Börn. Forsjármál.

(Mál nr. 10924/2021)

Kvartað var yfir því að hafa ekki fengið aðgang að gögnum frá barnaverndarnefnd. 

Þar sem erindið var enn til meðferðar hjá viðhlítandi stjórnvaldi voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Hann leiðbeindi viðkomandi hins vegar um möguleg næstu skref í málinu.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

   

I

Ég vísa til erindis yðar, dags. 27. janúar sl., þar sem þér kvartið yfir því að hafa ekki fengið aðgang að gögnum frá barnaverndarnefnd Eyjafjarðar. Með kvörtun yðar fylgdu m.a. samskipti yðar við starfsmann fjölskyldusviðs Akureyrarbæjar frá 27. janúar sl. og síðar bárust frekari samskipti yðar frá 28. janúar sl. Af þeim má leiða að beiðni yðar um aðgang að gögnum hafi verið sett fram á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 en að engin ákvörðun hafi enn sem komið er verið tekin um beiðni yðar. Jafnframt að yður hafi verið leiðbeint um að afmarka beiðnina betur.

  

II

1

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í samræmi við það fjallar umboðsmaður almennt ekki um erindi sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Í ljósi þess að erindi yðar er enn til meðferðar hjá fjölskyldusviði Akureyrarbæjar eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Ég tel hins vegar tilefni til að veita eftirgreindar leiðbeiningar.

  

2

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal barnaverndarnefnd með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað.

Í 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/2002 segir að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Nefndin getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent.

Heimilt er að skjóta úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum nr. 80/2002, til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 6. gr. laganna. Aðilar barnaverndarmáls geta skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 6. gr. til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun, sbr. 1. mgr. 51. gr. laganna.

Fari svo að yður verði synjað um aðgang að gögnum í barnaverndarmáli sem þér eruð aðilar að á grundvelli barnaverndarlaga er yður í samræmi við framangreindar leiðbeiningar fær sú leið að freista þess að kæra slíkt til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Af samskiptum yðar við starfsmann fjölskyldusviðs Akureyrarbæjar má ráða að yður hafi áður verið veittur aðgangur að „meirihluta“ gagna frá barnaverndarnefnd Eyjafjarðar. Hafi yður verið synjað um hluta gagna á grundvelli barnaverndarlaga og yður ekki veittar leiðbeiningar um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála í þeim efnum bendi ég yður á 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fjallað er um hvernig stjórnvaldi ber að bregðast við ef kæra berst því að liðnum kærufresti.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum eru dæmi um slík tilvik, m.a. þegar lægra stjórnvald vanrækir að veita leiðbeiningar um kæruheimild til aðila máls eða veitir rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3308.) Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga skal kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Ástæða þess að ég tel tilefni til að benda yður á framangreint er að ég tel ekki að fullu ljóst hvort ákvörðun um synjun á framangreindum grundvelli liggi fyrir í máli yðar sem hægt er að kæra til nefndarinnar og hvort aðstæður séu að öðru leyti með þeim hætti sem að framan greinir. Ég hef hins vegar ekki tekið neina afstöðu til þess hvernig úrskurðarnefnd velferðarmála ætti að bregðast við kæru frá yður.

  

3

Hvað varðar munnlegar upplýsingar um barn frá barnaverndarnefndum er um slíkt fjallað í 2. mgr. 52. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að það foreldri sem ekki hefur forsjá barns eigi rétt á að fá aðgang að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Það foreldri á einnig rétt á að fá munnlegar upplýsingar um barnið frá öðrum aðilum sem fara með mál þess, svo sem sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmála­stofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Réttur samkvæmt þessari málsgrein felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris. Í 3. mgr. 52. gr. segir síðan að stofnunum og stjórnvöldum, sem nefnd eru í 2. mgr., sé þó heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn.

Fari svo að yður verði synjað um upplýsingar frá barnaverndarnefnd Eyjafjarðar á grundvelli barnalaga er yður samkvæmt 4. mgr. 52. gr. laganna heimilt að bera synjunina undir sýslumann ef þér teljið tilefni til, innan tveggja mánaða frá því að yður var tilkynnt um ákvörðunina.

  

III

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Fari svo að yður verði synjað um aðgang að umræddum gögnum eða upplýsingum og þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála eða sýslumanns þar að lútandi er yður að sjálfsögðu heimilt að leita til mín á ný innan árs, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Ég tek að lokum fram að í tilefni af upplýsingum sem fram komu í gögnum þeim sem fylgdu kvörtun yðar hef ég ritað Akureyrarbæ bréf það sem hér fylgir í ljósriti.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson