Heilbrigðismál.

(Mál nr. 10915/2021)

Kvartað var yfir að sjúkratryggingar hefðu ekki samið við sálfræðinga og að ekki hefði verið sett reglugerð um greiðsluþátttöku ríkisins vegna sálfræðiþjónustu við fullorðna.

Þar sem þær ákvarðanir er lúta að samningsgerð við sálfræðinga beindust ekki sérstaklega að viðkomandi né að ráðherra hefði ekki sett reglugerð voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 8. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

 

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 21. janúar sl., sem lýtur að greiðsluþátttöku ríkisins vegna sálfræðiþjónustu fyrir fullorðna. Af kvörtuninni verður ráðið að þér séuð ósáttar við að sjúkratrygginga­stofnun hafi ekki gengið til samninga við sálfræðinga og að ekki hafi verið sett reglugerð um greiðsluþátttöku ríkisins vegna þjónustu þeirra við fullorðna einstaklinga.

Í kvörtuninni kemur fram að þér hafið frestað að leitað yður aðstoðar hjá sálfræðingi og beðið eftir að lög nr. 93/2020, um breytingu á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, (aðgengi að sálfræðiþjónustu og annarri gagnreyndri samtalsmeðferð), öðluðust gildi 1. janúar sl. Í fjárlögum fyrir árið 2021 sé hins vegar ekki gert ráð fyrir fjármagni fyrir þennan málaflokk.

  

II

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna.

Í lögunum er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað að því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórn­valds sem beinist beinlínis og sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Ástæða þess að ég vek athygli yðar á framangreindu er sú að í lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, er gert ráð fyrir að nánari útfærsla á rétti borgaranna til aðstoðar sjúkratrygginga sé bæði ákveðin með reglugerðum og í samningum sem sjúkratryggingastofnun gerir. Þannig segir í 1. málsl. 1. mgr. 21. gr. a laga nr. 112/2008, sbr. lög nr. 93/2020, að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegrar sálfræðimeðferðar og annarrar gagnreyndrar samtalsmeðferðar heilbrigðisstarfsmanna sem samið hefur verið um skv. IV. kafla laganna. Í 2. mgr. 21. gr. a segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar þar sem m.a. sé heimilt að kveða á um nánari skilyrði og takmörkun greiðslu­þátt­töku sjúkratrygginga í kostnaði við sálfræðimeðferð.

Í 40. gr. laga nr. 112/2008 er fjallað um samninga um heil­brigðis­þjónustu. Í 1. málsl. 1. mgr. 40. gr. laganna segir að samningar um heil­brigðisþjónustu skuli gerðir í samræmi við stefnumótun samkvæmt 2. gr., m.a. um skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni og gæði þjónustunnar og aðgengi að henni.

Forsenda samningsgerðar samkvæmt ákvæðinu er að fyrir liggi stað­festing landlæknis á því hvort rekstur eða fyrirhugaður rekstur heil­brigðis­þjónustu uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í heil­brigðis­löggjöf, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu og lög um landlækni, sbr. 3. málsl. 1. mgr. Þá segir í 1. máls. 2. mgr. að samningar skuli meðal annars kveða á um magn, tegund og gæði þjónustu, hvar hún skuli veitt og af hverjum, ásamt endurgjaldi til veitenda og eftirlit með fram­kvæmd samnings. Aðili sem hyggst hefja sjálfstæðan rekstur heilbrigðisþjónustu þar sem gert er ráð fyrir að ríkið greiði kostnað sjúklings að hluta eða öllu leyti skal hafa gert samning við sjúkra­tryggingastofnun áður en hann hefur rekstur, nema fyrir liggi einhliða ákvörðun ráðherra um greiðsluþátttöku á grundvelli sérstakrar heimildar í lögum, sbr. 5. mgr. 40. gr. laganna.

Með heimild í 6. mgr. 40. gr. laganna hefur ráðherra sett reglugerð nr. 510/2010, um samninga um heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan heil­brigðisstofnana sem ríkið rekur. Í henni er nánari grein gerð fyrir ákvörðunartöku og ferli við samningsgerðina.

Með vísan til framangreindra reglna og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tel ég að ekki séu skilyrði að lögum til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari athugunar þar sem þær ákvarðanir sem lúta að samningsgerð við sálfræðinga beinast ekki sér­staklega að yður þrátt fyrir að þær kunni að hafa almenn áhrif á hag þeirra sem kunna að þurfa að nýta sér sálfræði- eða samtalsmeðferð.

Af sömu ástæðu tel ég ekki skilyrði fyrir því að fjalla um kvörtun yðar að því marki sem hún lýtur að því að ráðherra hafi ekki enn sett reglugerð um nánari útfærslu á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna sálfræðiþjónustu við fullorðna.

  

III

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu.

Undirritaður fór með mál þetta á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson