Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Skip. Stjórnarskrá. Lögmætisreglan.

(Mál nr. 10408/2020)

Kvartað var yfir ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að synja beiðni félags um tilraunaleyfi til að sigla með fleiri en 12 farþega á svonefndum RIB-bátum. Byggt var á að reglur stjórnvalda stönguðust á við þá vernd sem atvinnuréttindi nytu samkvæmt stjórnarskrá. Þá hefði ráðherra brotið gegn rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Auk þessa voru gerðar athugasemdir við fullyrðingar ráðherra og ráðuneytis hans er lutu að yfirstjórnunarheimildum þess gagnvart Samgöngustofu. 

Umboðsmaður reifaði helstu lagaákvæði og reglur sem á reyndi og taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu stjórnvalda. Benti hann m.a. á að á því hefði verið byggt í íslenskum rétti að að löggjafanum væri, að vissum skilyrðum uppfylltum, heimilt að fela ráðherra vald til að setja reglur um fyrirkomulag atvinnustarfsemi. Ekki væru forsendur til að fullyrða að ákvörðun ráðuneytisins hefði byggst á ófullnægjandi lagaheimildum í ljósi stjórnarskrár.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

 

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar sem barst umboðsmanni Alþingis 10. febrúar 2020 og þér komuð á framfæri f.h. A ehf. vegna þeirrar ákvörðunar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra frá 12. júlí 2019 að synja beiðni félagsins um tilraunarleyfi til þess að sigla með fleiri en 12 farþega á svonefndum RIB-bátum.

Í kvörtuninni er á því byggt að þær reglur sem þau stjórnvöld sem fara með málaflokkinn, þ.e. ráðuneytið og Samgöngustofa, stangist á við þá vernd sem atvinnuréttindi njóta á grundvelli 75. gr. stjórnarskrár að því marki sem þær takmarka leyfilegan farþegafjölda á bátunum. Auk þess verður ráðið af kvörtuninni að félagið telji að með ákvörðun sinni hafi ráðherra brotið gegn rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þá eru gerðar athugasemdir við fullyrðingar ráðherra og ráðuneytis hans er lúta að yfirstjórnunarheimildum þess gagnvart Samgöngustofu.

Í tilefni af kvörtun yðar var samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu ritað bréf, dags. 25. febrúar 2020, þar sem þess var óskað að ráðuneytið veitti umboðsmanni upplýsingar um endurskoðun á reglum sem giltu um RIB-báta á árinu 2013 í kjölfar tilmæla innanríkisráðuneytisins þar um og niðurstöðu hennar og, eftir atvikum, þær aðgerðir, s.s. breytingar á reglum, sem gripið var til í kjölfar þeirrar endurskoðunar. Var þess óskað að ráðuneytið afhenti umboðsmanni öll gögn sem kynnu að varpa ljósi á endurskoðun þeirra atriða sem lutu að farþegafjölda í RIB-bátum.

Svör ráðuneytisins bárust umboðsmanni 2. júní 2020. Af þeim upplýsingum og gögnum sem bárust verður ráðið að ekki hafi þótt tilefni til þess að víkja frá viðmiðinu um 12 farþega, eins og síðar verður rakið.

Í kjölfarið var ráðuneytinu ritað bréf að nýju, dags. 31. ágúst 2020, þar sem þess var óskað að það lýsti viðhorfi sínu til kvörtunarinnar varðandi þann lagagrundvöll sem takmarkanir á leyfilegum farþegafjölda á RIB-bátum byggjast á og þá hvort og að hvaða leyti þær ættu sér fullnægjandi stoð í lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum. Teldi ráðuneytið þær takmarkanir eiga sér fullnægjandi stoð í lögunum var þess óskað að ráðuneytið lýsti rök­studdu viðhorfi sínu til þess hvort ákvæði laganna fælu í sér nægilega skýra afstöðu löggjafans til þeirrar takmörkunar á atvinnuréttindum sem um ræðir með hliðsjón af l. mgr. 75. gr. stjórnarskrár.

Svör ráðuneytisins bárust umboðsmanni með bréfi, dags. 1. október 2020. Þar var þeirri afstöðu lýst að téðar takmarkanir ættu sér fullnægjandi lagastoð og gengju ekki lengra en 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár heimilaði. Þar sem yður var sent afrit af svari ráðuneytisins og veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum f.h. A ehf., sem þér gerðuð með bréfi, dags. 13. nóvember 2020, tel ég ekki tilefni til þess að rekja inntak svars ráðuneytisins að þessu leyti frekar hér.

  

II

1

Forsaga málsins er sú að með úrskurði sínum frá 23. maí 2013 staðfesti innanríkisráðherra þá ákvörðun Siglingastofnunar, nú Samgöngustofu, að synja beiðni A ehf. um leyfi til þess að sigla með fleiri en 12 farþega í RIB-bátum sem félagið nýtir í starfsemi sinni.

Af úrskurðinum verður ráðið að sú niðurstaða hafi einkum byggst á öryggissjónarmiðum en í ákvörðun Siglingastofnunar kemur fram að RIB- bátarnir uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til smíði báta sem flytja fleiri en 12 farþega, sem leiddar voru af ákvæðum reglugerðar nr. 666/2001, um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum, með síðari breytingum, og öðrum reglum þar um, þ.m.t. svonefndum Norðurlandareglum um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum.

Samhliða því að úrskurða í ofangreindu máli beindi innanríkisráðuneytið þó einnig þeim tilmælum til Siglingastofnunar að taka þær reglur sem giltu um RIB-báta til endurskoðunar enda teldi ráðuneytið það nauðsynlegt. Af þeim upplýsingum og gögnum sem ráðuneytið afhenti umboðsmanni vegna fyrirspurnar hans að þessu leyti verður ekki annað ráðið en að Samgöngustofu hafi ekki þótt tilefni til að grípa til aðgerða eftir þá endurskoðun, svo sem að undirbúa breytingar á þeim reglum og stjórnvaldsfyrirmælum sem taka til RIB- bátanna eða endurskoða afstöðu sína til þess farþegafjölda sem heimilt er að flytja með bátunum.

Sú ákvörðun sem kvörtun yðar lýtur að, þ.e. synjun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra frá 12. júlí 2019 á beiðni A um tilraunarleyfi til þess að sigla með fleiri en 12 farþega, byggist að hluta til á sömu sjónarmiðum og framangreindur úrskurður innanríkisráðherra. Af gögnum málsins verður ráðið að beiðnin hafi verið lögð fram á grundvelli 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 666/2001 þar sem mælt er fyrir um heimild ráðherra til þess að samþykkja, að fengnum tillögum Samgöngustofu, ákvæði um að undanþiggja skip tilteknum sérkröfum reglugerðarinnar í tengslum við innanlandssiglingar við Ísland.

Í reglugerðinni er mælt fyrir um þær kröfur sem gerðar eru til smíði og búnaðar báta sem nýttir eru til þess að sigla með fleiri en 12 farþega, þ.e. farþegaskip, sbr. 5. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar. Í ákvörðun ráðherra kemur að þessu leyti eftirfarandi fram:

„Undanþágur samkvæmt [3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 666/2001] má einungis veita frá sérkröfum reglugerðarinnar. [...] þar sem RIB-bátar uppfylla ekki [skilyrði reglugerðarinnar], auk þess sem vandséð er að beiðni um undanþágu rúmist innan heimilda reglugerðarinnar, eru ekki forsendur fyrir undanþágu á grundvelli reglugerðinnar. Reglur þær sem ná til RIB-báta eru settar með stoð í lögum nr. 47/2003 um eftirlit með skipum (áður lög nr. 35/1993) en markmið laganna er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega. Eins og fram kemur í 5. mgr. 1. gr. laganna eru farþegaflutningar í atvinnuskyni með skipum háðir leyfi Samgöngustofu. Hvergi er í löggjöf að finna heimild fyrir ráðherra til að veita sérstök tilraunaleyfi sem gefa heimild til frávika frá gildandi löggjöf um öryggi farþegaskipa.“

  

2

Af ákvörðun ráðherra um að synja beiðni A ehf. um tilraunarleyfi verður ekki annað ráðið en að hún byggist á þeirri grundvallarforsendu að skip sem flytur fleiri en 12 farþega teljist farþegaskip í skilningi laga og verði annaðhvort að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum til gerðar þeirra og búnaðar eða fá frá þeim undanþágu sem byggist á fullnægjandi lagaheimild. Af ákvörðuninni verður jafnframt ráðið að lagt hafi verið til grundvallar að RIB-bátar A ehf. fullnægi ekki öllum þeim kröfum sem eru gerðar til farþegaskipa í reglugerð nr. 666/2001, um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum, og að ekki sé heimilt að veita félaginu undanþágu frá þeim kröfum.

Athugun umboðsmanns vegna málsins hefur einkum lotið að þeim lagagrundvelli sem takmarkanir á leyfilegum farþegafjölda á RIB-bátum við farþegaflutninga í atvinnuskyni byggjast á og hvort þær reglur sem gilda um þær eigi sér stoð í lögum og uppfylli þau skilyrði sem koma fram í stjórnarskrá.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár er öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Samkvæmt 2. málsl. ákvæðisins má þó setja þessu frelsi skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.

Eins og leiðir af þessu ákvæði stjórnarskrárinnar er heimilt að skerða þau réttindi sem ákvæðið verndar. Skilyrði þess að slíkt sé heimilt er að skerðing byggist á lögum frá Alþingi og að skerðing sé nauðsynleg vegna almannahagsmuna. Þrátt fyrir að skerðing á atvinnuréttindum verði að byggjast á settum lögum frá Alþingi getur Alþingi þó verið heimilt að fela ráðherra vald til að setja nánari reglur um fyrirkomulag atvinnustarfsemi í stjórnvaldsfyrirmælum. Slík stjórnvaldsfyrirmæli verða þá að eiga stoð í efnisreglum þeirrar löggjafar sem hún byggist á.

Um eftirlit með skipum gilda samnefnd lög nr. 47/2003 en samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna taka þau til allra íslenskra skipa. Eitt helsta markmið laganna er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega og skal markmiðinu náð með því að gera tilteknar kröfur, m.a. um gerð og búnað skipa, sbr. 6. mgr. 1. gr. laganna.

Í samræmi við þetta markmið er kveðið á um það í 1. mgr. 3. gr. laganna að hvert skip skuli smíðað og búið út á þann hátt að öryggi mannslífa sé tryggt eins og kostur er og með tilliti til þeirra verkefna sem því er ætlað á hverjum tíma. Þá segir í 7. mgr. 1. gr. laganna að tilgangur þeirra og reglugerða settra samkvæmt þeim sé að laga íslenskan rétt að þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt ákvæðum alþjóðasamninga og samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Í lögunum er ekki að finna nánari skilgreiningu á því hvaða skip teljist farþegaskip, en til hliðsjónar tek ég þó fram að samkvæmt 3. tölul. 2. gr. laga nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, er farþegaskip skilgreint sem hvert það skip, skrásett sem farþegaskip, sem getur flutt fleiri en 12 farþega á sjó, ám eða vötnum, til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan. Er sú skilgreining, samkvæmt því sem kemur fram í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi til laga nr. 76/2001, byggð á sömu skilgreiningu og notuð er í alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW) frá 1978.

Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, segir: 

„Skip skal fullnægja skilyrðum reglna á hverjum tíma um smíði, búnað og örugga starfsemi skips, þ.m.t. um burðarvirki þess, vatnsþétta niðurhólfun, lagnakerfi, bol, björgunar- og öryggisbúnað, vélbúnað, fjarskiptabúnað, rafbúnað, eldvarnabúnað, mengunarvarnabúnað, siglingatæki, merkingar, lyf og læknisáhöld og annan búnað og mönnun sem varðar öryggi skipsins til að tryggja öryggi skipverja, farþega, skips og farms og varnir gegn mengun frá skipum.“

Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laganna ákveður ráðherra nánar í reglugerð um smíði, stöðugleika, hleðslumerki og búnað skipa.

Í 5. mgr. 1. gr. laganna er síðan mælt fyrir um það að farþegaflutningar í atvinnuskyni, þ.m.t. skoðunar- og veiðiferðir ferðamanna, með skipum sem lögin gilda um séu háðir leyfi Samgöngustofu. Skal slíkt leyfi gefið út þegar leitt er í ljós að fullnægt er ákvæðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim, svo og ákvæðum annarra laga og reglugerða sem gilda um skip í farþegaflutningum. Er ráðherra heimilt að setja reglugerð m.a. um útgáfu og skilyrði slíks leyfis.

Í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 47/2003 kemur eftirfarandi fram um ákvæði 5. mgr. 1. gr.:

„Í 5. mgr. er kveðið á um að farþegaflutningar í atvinnuskyni með skipum séu háðir leyfi Siglingastofnunar. Ákvæði þessarar málsgreinar kom í lög nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, með lögum nr. 74/1998. Þá þótti brýnt, í ljósi þess að framboð á ýmiss konar skemmti- og útsýnisferðum með skipum á sjó, ám og vötnum hérlendis hafði aukist ár frá ári, að auka eftirlit með þessari starfsemi. Gildissviði laganna var breytt þannig að þau taka til allra skipa sem flytja farþega í atvinnuskyni á sjó, ám eða vötnum án tillits til stærðar. Skiptir þar ekki máli hvort skipið er skráð á skipaskrá sem farþegaskip, hversu marga farþega það má flytja og hvar og hvenær það siglir með farþega. [...] Kveðið var á um að farþegaflutningar með skipum væru háðir leyfi. Tilgangurinn með ákvæðinu er að lögfesta skýran grundvöll fyrir samræmdu eftirliti með smíði og búnaði skipa í farþegaflutningum, aðbúnaði og öryggi farþega, mönnun skipanna, atvinnuréttindum og þjálfun skipverja og öðrum öryggisþáttum í starfseminni. [Samgöngustofa] gefi út slíkt leyfi þegar sýnt hefur verið fram á að uppfyllt séu ákvæði laga og reglugerða sem um skipið og starfsemi þessa gilda. Átt er við lög um eftirlit með skipum og reglugerðir sem settar hafa verið með stoð í þeim lögum, en einnig önnur lög og reglugerðir sem gilda um skip í farþegaflutningum. [...] Frumvarpið gerir ráð fyrir að sett verði reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um útgáfu og skilyrði leyfisins, og gjaldtöku fyrir leyfið. Í reglugerð verður þannig heimilt að setja m.a. ákvæði um gildistíma leyfisins, takmörkun farsviðs, hámarksfjölda farþega og önnur atriði sem lúta að öryggi farþega, t.d. að keypt hafi verið vátrygging fyrir tjóni farþega, sbr. reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum, nr. 463/1998.“ (Þskj. 400 – 360. mál, 128. löggjafarþingi 2002-2003).

Á grundvelli 5. mgr. 1. gr. hefur verið sett reglugerð nr. 463/1998, um leyfi til farþegaflutninga með skipum, en reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð nr. 654/2017. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar ákveður Samgöngustofa leyfilegan hámarksfjölda á skipi. Þá segir í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að leyfi Samgöngustofu til farþegaflutninga í atvinnuskyni skuli aldrei gefið út til lengri tíma en eins árs í senn.

Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er síðan fjallað nánar um skilyrði þess að leyfi til farþegaflutninga verði veitt. Meðal þeirra er að framkvæmd hafi verið skoðun á skipinu í samræmi við lög um eftirlit með skipum og að „skoðun [...] hafi leitt í ljós að fullnægt [sé] ákvæðum laga um eftirlit með skipum og reglum settum skv. þeim sem um skipið gilda,“ sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 3. gr.

Samkvæmt 2. málsl. 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar getur Samgöngustofa veitt undanþágu frá kröfum sem gerðar eru til skipa að því marki sem heimilt er í viðeigandi reglum. Slík undanþága verði þó aðeins veitt hafi eigandi skips eða útgerðarmaður sýnt fram á með áhættumati, prófunum eða öðru að búnaður, efni, tæki, verklagsreglur eða annað, tryggi að minnsta kosti jafngilt öryggisstig og viðeigandi kröfum er ætlað að tryggja.

Í 3. gr. laga nr. 47/2003 er síðan fjallað um smíði og búnað skipa. Segir þar í 1. mgr. 3. gr. að hvert skip skuli smíðað og búið út á þann hátt að öryggi mannslífa sé tryggt eins og kostur er og með tilliti til þeirra verkefna sem því er ætlað á hverjum tíma. Þá segir í 2. mgr. 3. gr. að skip skuli fullnægja skilyrðum reglna á hverjum tíma um smíði, búnað og örugga starfsemi skips, þ.m.t. um burðarvirki þess, vatnsþétta niðurhólfun, lagnakerfi, bol, björgunar- og öryggisbúnað, vélbúnað, fjarskiptabúnað, rafbúnað, eldvarnabúnað, mengunarvarnabúnað, siglingatæki, merkingar, lyf og læknisáhöld og annan búnað og mönnun sem varðar öryggi skipsins til að tryggja öryggi skipverja, farþega, skips og farms og varnir gegn mengun frá skipum.

Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. ákveður ráðherra nánar í reglugerð um smíði, stöðugleika, hleðslumerki og búnað skipa. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið sett reglugerð nr. 666/2001, um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum. Eins og áður greinir gildir reglugerðin um „farþegaskip“ en samkvæmt 5. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar er „farþegaskip“ skip sem má flytja fleiri en 12 farþega. Er þessi skilgreining í samræmi við ákvæði ofangreindrar tilskipunar nr. 2009/45/EB, sbr. ákvæði d-liðar 2. gr. hennar.

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 666/2001 er tilgangur hennar að „koma á samræmdu öryggisstigi með tilliti til mannslífa og eigna á nýjum og gömlum farþegaskipum og háhraðafarþegaförum þegar skip úr þessum flokkum eru í innanlandssiglingum“ en í reglugerðinni er að öðru leyti mælt fyrir um þau tæknilegu skilyrði sem smíði og búnaður skips/báts þarf að uppfylla eigi að koma til útgáfu leyfis sem tekur til flutninga með fleiri en 12 farþega.

Með reglugerðinni og síðari breytingum á henni hafa verið innleiddar EES-gerðir sem lúta að öryggi skipa sem sigla með farþega í atvinnuskyni, síðast tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/2108 frá 15. nóvember 2017 um breytingu á tilskipun ráðsins nr. 2009/45/EB um öryggisreglur og staðla fyrir farþegaskip, sbr. reglugerð nr. 1192/2020, um breytingu á reglugerð nr. 666/2001.

  

3

Af gögnum málsins, þ.m.t. fyrirliggjandi ákvörðunum Samgöngustofu og ráðuneytisins svo og úrskurði ráðuneytisins frá 2013, verður ráðið að þeir RIB-bátar sem A ehf. nýtir í starfsemi sinni séu smíðaðir í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 94/25/EB frá 16. júní 1994 um CE-merkta skemmtibáta. Sú tilskipun var upphaflega innleidd með reglugerð nr. 168/1997, um skemmtibáta, en nú er í gildi reglugerð nr. 130/2016, um hönnum og framleiðslu skemmtibáta og einmenningsfara, en með henni var innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2013/53/ESB frá 20. nóvember 2013 um sama efni.

Ákvæði reglugerðar nr. 130/2016 taka ekki til báta sem ætlunin er að nota í atvinnuskyni en samkvæmt 3. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar nær hugtakið „skemmtibátur“ til „allra [tegunda] fara, að undanskildum einmenningsförum, sem eru ætluð til íþrótta og tómstunda, óháð knúningsmáta, sem eru með bollengd frá 2,5 [metrum] til 24 [metra].“

Ljóst er að nokkur munur er á þeim kröfum sem gerðar eru til smíði og búnaðar báta að þessu leyti miðað við þær kröfur sem eru gerðar til farþegaskipa sem flytja farþega í atvinnuskyni, sbr. ákvæði reglugerða nr. 463/1998 og nr. 666/2001. Að þessu leyti liggur einnig fyrir að núgildandi leyfi A ehf. og annarra aðila sem nýta RIB-báta í starfsemi sinni, til að sigla með allt að 12 farþega í bátunum felur í sér frávik frá þeim reglum sem almennt gilda um siglingar með farþega í atvinnuskyni.

  

4

Samkvæmt því sem að framan er rakið er ljóst að þær auknu kröfur sem gerðar eru til smíði og búnaðar báta sem sigla með fleiri en 12 farþega má rekja til þess markmiðs sem stefnt er að með lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, að tryggja öryggi farþega, sbr. einkum 6. mgr. 1. gr. laganna. Þá verður ekki annað séð en að þær kröfur sem gerðar eru til smíði og búnaðar slíkra báta í reglugerðum nr. 463/1998 og 666/2001 eigi einnig stoð í fyrirmælum í 1. mgr. 3. gr. laganna um að hvert skip skuli smíðað og búið út á þann hátt að öryggi mannslífa sé tryggt eins og kostur er og með tilliti til þeirra verkefna sem því er ætlað á hverjum tíma.

Það er ljóst af ákvæðum laga um öryggi í skipum og stjórnvaldsfyrirmælum, þar sem þessar kröfur hafa verið útfærðar með nánari hætti, að með þeim hefur meðal annars verið stefnt að því að innleiða í íslenskan rétt kröfur sem lúta að öryggi farþega á skipum, þ.m.t. farþegaskipum sem flytja fleiri en 12 farþega í atvinnuskyni og reglugerð nr. 666/2001 tekur til.

Við athugun mína vegna kvörtunarinnar hef ég staðnæmst við það atriði að ekki er mælt beinlínis fyrir um ofangreind viðmið um farþegafjölda, og þær auknu kröfur er lúta að smíði og búnaði báta/skipa sem hafa leyfi til þess að sigla með fleiri en 12 farþega, í ákvæðum laga nr. 47/2003, og þá einkum í ljósi kröfu 75. gr. stjórnarskrárinnar að mælt sé fyrir um takmarkanir á atvinnufrelsi í ákvæðum laga.

Líkt og að ofan greinir hefur hins vegar verið á því byggt í íslenskum rétti að löggjafanum sé að vissum skilyrðum uppfylltum heimilt að fela ráðherra vald til að setja reglur um fyrirkomulag atvinnustarfsemi. Slík heimild verður hins vegar stoð í efnisreglum löggjafar. Það ræðst einkum af eðli þeirra takmarkana sem um ræðir hversu ríkar kröfur verða gerðar til skýrleika þeirra meginreglna sem koma fram í lögum að þessu leyti og því hvert umfang takmörkunarinnar er (sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson: „Lagaáskilnaðarregla atvinnufrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar.“ Líndæla: Sigurður Líndal sjötugur, 2. júlí 2001. Reykjavík 2001, bls. 399-421.)

Þegar litið er til eðlis og markmiðs þeirra takmarkana sem hér um ræðir, þ.e. að tryggja öryggi farþega, og þess að heimild ráðherra til þess að mæla fyrir um takmarkanir er bundin við ákveðin og skilgreind atriði sem tilgreind eru í lögum, þar með talið öryggi farþega, sbr. 5. mgr. 1. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 47/2003 tel ég ekki forsendur af minni hálfu til að fullyrða að ákvörðun ráðuneytisins í máli A ehf. byggist á ófullnægjandi lagaheimildum í ljósi 75. gr. stjórnarskrár. Ég tel því ekki tilefni til þess að fjalla frekar um þetta atriði i kvörtun yðar.

  

5

Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við að ráðherra hafi synjað beiðni A ehf. um tilraunarleyfi til þess að sigla með fleiri en 12 farþega á RIB-bátum.

Ákvæði 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 666/2001, um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum, með síðari breytingum, hljóðar svo:

„Samgönguráðherra er heimilt, að fengnum tillögum [Samgöngustofu], að samþykkja ákvæði um að undanþiggja skip tilteknum sérkröfum þessarar reglugerðar í tengslum við innanlandssiglingar við Ísland, þar með taldar siglingar á eyjahafsvæðum, sem eru í skjóli fyrir opnu hafi við tiltekin starfsskilyrði, t.d. að því er varðar lægri kenniöldu, árstíðabundnar siglingar, siglingar aðeins í björtu, siglingar við heppileg loftslags- eða veðurskilyrði, stuttar siglingar eða nálægð við björgunarþjónustu, að því tilskildu að ekki sé dregið úr öryggi og með fyrirvara um málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar.“

Ég tel að skilja verði tilvísun ákvæðisins til „sérkrafna“ reglugerðarinnar á þá leið að átt sé við atriði sem tengjast smíði og búnaði viðkomandi skips eða báts. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að í beiðni A ehf. um tilraunarleyfi hafi í raun aðeins falist beiðni um leyfi til þess að sigla með fleiri en 12 farþega í RIB-bátunum án þess að tiltekið væri eða rökstutt sérstaklega, umfram almennar yfirlýsingar forsvarmanns félagsins um öryggi bátanna, frá hvaða sérkröfum væri óskað eftir undanþágu.

Með hliðsjón af þessu tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í málinu og þá afstöðu ráðuneytisins að ekki hafi verið forsendur til þess að veita félaginu undanþágu. Að öðru leyti tel ég þær athugasemdir sem fram koma í kvörtuninni, meðal annars um brot á rannsóknar- og meðalhófsreglu, ekki þess eðlis að tilefni sé til að taka þær til nánari umfjöllunar.

  

III

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Hinn 1. nóvember sl. var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson