Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 10948/2021)

Kvartað var yfir reglum Reykjavíkurborgar um bílastæðakort íbúa og gerðar athugasemdir við það skilyrði að sé umsækjandi umráðamaður þeirrar bifreiðar sem umsókn um íbúakort lúti að, en ekki skráður eigandi hennar, skuli aðrir meðeigendur eða umráðamenn eiga sama lögheimili og hann. Einnig að ekki væri hægt að fá íbúakort útgefið vegna vélhjóla. Fyrirkomulagið bryti í bága við jafnræðisreglu.  

Þar sem það er hvorki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir né að hann fjalli um mál fyrr en æðra stjórnvald, í þessu tilfelli Bílastæðasjóður, hefur lokið umfjöllun sinni voru ekki forsendur til að hann tæki kvörtunina til meðferðar.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 14. febrúar sl., vegna reglna Reykjavíkurborgar um bílastæðakort íbúa í Reykjavík nr. 591/2015. Gerið þér athugasemdir við það skilyrði reglnanna að sé umsækjandi umráðamaður þeirrar bifreiðar sem umsókn um íbúakort lýtur að, en ekki skráður eigandi hennar, skuli aðrir meðeigendur eða umráðamenn eiga sama lögheimili og hann. Teljið þér skilyrði reglnanna að þessu leyti fela í sér mismunun miðað við þá íbúa sem eru skráðir eigendur bifreiða. Þá gerið þér athugasemdir við að ekki sé hægt að fá íbúakort útgefið vegna vélhjóla. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið þetta fyrirkomulag brjóta í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að þér óskið eftir því að umboðsmaður láti í ljós álit sitt á því.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðs­manns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Að þessu leyti vek ég einnig athygli yðar á því að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem kunna að hafa verið á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að fyrir liggi ákvörðun Bílastæðasjóðs vegna umsóknar yðar um íbúakort. Með hliðsjón af því sem að ofan er rakið brestur því lagaskilyrði fyrir því að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar af hálfu umboðsmanns.

Að þessu leyti tek ég fram að mér er kunnugt um að umsóknarform vegna íbúakortanna á vefsíðu sjóðsins er þannig úr garði gert að sé umsækjandi hvorki skráður eigandi né umráðamaður þeirrar bifreiðar sem umsóknin lýtur að getur viðkomandi ekki lokið við umsóknarferlið. Á hinn bóginn verður einnig ráðið af kvörtun yðar að þér hafið ekki komið athugasemdum yðar við reglur borgarinnar um íbúakort, sem þér greinið frá í kvörtuninni, á framfæri við Bílastæðasjóð.

Í samræmi við þau sjónarmið sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, sbr. ofangreint, tel ég rétt að þér leitið eftir formlegri afstöðu Bílastæðasjóðs/Reykjavíkurborgar til athugasemda yðar áður en þér leitið til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi. Í því sambandi bendi ég yður á að í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttarins á hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svara sé ekki vænst.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins. Ég tek fram að ef þér farið þá leið að leita til Bílastæðasjóðs og teljið sjóðinn afgreiða erindi yðar með óviðunandi hætti þá getið þér leitað til mín að nýju.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson