Rafræn stjórnsýsla.

(Mál nr. 10957/2021)

Kvartað var yfir því að opinberar stofnanir krefjist rafrænna skilríkja í samskiptum við borgarana sem ekki séu gefin út af hinu opinbera.  

Þar sem það er ekki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir voru ekki forsendur til að hann tæki kvörtunina til meðferðar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til erindis yðar til mín frá 22. febrúar sl. sem lýtur að því að opinberar stofnanir krefjist rafrænna skilríkja í samskiptum við borgarana sem ekki séu gefin út af hinu opinbera. Einungis sé hægt að fá útgefin rafræn skilríki hjá einkaaðila sem fari þá með öryggismál meirihluta stofnana ríkis og sveitarfélaga. Þá sé einungis hægt að fá útgefin rafræn skilríki á símtæki með íslensku símkorti með íslensku símanúmeri sem feli í sé kostnað fyrir þann sem þarf á slíkum skilríkjum að halda. Þér vísið til þess að einungis fjögur einkafyrirtæki staðfesti rafræn skilríki, bankarnir og Auðkenni ehf.

Þetta fyrirkomulag sé sérstaklega slæmt fyrir þá sem búsettir séu erlendis. Þér bendið á að í [...], þar sem þér eruð búsettir, fari sveitarfélög með útgáfu rafrænna skilríkja sem séu óháð viðskiptum við einkafyrirtæki. Sjálfur hafið þér ekki aðgang að rafrænum skilríkjum sem takmarki verulega samskipti yðar við opinberar stofnanir hér á landi.

     

II

Í tilefni af erindi yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grund­velli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í lögum nr. 85/1997 er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna tekur til, sem einkum eru handhafar framkvæmdarvalds, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við það er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðs­manns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar.

Af þessu leiðir jafnframt að ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir sam­kvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum. Starfsemi og máls­­meðferð stjórnvalds verður því að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli kvörtunar, þótt sem fyrr sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um atriði af því tagi, heldur eru slík mál eftir atvikum tekin til umfjöllunar á grund­­velli heimildar umboðsmanns samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 til að taka starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar að eigin frumkvæði.

Þrátt fyrir að fram komi í kvörtun yðar að það að þér hafið ekki aðgang að rafrænum skilríkjum takmarki verulega samskipti yðar við stofnanir hér á landi er sú athugasemd sett fram með almennum hætti og af henni verður ekki ráðið að það atriði snerti beinlínis hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra sem eru í sömu stöðu. Ég tel því ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Ég tek hins vegar fram að hafi yður verið synjað um þjónustu eða fyrir­greiðslu hjá opinberri stofnun eða gert ókleift að óska eftir henni vegna kröfu um að þér hafið rafræn skilríki getið þér lagt fram kvörtun sem lýtur að því og yrði hún þá eftir atvikum tekin til athugunar hjá umboðsmanni með tilliti til þeirra reglna sem gilda um viðkomandi málefni stjórn­sýslunnar, að uppfylltum öðrum skilyrðum eins og að nýttar hafi verið þær kæruleiðir sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson