Atvinnuleysisbætur. COVID-19. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10936/2021)

Kvartað var yfir félags- og barnamálaráðherra og aðgerðaleysi stjórnvalda í tengslum við málefni og stöðu atvinnulauss fólks sem misst hefði lögbundinn bótarétt úr Atvinnuleysistryggingasjóði og ætti ekki kost á fjárhagsaðstoð sem dygði því til framfærslu.  

Þar sem hvorki er gert ráð fyrir að umboðsmaður taki afstöðu til þess hvernig tekist hefur til með löggjöf frá Alþingi né að hann fjalli um mál fyrr en stjórnvaldsákvörðun liggur til grundvallar  voru ekki forsendur til að hann tæki kvörtunina til meðferðar.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til erindis yðar til mín frá 4. febrúar sl. þar sem þér beinið kvörtun að félags- og barnamálaráðherra. Þér kvartið nánar tiltekið yfir aðgerðaleysi stjórnvalda í tengslum við málefni og stöðu atvinnulauss fólks sem misst hefur lögbundinn bótarétt úr Atvinnuleysistryggingasjóði og á ekki kost á fjárhagsaðstoð sem dugar því til framfærslu. Í því sambandi kemur m.a. fram að þér teljið það aðgerðaleysi fela í sér brot á jafnræðisreglum þar sem ýmsir aðrir hópar í samfélaginu hafi fengið aðstoð vegna heimsfaraldurs COVID-19, sem og tilteknum alþjóðasamningum.

Með kvörtun yðar fylgja afrit af tölvupóstum yðar til fréttastofu RÚV, þingmanna velferðarnefndar Alþingis og félagsmálaráðuneytisins sem og svör frá ráðuneytinu.

  

II

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í lögum nr. 85/1997 er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. þeirra að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við það er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðs­manns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar og skal hann þá lýsa þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalds sem er tilefni kvörtunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Lögin gera þó ráð fyrir að nýttar séu þær kæruleiðir sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Yður var leiðbeint um framangreint með tölvupósti 15. janúar sl. og bent á að nánari upplýsingar um starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar væri að finna á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is. Kvörtun yðar sem barst í framhaldi af þessum samskiptum lýtur þó ekki að ákvörðunum, athöfnum eða athafnaleysi gagnvart yður heldur að þeim almennu atriðum sem þér höfðuð vakið athygli á í fyrri tölvupóstsamskiptum yðar við skrifstofu umboðsmanns og tekur umfjöllun mín hér á eftir mið af því.

Ég tel áður en lengra er haldið rétt að árétta að af ákvæðum laga nr. 85/1997 leiðir að starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli kvörtunar, þótt öllum sé frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um atriði af því tagi, heldur eru slík mál eftir atvikum tekin til umfjöllunar á grundvelli heimildar umboðsmanns samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 til að taka starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar að eigin frumkvæði. Forsenda þess er þó að málefni heyri undir starfssvið umboðsmanns, auk þess sem möguleikar til að sinna frumkvæðisathugunum verið mjög takmarkaðir að undanförnu vegna skorts á mannafla til þeirra verkefna. Ekki verður séð að á næstunni verði breytingar þar á, m.a. í ljósi fjölgunar kvartana.

Að þessu sögðu tek ég fram að ef fyrir liggur ákvörðun Vinnumálastofnunar, eða eftir atvikum annars aðila, s.s. ákvörðun sveitarfélags um fjárhagsaðstoð, í máli yðar sem þér teljið ekki vera í samræmi við gildandi lög eða stjórnvaldsfyrirmæli, getið þér leitað til mín með kvörtun þar að lútandi eftir að hafa nýtt yður tiltækar kæruleiðir, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, og þá innan árs frá því að niðurstaða æðra setta stjórnvaldsins liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. Hún yrði þá tekin til athugunar með tilliti til þeirra lagareglna sem gilda um viðkomandi málefni stjórnsýslunnar.

  

III

Samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laganna tekur starfssvið umboðsmanns hins vegar ekki til starfa Alþingis. Umboðsmanni Alþingis er þannig samkvæmt lögum ekki ætlað að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, þ.m.t. hvort lög samrýmist stjórnarskrá. Í hérlendu réttarkerfi er almennt tali að það sé hlutverk dómstóla að skera úr um stjórnskipulegt gildi laga.  

Um atvinnuleysisbætur er fjallað í lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Í 29. gr. laganna er mælt fyrir um lengd tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar. Þar segir að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum.

Að því marki sem kvörtun yðar lýtur að lengd tímabils atvinnuleysisbóta eins og það er afmarkað í gildandi lögum er þannig ljóst að það lýtur fyrst og fremst að fyrirkomulagi sem Alþingi í hlutverki löggjafans hefur tekið skýra afstöðu til. Því eru ekki uppfyllt skilyrði að lögum til að ég taki það atriði í kvörtun yðar til meðferðar. Í því sambandi bendi ég yður jafnframt á dóm Hæstaréttar Íslands frá 1. júní 2017 í máli nr. 501/2016, þar sem lagt var til grundvallar að markmið löggjafans með skerðingu bótatímabils samkvæmt 29. gr. laga nr. 54/2006 úr þremur árum í 30 mánuði, sem var að koma á samræmi við bótatímabil atvinnuleysisbóta á öðrum Norðurlöndum og takmarka langtímaatvinnuleysi, hafi verið málefnalegt.

Að öðru leyti verður ekki annað séð en að kvörtun yðar beinist fyrst og fremst að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um málefni þeirra sem búa við atvinnuleysi til lengri tíma og að þér teljið að þörf sé á úrbótum eða breytingum þar á. Ég bendi yður því á að yður er fær sú leið að beina erindum þar um til þeirra sem fjalla um og gera tillögur til lagasetningar um þessi mál. Það kemur í hlut félags- og barnamálaráðherra að leiða pólitíska stefnumótun á þessu málefnasviði og honum eru fengnar heimildir til að beita frumkvæðisrétti sínum með því að leggja til við Alþingi að gerðar verði breytingar á gildandi lögum. Þessu til viðbótar er hægt að beina erindum af þessu tagi til alþingismanna og þingnefnda. Ljóst er af þeim gögnum sem fylgja með kvörtun yðar að þér hafið nú þegar komið sjónarmiðum yðar á framfæri með þeim hætti. Hefur félagsmálaráðuneytið upplýst yður um að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að lengja bótatímabilið umfram þá 30 mánuði sem lög kveða nú um en yður hefur jafnframt verið bent á að fyrirhugað sé að vinna að heildarendurskoðun laganna hefjist á árinu 2021.

  

IV

Að lokum tek ég fram að af hálfu umboðsmanns hefur verið leitast við að leiðbeina þeim sem til hans leita um þær leiðir sem þeim kunna að vera færar í stjórnsýslunni. Mér er ekki kunnugt um aðstæður yðar umfram það sem greinir í kvörtun yðar en ljóst er að yður er kunnugt um rétt yðar til fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélaginu og að þér teljið hana ekki duga yður til framfærslu. Þrátt fyrir að ég hafi ekki forsendur til að álykta um hvort aðstæður yðar hafi leitt til þess að þér séuð í skulda- eða greiðsluvanda tel ég þó rétt að taka fram að hjá umboðsmanni skuldara er m.a. hægt að fá endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laga nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson