Lífeyrismál.

(Mál nr. 10872/2020)

Kvartað var yfir því að þurfa að greiða iðgjald í Lífeyrissjóð bankamanna án þess að fyrir því væri fullnægjandi lagagrundvöllur.  

Þar sem erindið hafði ekki verið borið upp við fjármála- og efnahagsráðuneytið og kæruleið þannig tæmd voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 19. desember sl., sem þér beinið að Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytinu og lýtur að því að þér séuð skyldaðir til að greiða iðgjald í Lífeyrissjóð bankamanna, án þess að fyrir því sé fullnægjandi lagagrundvöllur. Þannig hafi Seðlabankinn hafnað beiðni yðar um að iðgjöld yðar verði greidd í annan lífeyrissjóð, m.a. á þeim grundvelli að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi staðfest samþykktir Lífeyrissjóðs bankamanna, þar sem kveðið er á um að allir starfsmenn aðildarfyrirtækja sjóðsins, þ. á m. Seðlabankinn, sem náð hafi 16 ára aldri, skuli vera sjóðfélagar og greiða iðgjöld til sjóðsins meðan þeir starfi hjá viðkomandi fyrirtæki. Teljið þér að rökstuðningur fjármála- og efnahagsráðuneytisins fyrir staðfestingu samþykkta lífeyrissjóðsins sé ekki byggður á „viðurkenndum lögfræðilegum sjónarmiðum“. Hvorki í lögum né kjarasamningi sé kveðið á um skyldu yðar til að greiða iðgjald til Lífeyrissjóðs bankamanna og ekki sé fullnægjandi að vísa til venju við framkvæmd kjarasamninga í þessu samhengi.

  

II

Um aðild að lífeyrissjóðum er fjallað í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt 4. mgr. 1. gr. laganna er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur og sjálfstæða starfsemi rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. Í 2. mgr. 2. gr. laganna segir að um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fari eftir þeim kjarasamningi sem ákvarði lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við á. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi velji viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Aðild að lífeyrissjóði skuli taka fram í skriflegum ráðningarsamningi.

Í V. kafla laganna er mælt fyrir um starfsleyfi lífeyrissjóða en samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skal ráðherra veita lífeyrissjóði starfsleyfi að uppfylltum skilyrðum sem þar eru talin upp í fimm töluliðum, m.a. að samþykktir sjóðsins séu samkvæmt ákvæðum 27. gr. laganna. Uppfylli lífeyrissjóður sem sótt er um starfsleyfi fyrir ekki skilyrði laganna skal synja honum um það, sbr. 2. mgr. 26. gr. Í 27. gr. eru í 12 töluliðum talin upp þau atriði sem m.a. skulu koma fram í samþykktum lífeyrissjóðs, þ. á m. hverjir séu sjóðfélagar. Samkvæmt 28. gr. skal tilkynna ráðherra allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest að þær fullnægi ákvæðum laganna og ákvæðum gildandi samþykkta fyrir lífeyrissjóðinn að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins.

Samkvæmt framansögðu hvílir sú skylda á ráðuneytinu, þegar því berst umsókn um starfsleyfi fyrir lífeyrissjóði eða beiðni frá lífeyrissjóði um að staðfesta breytingar á samþykktum sínum, að kanna hvort ákvæði samþykktanna séu í samræmi við 27. gr. og önnur ákvæði laga nr. 129/1997. Þannig ber ráðuneytinu að kanna hvort ákvæði samþykkta um sjóðfélaga séu í samræmi við 2. gr. laganna eins og það ákvæði laganna verður túlkað í ljósi félagafrelsisákvæðis 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Í þeim tilvikum sem aðildarskylda að lífeyrissjóði leiðir af venju við framkvæmd kjarasamnings ber ráðuneytinu jafnframt að meta hvort það fyrirkomulag sé í samræmi við kröfur laga nr. 129/1997 og 74. gr. stjórnarskrárinnar og hvernig beri að tilgreina þá skyldu. Þá leiðir jafnframt af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að leggi ráðuneytið venjur við framkvæmd tiltekins kjarasamnings til grundvallar mati sínu á lögmæti samþykkta lífeyrissjóðs beri því að afla nauðsynlegra upplýsinga um þær venjur. Sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 24. mars 2017 í máli nr. 9057/2016.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem kunna að hafa verið á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.  

Með kvörtun yðar fylgdi afrit af svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við erindi annars einstaklings sem leitað hafði til ráðuneytisins vegna staðfestingar þess á samþykktum Lífeyrissjóðs bankamanna. Af gögnum málsins verður þó ekki ráðið að þér hafið borið athugasemdir yðar undir ráðuneytið og það fengið færi á að taka afstöðu til þeirra og þá hvernig þær kunni að horfa við í máli yðar. Í ljósi þess brestur lagaskilyrði til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Kjósið þér að leita með erindi yðar til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og teljið þér yður enn rangsleitni beittan, að fenginni afstöðu þess, er yður frjálst að leita til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson