Námslán og námsstyrkir.

(Mál nr. 10919/2021)

Kvartað var yfir Lánasjóði íslenskra námsmanna, nú Menntasjóði námsmanna, vegna uppgreiðslu námslána.  

Ekki varð ráðið að erindinu og athugasemdum í því hefði verið komið á framfæri við stjórn Menntasjóðs og kæruleið þannig tæmd. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 3. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 25. janúar sl., sem beinist að Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN), nú Menntasjóði námsmanna, vegna uppgreiðslu námslána. Í kvörtuninni kemur fram að þér hafið fengið þær upplýsingar frá sjóðnum að ekki sé hægt að greiða niður höfuðstól af námsláni án þess að greiða einnig uppgreiðslugjald.

Samkvæmt 4. tölul. 4. mgr. 30. gr. laga nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna, sker stjórn sjóðsins úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum. Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 60/2020 sker málskotsnefnd Menntasjóðs úr um hvort ákvarðanir sjóðstjórnar varðandi málefni einstakra lánþega, umsækjenda og ábyrgðarmanna séu í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Nefndin getur staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir stjórnar sjóðsins. Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt.

Af kvörtuninni, en henni fylgdu engin gögn, verður ekki ráðið að þér hafið komið á framfæri við stjórn Menntasjóðs athugasemdum yðar er varða uppgreiðslugjald vegna innborgunar á höfuðstól námsláns.

Í ljósi framangreinds, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni um málið. Fari svo að þér látið reyna á málið fyrir stjórn sjóðsins og leitið auk þess til málskotsnefndar í framhaldinu getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun ef þér teljið yður enn rangindum beittar að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda.

Undirritaður fór með mál þetta á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

    

Kjartan Bjarni Björgvinsson