Opinberir starfsmenn. Lífeyrismál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10905/2021)

Kvartað var yfir að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hefði lagt niður starf og sagt viðkomandi upp.  

Með hliðsjón af stöðu sjóðsins samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar féll kvörtunarefnið ekki undir starfssvið umboðsmanns.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 1. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar f.h. A, dags. 11. janúar sl., yfir því að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hafi ákveðið að leggja niður starf hennar og segja henni upp störfum.

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni teljið þér að LSR hafi með framangreindri uppsögn brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar, þar á meðal meðalhófsreglunni og rannsóknarreglunni, en af atvikum málsins megi ráða að starf hennar hafi ekki verið lagt niður og enn fremur að ekkert mat hafi farið fram á hæfni hennar og reynslu gagnvart öðrum starfsmönnum LSR sem héldu störfum sínum í kjölfar skipulagsbreytinga.

  

II

Í kvörtun yðar takið þér sérstaklega fram að þér teljið, meðal annars með vísan til þess að umboðsmaður Alþingis hafi fjallað um kvartanir tengdar starfsemi LSR í fyrri álitum, að ákvörðun LSR um uppsögn A falli undir starfssvið umboðsmanns og að um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til stuðnings framangreindri afstöðu vísið þér til þess að hvorki þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum nr. 1/1997 sem um sjóðinn gilda né dómaframkvæmd Hæstaréttar breyti réttarstöðu starfsmanna sjóðsins, einkum og sér í lagi í ljósi þess að vísað er til laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, í ráðningarsamningi A.  

Eins og mál þetta liggur fyrir reynir á hvort kvörtun yðar falli undir starfssvið umboðsmanns Alþingis. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssviðið eins og það er afmarkað í lögum.

Það hefur um árabil verið afstaða stjórnar lífeyrissjóðsins að sjóðurinn falli ekki undir starfssvið umboðs­manns Alþingis. Eins og vísað er til í kvörtun yðar leit umboðsmaður Alþingis aftur á móti svo á í eldri framkvæmd að lífeyrissjóðir sem komið hefði verið á fót með lögum, þ.m.t. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, væru hluti af stjórnsýslu ríkisins og því féllu tiltekin lögbundin verkefni þeirra undir starfssvið umboðsmanns, sbr. t.d. álit umboðsmanns frá 17. nóvember 1999 í máli nr. 2411/1998.

Með hliðsjón af framangreindu verður hins vegar að taka fram að með dómi Hæstaréttar Íslands frá 29. október 2015 í máli nr. 115/2015 var því slegið föstu að Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda teldist ekki stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í dóminum er til stuðnings framangreindri afstöðu meðal annars vísað til fyrri dóms réttarins frá 31. janúar 2012, í máli nr. 352/2012, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ákvæði stjórnsýslulaga giltu ekki um ákvarðanir stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Í forsendum dóms Héraðsdóms Reykjavíkur um þetta atriði sem Hæstiréttur staðfesti með dómi sínum var þessi niðurstaða rökstudd með vísan til þess að ekki yrði séð að lög nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, settu LSR annan ramma um starfsemina en gilti um lífeyrissjóði almennt.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 1/1997 skal stjórn sjóðsins skipuð átta mönnum. Ráðherra skipar fjóra stjórnarmenn, stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja skipar tvo stjórnarmenn, stjórn Bandalags háskólamanna skipar einn stjórnarmann og stjórn Kennarasambands Íslands skipar einn stjórnarmann. Sjóðurinn starfar almennt innan þess rekstrarforms sem aðrir lífeyrissjóðir fylgja og er að meginstefnu fjármagnaður með sama hætti og aðrir lífeyrissjóðir þrátt fyrir að ríkissjóður ábyrgist greiðslu lífeyris úr B-deild sjóðsins, sbr. 32. gr. laganna, og hafi á þeim grundvelli innt af hendi fjárframlög til sjóðsins.

Í ljósi þessa og að virtri ofangreindri dómaframkvæmd Hæstaréttar tel ég að slíkur vafi leiki á að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi um þá starfsemi sjóðsins sem ekki er fjallað sérstaklega um í lögum nr. 1/1997 að ekki séu forsendur til að fullyrða að ákvörðun sjóðsins um að leggja niður starf teljist til stjórnsýslu ríkisins, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þá verði heldur ekki séð að ákvörðun um niðurlagningu starfs hjá sjóðinum teljist ákvörðun einkaaðila um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Í því sambandi bendi ég á að í lögum nr. 1/1997 er ekkert fjallað um réttarstöðu starfsmanna sjóðsins. Þá fæ ég ekki séð að tilvísun í ráðningarsamningi til laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, geti breytt því hvort stjórnsýslulög gildi eða sjóðurinn falli undir starfssvið umboðsmanns Alþingis. Af þeim sökum, og með hliðsjón af stöðu sjóðsins samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar, fellur umkvörtunarefni yðar ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson