skattleggist í almennu skatthlutfalli en ekki sem fjármagnstekjur. (Sjá Alþt. 1998-1999, A-deild, bls. 1849.)

Af framangreindu verður því ekki annað séð en að kvörtun yðar lúti fyrst og fremst að fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur tekið skýra afstöðu til. Því eru ekki skilyrði að lögum til að ég taki kvörtun yðar til meðferðar, a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

 Þar sem af kvörtun yður verður ráðið að þér teljið fyrirkomulag við útreikning á ellilífeyri fela í sér brot á jafnræðisreglu tek ég þó fram að með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni Alþingis veitt heimild til að gera Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnum viðvart ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Lög nr. 85/1997 gera ekki ráð fyrir að kvörtun verði sérstaklega borin fram við umboðsmann á þeim grundvelli.

Umboðsmaður hefur þó talið rétt þegar ábendingar hafa borist um hugsanlega „meinbugi á lögum“ að kynna sér efni þeirra í því skyni að meta hvort það efni sem framkomin ábending hljóðar um gefi tilefni til þess að taka mál til umfjöllunar að eigin frumkvæði umboðsmanns, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Þegar álitaefnið beinist að ósamræmi milli almennra laga, afgreiddum af Alþingi með stjórnskipulega réttum hætti, og stjórnarskrár og/eða þjóðréttarlegra skuldbindinga sem íslenska ríkið hefur undirgengist, hefur þó verið litið svo á að helst geti komið til þess að umboðsmaður nýti sér þá heimild sem fram kemur í 11. gr. laga nr. 85/1997 þegar leiða má slíka niðurstöðu af dómum Hæstaréttar Íslands eða eftir atvikum alþjóðlegra úrskurðaraðila.

Ég tel þá dómaframkvæmd íslenskra dómstóla og Mannréttindadómstóls Evrópu sem ég hef kynnt mér ekki gefa mér tilefni til að taka erindi yðar til frekari athugunar á þessum grundvelli. Í því sambandi bendi ég yður til hliðsjónar á dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. desember 2007 í máli nr. E-2279/2006 þar sem m.a. var lagt til grundvallar að ekki hefði verið sýnt fram á að ávöxtunarhluti lífeyrisgreiðslna væri sambærilegur við aðrar fjármagnstekjur. Dómurinn er aðgengilegur á heimasíðu héraðsdómstólanna, heradsdomstolar.is,, en honum mun ekki hafa verið áfrýjað.

  

3

Að þessu sögðu tek ég fram að af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið ákvörðun Tryggingastofnunar um lífeyri yðar undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Ef þér teljið að ákvörðun sem tekin hefur verið í máli yðar af hálfu Tryggingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við lög bendi ég yður því á að þér getið freistað þess að kæra slíka ákvörðun til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007.

Rétt er að vekja athygli á því að í 2. mgr. 13. gr. er kveðið á um að kæra til nefndarinnar skuli vera skrifleg og borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Komi til þess að þér skjótið ákvörðun til nefndarinnar getið þér, að fenginni niðurstöðu nefndarinnar, leitað til mín á ný ef þér teljið yður þá enn beittan rangsleitni.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður fór með mál þetta á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson