Kirkjumál og trúfélög.

(Mál nr. 10949/2021)

Kvartað var yfir að Kirkjugarðar tiltekins sveitarfélags hefðu heimilað greftrun andvana fædds barns í tilteknu grafarstæði.  

Ekki varð ráðið af kvörtuninni að málið hefði verið borið undir stjórn viðkomandi kirkjugarða  og eftir atvikum kirkjugarðaráð og kæruleið þannig tæmd. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 15. febrúar sl., sem beinist að stjórn Kirkjugarða [...] vegna ákvörðunar um að leyfa greftrun andvana fædds drengs í grafarstæði móður yðar þrátt fyrir að þér hafið ekki veitt samþykki fyrir því.

Þér vísið í því sambandi til ákvæðis 23. gr. laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, þar sem segir að kirkjugarðsstjórn geti heimilað að tvígrafið sé í sömu gröf ef þess er óskað ef hálfu vandamanna þess er grafa eigi og fyrir liggi samþykki vandamanna þess er þar var áður grafinn. Af kvörtuninni verður ráðið að þér teljið, meðal annars í ljósi þess hve viðkvæms eðlis málið sé, að túlka beri lagaákvæðið á þann veg að samþykki allra barna móður yðar hafi þurft til. 

Í kvörtuninni kemur fram að stjórn Kirkjugarða [...] hafi engin samskipti átt við yður í ferlinu varðandi málið, hvorki til að athuga hvort þér veittuð samþykki yðar né til þess að upplýsa yður um að greftrunin færi fram þrátt fyrir að þér hefðuð ekki veitt samþykki.

Með kvörtun yðar fylgir afrit af samþykki systkina yðar fyrir greftrun frá 1. september 2020.

  

II

1

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, er hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar sjálfseignarstofnun með sérstöku fjárhaldi, í umsjón og ábyrgð safnaðar undir yfirstjórn prófasts og biskups. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að sóknarnefnd eða sérnefnd kjörin af safnaðarfundi, sbr. 9. gr., hafi á hendi umsjón og fjárhald kirkjugarðs samkvæmt því sem fyrir sé mælt í lögunum. Er hún í lögunum nefnd kirkjugarðsstjórn. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laganna sér kirkjugarðsstjórn um að láta taka allar grafir í garðinum og sér um árlegt viðhald legstaða.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 36/1993 kemur fram að kirkjugarðaráð hafi yfirumsjón með kirkjugörðum landsins svo sem nánar sé mælt fyrir um í lögunum. Í því eiga sæti biskup Íslands eða fulltrúi hans, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins eða fulltrúi hans, einn fulltrúi tilnefndur af Kirkjugarðasambandi Íslands, einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn fulltrúi kosinn af kirkjuþingi. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár. Biskup Íslands eða fulltrúi hans skal vera formaður kirkjugarðaráðs. Ef atkvæði falla jöfn í ráðinu ræður atkvæði biskups.

Í 2. málsl. 23. gr. laga nr. 36/1993, segir: „Kirkjugarðsstjórn getur heimilað að tvígrafið sé í sömu gröf ef þess er óskað af hálfu vandamanna þess er grafa á og fyrir liggur samþykki vandamanna þess er þar var áður grafinn.“

Lagt hefur verið til grundvallar, þar sem starfsemi kirkjugarðanna er lögmælt og þeim er sem stofnunum komið á fót með lögum og eru reknir fyrir fjármuni sem greiddir eru úr ríkissjóði samkvæmt fjárveitingu í fjárlögum, sbr. 39. gr. laga nr. 36/1993, að þeir teljist til opinberrar stjórnsýslu. Þrátt fyrir að kirkjugarðar séu lögmæltar sjálfseignarstofnanir þarf því starfsemi þeirra að vera í samræmi við þær meginreglur sem gilda um stjórnsýsluna. Sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 11. júlí 2006 í máli nr. 4417/2005.

Samkvæmt heimild í 51. gr. laga nr. 36/1993 hafa verið settar reglur nr. [...], um umgengni í kirkjugörðum [...]. Gildandi reglur voru staðfestar af dómsmálaráðuneytinu 28. júní 2019. Þar kemur fram að ráðuneytið leiti umsagnar kirkjugarðaráðs um tillögurnar.

  

2

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að sá sem telur sig rangindum beittan af hálfu aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur leitað til hans með kvörtun.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra sett stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ég fæ ekki ráðið af kvörtun yðar hvort kvörtunarefni yðar hafi verið lagt fyrir stjórn Kirkjugarða [...] en þér nefnið að þér hafið borið fram kvörtun við sóknarprest [...]prestakalls sem sitji í stjórninni. Með hliðsjón af þeim lögum og reglum sem gilda um starfsemi Kirkjugarða [...] sem rakin eru hér að framan og áðurnefndrar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að þér freistið þess að leita til stjórnar Kirkjugarða [...] og eftir atvikum til kirkjugarðaráðs í kjölfarið ef þér verðið ósáttar að fenginni afstöðu stjórnarinnar til málsins. Ef þér verðið ósáttar að fenginni afgreiðslu þeirra á erindinu getið þér, ef þér teljið tilefni til, leitað til dómsmálaráðuneytisins. Ef þér teljið yður enn rangindum beitta að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins er yður frjálst að leita til umboðsmanns Alþingis að nýju með kvörtun.

   

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég meðferð minni á máli yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson