Skattar og gjöld. Þjónustugjöld.

(Mál nr. 10213/2019)

Kvartað var yfir gjaldskrá fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar.  

Í svari umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við bréfi umboðsmanns kom fram að það teldi þörf á að endurskoða gjaldskránna, m.a. í ljósi kvörtunarinnar. Auk þess að skoða framkvæmd stofnunarinnar við gjaldtöku á grundvelli hennar. Umboðsmaður lét athugun sinni því lokið.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

 

 

Ég vísa til kvörtunar A ehf. 19. september 2019 yfir 3. mgr. 25. gr. gjaldskrár nr. 535/2015, fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar, og síðari samskipta.

Mér hefur nú borist svar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við bréfi sem því var ritað 29. desember sl. Eins og kemur fram í svari ráðuneytisins, sem fylgir þessu bréfi í ljósriti, telur það þörf á að endurskoða gjaldskrá Umhverfisstofnunar, m.a. í ljósi kvörtunar félagsins, sem og að skoða framkvæmd stofnunarinnar við gjaldtöku á grundvelli hennar. Þá segir að ráðuneytið muni óska eftir upplýsingum frá stofnuninni um framkvæmdina og í kjölfarið meta hvort þörf sé á frekari breytingum á gjaldskrá stofnunarinnar og eftir atvikum beina tilmælum til hennar um framkvæmd gjaldtöku á grundvelli gjaldskrárinnar.

Svo sem áður hefur komið fram í samskiptum umboðsmanns Alþingis og A ehf. gat félagið freistað þess að bera ákvörðun Umhverfisstofnunar um gjaldtöku á grundvelli framangreindrar gjaldskrár undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Það gerði félagið hins vegar ekki m.a. þar sem kvörtunin lyti einkum að gjaldskránni og staðfestingu ráðherra á henni. Að því búnu upplýsti umboðsmaður að hann hefði til athugunar að taka málið til meðferðar og þá eftir atvikum á grundvelli frumkvæðisheimildar 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eins og nánar hefur komið fram í fyrri samskiptum. Var þá m.a. litið til þess að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. sömu laga er það skilyrði þess að umboðsmaður taki kvörtun til meðferðar að æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, í þessu tilviki úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í ljósi þess að ráðuneytið hefur nú tilkynnt mér um að það hafi gjaldskrá Umhverfisstofnunar og framkvæmd gjaldtöku á grundvelli hennar til skoðunar, m.a. í tilefni af kvörtun A ehf., tel ég ástæðu til að nefna að samkvæmt lögum nr. 85/1997, þ. á m. vegna þeirra sjónarmiða sem búa að baki fyrrnefndri 3. mgr. 6. gr. laganna, fjallar umboðsmaður almennt ekki um mál hafi stjórnvöld þau enn til meðferðar. Ef stjórnvald ákveður að taka mál til nýrrar athugunar eftir bréfaskipti við umboðsmann í tilefni af kvörtun leiðir það almennt til þess að hann lætur athugun sinni á málinu lokið að svo stöddu.

Ljóst er að málsmeðferð umhverfis- og auðlindaráðuneytisins getur leitt til þess að komið verði til móts við athugasemdir A ehf. samkvæmt kvörtun félagsins til umboðsmanns. Þannig getur hún t.d. haft í för með sér að ráðuneytið telji rétt að gjaldskránni verði breytt eða að ástæða sé til að beina tilmælum til stofnunarinnar. Ég bendi jafnframt á að félaginu kunna að vera aðrar leiðir færar til að fá hnekkt gjaldtöku Umhverfisstofnunar ef félagið telur ekki ástæðu til að bíða niðurstöðu ráðuneytisins, s.s. með því að leita aftur til stofnunarinnar og þá í tilefni af málsmeðferð ráðuneytisins eða með því að bera gjaldtökuna undir dómstóla. Ég árétta að með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé fyrir félagið að leita þessara leiða.

Með vísan til þess sem er rakið hér að framan hef ég hins vegar ákveðið að ekki sé tilefni fyrir mig til að halda áfram athugun á málinu meðan á málsmeðferð umhverfis- og auðlindaráðuneytisins stendur. Hef ég því ákveðið að ljúka athugun minni á kvörtun A ehf., sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður var settur umboðsmaður Alþingis 1. nóvember sl. á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson