Almannatryggingar. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10930/2021)

Kvartað var yfir að Tryggingastofnun teldi verðbætur til fjármagnstekna við útreikning á fjárhæð ellilífeyris.  

Ekki varð ráðið að þessi ákvörðun Tryggingastofnunar hefði verið borin undir úrskurðarnefnd velferðarmála og kæruleið þannig tæmd. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina aukinheldur sem hann benti á að það félli almennt ekki undir verksvið sitt að taka afstöðu til hvernig til hefði tekist með löggjöf frá Alþingi.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 2. febrúar sl., yfir því að Tryggingastofnun telji verðbætur til fjármagnstekna við útreikning á fjárhæð ellilífeyris. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni lækkaði Tryggingastofnun ellilífeyri yðar og leit í því sambandi m.a. til verðbóta af verðtryggðum ríkisskuldabréfum sem þér leystuð út árið 2020. Jafnframt kemur fram sú afstaða yðar að ákvörðun Tryggingastofnunar feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum eignarrétti yðar. 

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Í 6. gr. laganna er jafnframt kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra sett stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að ég bendi yðar á framangreint er að fjallað er um lífeyristryggingar, þ. á m. ellilífeyri, í III. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Í 2. mgr. 16. gr. laganna segir meðal annars að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 1. mgr. 7. gr. þeirra laga segir meðal annars að skattskyldar tekjur teljist „hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru“. Þá segir í 1. mgr. 3. tölul. c-liðar 7. gr. laganna að til tekna teljist vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður, sbr. 8. gr. laganna. Það verður því ekki annað séð en að kvörtun yðar lúti fyrst og fremst að fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur tekið skýra afstöðu til. Því eru ekki skilyrði að lögum til að ég taki kvörtun yðar til meðferðar, a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Að þessu sögðu tek ég fram að af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið ákvörðun Tryggingastofnunar um að lækka ellilífeyri yðar undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Ef þér teljið að ákvörðunin hafi ekki verið í samræmi við lög bendi ég yður því á að þér getið freistað þess að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007.

Rétt er að vekja athygli á því að í 2. mgr. 13. gr. er kveðið á um að kæra til nefndarinnar skuli vera skrifleg og borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getið þér leitað til mín á ný ef þér teljið yður þá enn beittan rangsleitni. Ég tek fram að með þessari ábendingu hef ég að sjálfsögðu enga afstöðu tekið til þess hver niðurstaða í slíku máli ætti að verða.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Undirritaður fór með mál þetta á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

    

    

Kjartan Bjarni Björgvinsson