Skattar og gjöld. Fasteignagjöld.

(Mál nr. 10932/2021)

Kvartað var yfir afgreiðslu Reykjavíkurborgar  á beiðni um niðurfellingu dráttarvaxta og innheimtukostnaðar í tengslum við greiðslu fasteignagjalda.

Þar sem ekki hafði verið leitað eftir afstöðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til málsins og kæruleið þannig tæmd voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

    

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 5. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 3. febrúar sl., f.h. A, sem lýtur að afgreiðslu Reykjavíkurborgar á beiðni hans um niðurfellingu dráttarvaxta og innheimtukostnaðar í tengslum við greiðslu fasteignagjalda.

Af gögnum málsins má ráða að leitað hafi verið til umboðsmanns borgarbúa, nú innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, sem hafi m.a. komist að þeirri niðurstöðu hinn 13. janúar sl. að ekki verði séð að Reykjavíkurborg sé heimilt að fella niður umrædda dráttarvexti eða önnur gjöld vegna fasteignaskatts.

  

II

Í tilefni af kvörtun yðar tel ég rétt að taka fram að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu.

Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem kunna að hafa verið á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Í samræmi við þetta sjónarmið hef ég almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en ég tek mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Í XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er fjallað um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum. Um er að ræða almennt stjórnsýslueftirlit með starfsemi sveitarfélaganna. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum. Aðila máls er heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess samkvæmt 109. gr., sbr. 1. mgr. 111. gr. Þá er í 112. gr. fjallað um frumkvæðisheimild ráðuneytisins. Á grundvelli þess getur ráðuneytið tekið til umfjöllunar hvaða þátt sem er í stjórnsýslu sveitarfélags sem á annað borð lýtur eftirliti þess samkvæmt 109. gr. laganna.

Með hliðsjón af framangreindu og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að þér freistið þess að bera erindi yðar undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið áður en það kemur til umfjöllunar hjá umboðsmanni.

Hér hef ég einnig hliðsjón af því að árið 2018 barst umboðsmanni Alþingis kvörtun í tengslum við innheimtu á fasteignagjöldum sveitarfélags. Atvik þess máls og yðar eru ekki að öllu leyti eins en hið fyrrnefnda mál laut þó einnig að innheimtukostnaði og dráttarvöxtum sem kvartanda var gert að greiða. Í kjölfar þeirrar kvörtunar var samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu ritað bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið teldi athafnir og ákvarðanir þess sveitarfélags sem um ræddi í málinu falla undir stjórnsýslueftirlit þess á grundvelli sveitarstjórnarlaga.

Í svarbréfi ráðuneytisins var til þess vísað að það teldi álitaefni kvörtunarinnar heyra undir stjórnsýslueftirlit þess og að ráðuneytið myndi því taka erindi kvartanda til meðferðar ef það bærist því.

Fari svo að A leiti til ráðuneytisins, eða þér fyrir hans hönd, og hann telur sig enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu þess, hvort sem í henni felst efnisleg afstaða til málsins, getur hann, eða þér fyrir hans hönd, leitað til mín að nýju með sérstaka kvörtun þar um. Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 hef ég lokið athugun minni á kvörtun yðar að svo stöddu.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson