Húsnæðismál. Félagslegar íbúðir.

(Mál nr. 10908/2021)

Kvartað var yfir töfum á að fá úthlutað félagslegu leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg.

Umboðsmaður benti viðkomandi á að freista þess að leggja fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála sem hefði réttarskipandi úrræði til að knýja á um afgreiðslu málsins. Þegar úrskurður nefndarinn lægi fyrir og ef viðkomandi teldi sig enn beittan rangsleitni mætti leita aftur til umboðsmanns.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar fyrir hönd A, dags. 12. janúar sl., sem beinist að Reykjavíkurborg. Af kvörtuninni, gögnum sem hafa borist frá móttöku hennar, og samtali starfsmanns á skrif­stofu umboðsmanns við yður verður ráðið að hún beinist einkum að töfum á að A verði úthlutað félagslegu leiguhúsnæði hjá Reykja­víkur­borg.

Í kvörtuninni kemur fram að A hafi beðið eftir húsnæði á vegum Reykja­víkurborgar síðan árið 2004. Hún hafi leitað til yðar og saman hafið þér farið á fjölda funda en þar sem A virðist „redda sér húsnæði þá [sé] hún ekki flokkuð í „neyð“ og því [fari] hún ekki ofar á listann“. Þér teljið að mismunun eigi sér stað þar sem A viti til þess að sumir vinir hennar hafi farið í gegnum margar úthlutanir, fólk í neyslu sem hafi farið í meðferð en fallið, en fengið svo húsnæði aftur.

  

II

Í tilefni af kvörtun yðar tel ég rétt að fara nokkrum orðum um það með hvaða hætti eftirliti umboðsmanns Alþingis með málshraða í stjórn­sýslunni er almennt hagað.

Ein af þeim óskráðu meginreglum sem ber að fylgja í stjórnsýslunni er að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Þetta hefur gjarnan verið orðað svo að leysa beri úr málum borgaranna og erindum þeirra án þess að óeðlilegar eða óréttlættar tafir verði þar á. Það fer m.a. eftir eðli og umfangi viðkomandi máls og álagi í starfi stjórnvaldsins hvaða tími telst hæfilegur og eðlilegur við afgreiðslu máls í skilningi málshraðareglunnar.

Við setningu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var hnykkt á hinni óskráðu málshraðareglu að því er varðar þau mál sem falla undir gildissvið laganna. Til þess að tryggja virkni hennar í málum borgaranna er í 9. gr. laganna kveðið á um tilteknar reglur til að hraða afgreiðslu mála, svo sem um samtímis öflun umsagna og skyldu stjórnvalda til að upplýsa um fyrirsjáanlegar tafir, ástæður þeirra og hvenær ákvörðunar sé að vænta ef um slíkar tafir er að ræða.

Þá er í 4. mgr. 9. gr. kveðið á um að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Þegar tekin er afstaða til þess hvort afgreiðsla máls hjá lægra settu stjórnvaldi hefur dregist óhæfilega á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga getur reynt á hvaða skyldur hvíli á því stjórn­valdi til þess að afgreiða málið, þ.e. til þess að taka efnislega afstöðu til málsins og að afgreiða málið innan hæfilegs tíma. Komist æðra stjórnvald að þeirri niðurstöðu að mál hafi dregist óhæfilega felst jafnframt í þeirri niðurstöðu almennt sú afstaða að lægra stjórnvaldi beri að afgreiða málið sem fyrst.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, skulu sveitarstjórnir, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Í 46. gr. laganna segir að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki séu færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið sé að varanlegri lausn. Samkvæmt 63. gr. laganna getur málsaðili skotið ákvörðunum félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála samkvæmt lögum nr. 85/2015.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, gildir sú regla að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þessi regla setur því skorður að umboðsmaður geti í vissum tilvikum tekið til úrlausnar kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála eða þegar kæruheimild samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga á við.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála og fyrir liggur að mál hefur verið til meðferðar í nokkurn tíma og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur almennt, þrátt fyrir áður­nefnda reglu um að kæruleið sé tæmd, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá stjórnvaldinu hvað líði afgreiðslu viðkomandi máls. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála enda hefur reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert er að afgreiða málið. Í þessum tilvikum lýkur umboðsmaður þá athugun sinni á málinu. Þessar fyrirspurnir umboðsmanns eru líka settar fram til þess að fylgjast með því hvort fyrir hendi sé almennur eða kerfislægur vandi hjá stjórnvöldum að því er varðar málshraða.

Komi slíkt í ljós eða fyrir liggur að mál hafa dregist óeðlilega og án fullnægjandi skýringa þarf umboðsmaður að taka afstöðu til þess hvort tilefni er til þess að hann ráðist í frekari athugun á málinu að eigin frumkvæði eða, ef um einstakt eða einstök mál hjá sama stjórnvaldi er að ræða, hvort leiðbeina eigi viðkomandi um að leita til kærustjórnvalds ef kæruheimild vegna tafa á afgreiðslu máls er fyrir hendi eða taka kvörtunina til efnislegrar úrlausnar.

Við mat á því hvaða leið er rétt að fara í þessu sambandi þarf að hafa í huga þann mun sem er á réttaráhrifum úrskurðar kærustjórnvalds annars vegar og tilmælum umboðsmanns hins vegar. Í fyrra tilvikinu er niðurstaðan bindandi fyrir lægra setta stjórnvaldið en það er komið undir ákvörðun stjórnvaldsins hvort það verður við tilmælum umboðsmanns, þótt það sé almennt raunin. Almennt leiðir einnig af áðurnefndri 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga að síðari kosturinn á fyrst og fremst við ef umboðsmaður metur það svo að úrlausn hans í tilefni af kvörtun muni ekki einskorðast við atvik í viðkomandi máli heldur almenna starfshætti stjórnvaldsins að þessu leyti.

  

III

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að A hafi upphaflega sótt um félagslegt leiguhúsnæði árið 2005. Hún hafi hins vegar ekki uppfyllt skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði fyrr en árið 2017. Frá þeim tíma hafi hún verið á biðlista eftir húsnæði hjá Reykjavíkurborg án þess þó að vera úthlutað húsnæði.

Eins og áður hefur komið fram er það skilyrði laga nr. 85/1997 að til þess að umboðsmaður geti tekið kvörtun til efnislegrar meðferðar verði viðkomandi máli að hafa verið ráðið endanlega til lykta á vettvangi stjórnsýslunnar. Af þeim sökum hef ég gætt varfærni við að taka afstöðu til þess að hvort tafir sem orðnar eru á tilteknum stjórnsýslumálum sem enn eru til meðferðar í stjórnsýslunni séu óeðlilegar eða óréttlættar í skilningi málshraðareglunnar, þ.e. að afgreiðsla málsins hafi dregist „óhæfilega“ að teknu tilliti til sjónarmiða um atriði eins og umfang og eðli máls, almennt álag í starfsemi viðkomandi stjórnvalds og þeirra fjárráða sem stjórnvald hefur til að sinna þeim verkefnum sem mál varðar.

Með hliðsjón af því tel ég ekki rétt að aðhafast frekar vegna kvörtunar yðar að svo stöddu. Ef þér teljið að afgreiðsla málsins hafi dregist óhæfilega getið þér freistað þess að leggja fram kæru á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga hjá úrskurðarnefnd vel­ferðar­mála, sbr. 63. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í því sambandi bendi ég á að ólíkt nefndinni sem fer með úrskurðarvald á kærustigi í þeim málaflokki sem hér um ræðir hefur umboðsmaður Alþingis ekki réttarskipandi vald eða úrræði til að knýja á um afgreiðslu málsins.

Ef A telur sig enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getur hún, eða þér fyrir hennar hönd, leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1 mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu.

Undirritaður fór með mál þetta á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson