Almannavarnir. COVID-19.

(Mál nr. 10954/2021)

Eigandi veitingastaðar kvartaði yfir túlkun og beitingu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tilteknu ákvæði reglugerðar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar þar sem mælt væri fyrir um leyfilegan opnunartíma veitingastaða þar sem heimilaðar væru áfengisveitingar. 

Ekki varð séð að gripið hefði verið til aðgerða af hálfu lögreglunnar vegna starfsemi staðarins og þar með ekki til að dreifa ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem hefði áhrif á hagsmuni eigandans. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Var viðkomandi leiðbeint um hvernig reka mætti málið áfram innan stjórnsýslunnar. 

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

 

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 20. febrúar sl., sem borist hefur umboðsmanni Alþingis og lýtur að túlkun og beitingu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH) á 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 123/2021, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, þar sem mælt er fyrir um leyfilegan opnunartíma veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar.

Eftir því sem fram kemur í kvörtun yðar, svo og því sem fram kom í samtali starfsmanns skrifstofu umboðsmanns við yður 22. febrúar sl., verður ráðið að athugasemdir yðar og annarra eigenda veitingahússins X, snúi að þeirri afstöðu LRH að veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar skuli vera tómir kl. 22, þ.e. við lokun samkvæmt fyrirmælum reglugerðarinnar um leyfilegan opnunartíma, enda sé óheimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 21. Af tilkynningu sem LRH birti m.a. á vef lögreglunnar hinn 16. febrúar sl. verður ráðið að LRH telji ofangreinda afstöðu sína í samræmi við túlkun heilbrigðisráðuneytisins á inntaki 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

Af kvörtun yðar, svo og því sem fram kom í ofangreindu samtali yðar við starfsmann umboðsmanns, verður ráðið að í ljósi ofangreindrar afstöðu LRH til túlkunar á 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar sé veitingastöðum, þ.m.t. X, í raun ófært að selja veitingar, s.s. áfenga drykki, eftir kl. 21 á kvöldin þrátt fyrir að leyfilegt sé að hafa staðinn opinn til kl. 22. Að þessu leyti vísið þér einnig til 3. mgr. 28. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þar sem mælt er fyrir um að rýming staðar skuli hafa farið fram eigi síðar en einni klukkustund eftir að heimilum afgreiðslutíma lýkur. Hinn 22. febrúar sl. senduð þér jafnframt upplýsingar um samskipti lögreglunnar á Norðurlandi eystra við veitingamenn sem bera með sér aðra túlkun og beitingu á umræddu reglugerðarákvæði en er lögð til grundvallar af hálfu LRH.

  

II

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðs­manns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Að þessu leyti vek ég einnig athygli yðar á því að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem kunna að hafa verið á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að ekki verður ráðið af kvörtun yðar að komið hafi til þess að gripið hafi verið til aðgerða af hálfu LRH vegna starfsemi X að þessu leyti, s.s. með lokun staðarins eða beitingu viðurlaga að öðru leyti. Þá verður ekki séð að athugasemdum yðar, og annarra eigenda X, hafi verið komið á framfæri við LRH eða að leitað hafi verið eftir afstöðu lögreglunnar eða nánari skýringum að þessu leyti.

Með hliðsjón af þessu, og þá með tilliti til þess sem að ofan greinir um hlutverk umboðsmanns, eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997, brestur því lagaskilyrði fyrir því að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar af hálfu umboðsmanns.

Í samræmi við þau sjónarmið sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, sbr. ofangreint, tel ég rétt, ef þér teljið tilefni til, að þér komið sjónarmiðum yðar um túlkun og beitingu 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 123/2021, s.s. með tilliti til skýringar þess til samræmis við ákvæði reglugerðar nr. 1277/2016 og sjónarmiða um skýrleika og samræmi í framkvæmd lögreglunnar á landsvísu, á framfæri við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og leitið eftir formlegri afstöðu hennar til þeirra, áður en þér leitið til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi. Í því sambandi bendi ég yður á að í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttarins á hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svara sé ekki vænst.

Vegna þess misræmis í framkvæmd lögregluembætta á umræddum reglum sem gögnin sem þér senduð 22. febrúar sl. benda til bendi ég yður jafnframt á að samkvæmt 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fer ríkislögreglustjóri með tiltekið samhæfingar- og samræmingarhlutverk gagnvart lögreglunni. Yður kann því að vera fær sú leið að vekja athygli ríkislögreglustjóra á því atriði.

Í ljósi þess sem fram kemur í tilkynningu LRH frá 16. febrúar sl. bendi ég yður að lokum á að þér getið jafnframt freistað þess að koma sjónarmiðum yðar um túlkun reglugerðar nr. 123/2021 á framfæri við heilbrigðisráðuneytið en í því sambandi tek ég þó fram að heilbrigðisráðherra fer ekki með yfirstjórn lögreglunnar.

  

III

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins. Ég tek fram að ef þér farið þá leið að leita til LRH en teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu embættisins  getið þér leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi og verður þá tekið til athugunar að hvaða marki hún getur komið til athugunar.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

    

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson