Skattar og gjöld. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10935/2021)

Manneskja með lögheimili erlendis kvartaði yfir sjúkratryggingum. Þrátt fyrir að greiða skatt af fjármagnstekjum á Íslandi væri viðkomandi ekki sjúkratryggð í heilbrigðiskerfinu hér á landi.

Þar sem hvorki er gert ráð fyrir að umboðsmaður taki afstöðu til þess hvernig tekist hefur til með löggjöf frá Alþingi né að hann fjalli um mál fyrr en stjórnvaldsákvörðun liggur til grundvallar  voru ekki forsendur til að hann tæki kvörtunina til meðferðar.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 4. febrúar sl., sem þér beinið að sjúkratryggingum, og lýtur að því að þrátt fyrir að yður beri að greiða skatt af fjármagnstekjum yðar á Íslandi samkvæmt lögum séuð þér ekki sjúkratryggðar í heilbrigðiskerfinu hér á landi. Samkvæmt gögnum sem fylgja kvörtuninni eigið þér lögheimili í [tilteknu landi].

Með kvörtun yðar fylgir afrit af svari sjúkratrygginga frá 5. febrúar sl. við fyrirspurn yðar þar sem stofnunin upplýsir yður um að þegar einstaklingar flytji frá Íslandi falli sjúkratryggingar almennt niður. Sjúkratryggingar á Íslandi miði við búsetu en ekki atvinnu. Vísar stofnunin í því sambandi til 10. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.

  

II

1

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er jafnframt kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra sett stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

  

2

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er að fjallað er um sjúkratryggingar í lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Í 9. gr. kemur fram að sjúkratryggingar taki til heilbrigðisþjónustu og annarrar aðstoðar sem ákveðið hefur verið með lögunum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða samningum að veita á kostnað ríkisins eða með greiðsluþátttöku ríkisins. Jafnframt taki sjúkratryggingar til bóta samkvæmt lögunum sem greiddar séu í peningum. Sjúkratryggðir einstaklingar eigi rétt til aðstoðar svo sem nánar sé mælt fyrir um í lögunum.

Í 10. gr. laga nr. 112/2008 kemur fram hverjir eru sjúkratryggðir samkvæmt lögunum. Þar segir: „Sjúkratryggður er sá sem er búsettur á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur. Í athugasemdum við 10. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 112/2008 segir: „Meginreglan er því sú að einstaklingar öðlast ekki rétt til sjúkratrygginga fyrr en þeir hafa verið búsettir hér á landi í sex mánuði, og þá eingöngu frá og með þeim tíma, þ.e. rétturinn er ekki afturvirkur. Ákvæðið er nánast samhljóða 1. málsl. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, en þar segir að sjúkratryggður sé sá sem hafi verið búsettur á Íslandi, sbr. II. kafla, a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta skv. 1. mgr. 48. gr. sé óskað úr sjúkratryggingum, sbr. 3. mgr., nema annað leiði af milliríkjasamningum. (Sjá þskj. 955 á 135. löggj.þ. 2007-2008, bls. 39.)

Í 3. mgr. 10. gr. kemur fram að sjúkratrygging falli niður þegar sjúkratryggður flytur búsetu sína frá Íslandi, sbr. þó 11., 12. og 15. gr. laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Þá geti milliríkjasamningar sem Ísland er aðili að haft í för með sér undanþágur og takmarkanir á beitingu ákvæða laganna. Í umræddum ákvæðum laganna er síðan mælt fyrir um tilteknar undanþágur frá búsetuskilyrðinu, s.s. vegna náms eða atvinnu erlendis eins og nánar greinir þar.

Fjallað er um skattskyldu manna í 1. og 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.m.t. um skattskyldu af vaxtatekjum sbr. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. Af því er ljóst að ekki gilda sömu lagaskilyrði fyrir skyldu til að greiða fjármagnstekjuskatt á Íslandi og til að vera sjúkratryggður í heilbrigðiskerfinu hér á landi.

Af framangreindu verður ekki annað séð en að kvörtun yðar lúti fyrst og fremst að fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur tekið skýra afstöðu til. Því eru ekki skilyrði að lögum til að ég taki kvörtun yðar til meðferðar, a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

  

3

Að þessu sögðu tek ég fram að af kvörtun yðar verður ekki ráðið hvort fyrir liggur ákvörðun sjúkratrygginga um sjúkratryggingar yðar, s.s. um hvort þér uppfyllið skilyrði fyrir því að fá undanþágu frá þeirri meginreglu að sjúkratryggingar ráðist af búsetu, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008. Ef þér teljið að ákvörðun sem tekin hefur verið í máli yðar af hálfu sjúkratrygginga hafi ekki verið í samræmi við lög bendi ég yður því á að þér getið freistað þess að kæra slíka ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 36. gr. laga nr. 112/2008.  

Rétt er að vekja athygli á því að í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 112/2008 er kveðið á um að kæra til nefndarinnar skuli vera skrifleg og borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Komi til þess að þér skjótið ákvörðun til nefndarinnar getið þér, að fenginni niðurstöðu nefndarinnar, leitað til mín á ný ef þér teljið yður þá enn beitta rangsleitni.

Í ljósi þess að þér eigið lögheimili í [...] tel ég jafnframt rétt að benda yður á að þér kunnið að eiga rétt á tryggingavernd þar í landi á grundvelli EES-samningsins og fer þá um þann rétt eftir þarlendri löggjöf, þ. á m. um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður fór með mál þetta á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson