Lögheimili. Skráning og meðferð persónuupplýsinga.

(Mál nr. 10860/2020)

Kvartað var yfir því að Þjóðskrá Íslands hefði látið barnsföður í té upplýsingar um búsetuland þrátt fyrir að óskað hefði verið eftir duldu lögheimili í þjóðskrá.  

Ekki varð annað séð en málið væri til meðferðar hjá Persónuvernd. Þá hafði athugasemdum við að þjóðskrá hefði ekki lagt erindið í réttan farveg ekki verið komið á framfæri við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og kæruleið þannig tæmd. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina hvað þetta snerti. Að því er laut að ósk um að Þjóðskrá Íslands afmáði persónuupplýsingar viðkomandi og barna hennar úr skrám stofnunarinnar eða dyldi lögheimili þeirra hafði stofnunin orðið við því og þar með ekki tilefni til að fjalla um þann þátt kvörtunarinnar heldur. 

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 14. desember sl., þar sem þér kvartið yfir því að Þjóðskrá Íslands hafi látið föður yngsta barns yðar í té upplýsingar um búsetuland yðar og barna yðar þrátt fyrir að þér hafið óskað eftir duldu lögheimili í þjóðskrá. Frekari gögn um samskipti yðar við stofnunina bárust skrifstofu minni með tölvupósti 11. og 20. janúar sl. Af gögnum þeim er bárust 20. janúar sl. verður ekki annað ráðið en að málið sé nú, að því er varðar meint brot á lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, til meðferðar hjá Persónuvernd.

Af gögnum þeim er fylgdu með kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið óskað eftir því, með tölvupósti 2. júlí 2020, við Þjóðskrá Íslands að búsetuland yðar og barna yðar yrði ekki skráð, heldur yrðuð þér skráð „erlendis“ og að heimilisfang yðar yrði ekki aðgengilegt. Þér skýrðuð jafnframt ástæður þess, þýðingu þess fyrir yður og óskuðuð að stofnunin hefði samband ef frekari gögn skyldi þurfa til staðfestinar.

Í svari Þjóðskrár Íslands sama dag segir: „Þegar þú flytur getur þú tilkynnt flutning á vefnum en þar getur þú valið Útlönd í reitnum Staður sem flutt er til.“ Auk þess var yður sendur tengill á flutningstilkynningu en ekki var óskað frekari gagna.

Af framangreindu og fyrirliggjandi gögnum verður ráðið Þjóðskrá Íslands hafi ekki lagt erindi yðar í farveg umsóknar um dulið lögheimili og ljóst er að barnsföður yðar voru síðar veittar upplýsingar um búsetuland yðar, sem yður var tilkynnt um með tölvupósti 27. nóvember 2020. Var það staðfest af hálfu starfsmanns Þjóðskrár, með tölvupósti sem sendur var 30. nóvember sama ár í kjölfar fyrirspurnar yðar, og þér jafnframt upplýst um að stofnuninni yrðu að berast frekari gögn til að unnt væri að dylja lögheimilið.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Hann skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Í lögunum er þannig gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er það tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni, af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til, geti kvartað til umboðsmanns.

Í samræmi við framangreint er það almennt skilyrði að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að honum eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni hans umfram aðra. Það er því ekki hlutverk umboðsmanns að láta einstaklingum eða öðrum í té almennar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni. Mun ég því haga afmörkun minni, við úrlausn á máli yðar, í samræmi við framangreint hlutverk mitt.

  

II

1

Markmið laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur, er að stuðla að réttri skráningu lögheimilis og aðsetur einstaklinga á hverjum tíma. Jafnframt er það markmið laganna að tryggja réttaröryggi í meðferð ágreiningsmála er varða skráningu lögheimilis. Í 7. gr. laganna er fjallað um dulið lögheimili, sem heimilar einstaklingi eða fjölskyldu hans að lögheimili verði ekki miðlað.

Á grundvelli 18. gr. laganna hefur ráðherra sett reglugerð nr. 1277/2018, um lögheimili og aðsetur, þar sem nánar er fjallað um dulið lögheimili í 12. gr. Samkvæmt ákvæðinu þarf einstaklingur að sýna fram á nauðsyn dulins lögheimilis með staðfestingu lögreglustjóra um að einstaklingur eða fjölskylda hans sé í hættu. Í staðfestingu lögreglustjóra þarf að koma fram að viðkomandi sé í hættu og alvarleiki hættunnar. Samkvæmt ákvæði reglugerðarinnar skal heimildin fyrir því að hafa lögheimili dulið ekki vara lengur en þörf er á og getur hún aðeins gilt í eitt ár en sækja þarf um framlengingu fyrir lok gildistíma.   

Lög nr. 140/2019, um skráningu einstaklinga, hafa svo það  markmið að tryggja að haldin sé áreiðanleg skrá yfir einstaklinga og að skráningin sé rétt svo að hún skapi grundvöll fyrir tiltekin réttindi og tilteknar skyldur einstaklinga, sbr. 1. gr. laganna. Þjóðskrá Íslands annast skráningu einstaklinga í þjóðskrá og útgáfu kennitölu til þeirra samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna. Í 14. gr. laganna er fjallað um vernd skráðra einstaklinga gegn afhendingu upplýsinga. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins getur Þjóðskrá Íslands, ef ríkar ástæður eru fyrir hendi, heimilað einstaklingi, sem með rökstuddum hætti óskar eftir því, og eftir atvikum með framlagningu gagna þar um, að upplýsingum um nafn og/eða lögheimili eða aðsetur hans og nánustu fjölskyldu verði ekki miðlað úr þjóðskrá. Gildir verndin í eitt ár nema hlutaðeigandi óski þess að hún sé felld niður fyrr. Þjóðskrá Íslands er heimilt að framlengja verndina í allt að eitt ár í senn ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Þjóðskrá Íslands er sérstök stofnun sem heyrir undir yfirstjórn samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, sbr. 3. gr. laga nr. 140/2019 og a-liður 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Af því leiðir að ráðuneytið fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir gagnvart stofnuninni og setur samgöngu- og sveitastjórnarráðherra almennt stjórnvaldsfyrirmæli á sviðinu. Auk þessa eru stjórnvaldsákvarðanir Þjóðskrár Íslands almennt kæranlegar til ráðherra, sbr. m.a. 6. gr. laga nr. 70/2018, um Þjóðskrá Íslands.

Ástæða fyrir því að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að tiltekin skilyrði eru fyrir því að kvörtun verði tekin til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis, sem nánar eru rakin í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis ef bera má mál undir æðra stjórnvald og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er með kvörtun til aðila á borð við umboðsmann Alþingis sem stendur utan stjórnkerfis þeirra.

Í samræmi við þetta þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en mál kemur til athugunar hjá umboðsmanni á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Af efni kvörtunar yðar verður ekki annað ráðið en að hún beinist að því að Þjóðskrá Íslands hafi ekki lagt mál yðar í réttan farveg, í tilefni af erindi yðar 2. júlí 2020, og af því hafi leitt að barnsfaðir yðar hafi fengið upplýsingar um búsetuland barns yðar, og þar með yðar og fjölskyldunnar.

Með vísan til þess sem að framan segir um nauðsyn á aðkomu æðri stjórnvalds til að hægt sé að kvarta til umboðsmanns tel ég rétt að þér freistið þess að koma athugasemdum yðar að þessu leyti á framfæri við samgöngu- og sveitastjórnarráðherra áður en þér leitið til mín með kvörtun sem lýtur að þessum atriðum.

Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til efnis kvörtunar yðar að öðru leyti en að framan greinir. Jafnframt tek ég fram að ef þér kjósið að leita til ráðherra en teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni afstöðu ráðuneytis hans getið þér að sjálfsögðu leitað til mín á ný með kvörtun.

  

2

Hvað varðar ósk yðar um að Þjóðskrá Íslands afmái persónuupplýsingar um yður og börn yðar úr skrám stofnunarinnar ellegar dylji lögheimili yðar verður ekki annað ráðið en þér óskið þess að umboðsmaður beini tilmælum þar að lútandi til stofnunarinnar. Í þeim gögnum er bárust skrifstofu minni, með tölvupósti yðar 20. janúar sl., var m.a. að finna tölvupóst frá starfsmanni Þjóðskrár um staðfestingu á skráningu dulins lögheimilis. Þar segir m.a. eftirfarandi:

„Þjóðskrá Íslands hefur móttekið staðfestingu frá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu, dags. 8. janúar 2021, á því að þú [...] og börnin þín þrjú [...], hafið þörf fyrir dulda skráningu lögheimilis í þjóðskrá.

Til samræmis við ofangreinda staðfestingu eruð þið og börnin skráð í útlönd frá og með 20. júní 2020.“

Með vísan til þess hluta kvörtunar yðar er varðar ósk um dulið lögheimili yðar, og þess sem fram kemur í tilvitnuðum tölvupósti Þjóðskrár, lít ég svo á að ekki sé tilefni til að taka þennan lið kvörtunarinnar til frekari athugunar. Þar sem þeirri vinnureglu hefur verið fylgt hjá umboðsmanni að fjalla ekki um mál á sama tíma og þau eru til meðferðar hjá eftirlitsaðila innan stjórnsýslunnar koma þau atriði í erindinu sem falla undir lög nr. 90/2018 enn fremur ekki til athugunar á meðan kvörtun þar að lútandi er til meðferðar hjá Persónuvernd.

  

3

Af gögnum þeim er bárust með tölvupósti yðar 20. janúar sl. kemur enn fremur fram að þér hafið óskað eftir svörum Þjóðskrár Íslands við nánar tilgreindum spurningum auk afhendingar tiltekinna gagna með bréfi, dags. 17. desember 2020, sem barst Þjóðskrá með tölvupósti 27. desember sama ár. Verður ekki annað ráðið en að kvörtun yðar lúti þannig einnig að því að Þjóðskrá Íslands hafi ekki svarað þessu erindi yðar með fullnægjandi hætti. 

Það er meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum þeim sem berast án ástæðulausra tafa, sbr. til hliðsjónar meginreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hvort um óeðlilegan drátt sé að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindi og málsmeðferðarregla sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess.

Í tölvupósti starfsmanns Þjóðskrá Íslands, sem yður barst 28.  desember 2020 í tilefni erindis yðar, sagði m.a.:

„Það sem ég átti við er að ég þegar ég segi að mér gefist ekki ráðrúm í þessum pósti til að svara öllum spurningum þínum er einfaldlega að ég næ ekki að svara öllu núna í svarpóstinum sem ég var að senda þér. Mér fannst mikilvægt að lát þig strax vita að aukinn frestur væri veittur. Við munum svara betur síðar.“

Með vísan til umfangs erindis yðar til Þjóðskrár Íslands, sem fól í sér spurningar og beiðni um skýringar stofnunarinnar auk beiðni um afhendingu gagna, tel ég ekki að slíkur dráttur hafi orðið á afgreiðslu erindis yðar að tilefni sé til að ég taki það atriði til frekari athugunar. Hef ég þar til hliðsjónar afstöðu Þjóðskrár Íslands, sem kemur fram í tilvitnuðum tölvupósti, um að erindið sé í farvegi hjá stofnuninni. Ég tek þó fram að hafi enn ekki borist svar frá stofnuninni fyrir lok febrúar nk. eigið þér kost á að leita til mín á ný með kvörtun þess efnis, að undangenginni skriflegri ítrekun yðar til stofnunarinnar á erindinu.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á máli yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.   

Undirritaður hefur farið með mál þetta á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson