Almannatryggingar. Umönnunarmat. Upphaf stjórnsýslumáls.

(Mál nr. 10873/2020 & 10874/2020)

Kvartað var yfir úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvarðanir Tryggingastofnunar um upphafstíma umönnunarmats tveggja barna. Miða ætti við fyrstu dagsetningar gagna málsins en ekki hvenær gögnum hefði verið skilað til Tryggingastofnunar með umsókn.

Í úrskurðunum var vísað til að ekki væru heimildir í lögum til að greiða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn hafi borist. Taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar.

    

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín frá 18. desember sl. sem beinist að úrskurðarnefnd velferðarmála og lýtur að úrskurði hennar frá 16. desember sl. í máli sonar yðar nr. 417/2020 og úrskurði í máli dóttur yðar frá sama degi í máli nr. 418/2020. Með úrskurðunum voru ákvarðanir Trygginga­stofnunar frá 8. júní 2020 um upphafstíma umönnunarmats barna yðar, 1. október 2019, staðfestar.

Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið að upphafstíma ætti að miða við fyrstu dagsetningar gagna málsins, en ekki hvenær gögnum hafi verið skilað til Tryggingastofnunar með umsókn. Reikna eigi rétt til greiðslna afturvirkt til júlí 2017 en ekki október sama ár eins og Trygginga­stofnun hafi tekið ákvörðun um. Greining á högum barnanna hafi verið gerð í júlí 2019 eins og komi fram í gögnum frá Sól, sálfræði- og læknisþjónustu. Þau gögn hafi borist Tryggingastofnun í júlí eða ágúst 2019.

Úrskurðir í málunum fylgja kvörtunum yðar en við athugun mína á þeim hef ég jafnframt litið til gagna sem aflað var hjá nefndinni vegna kvartana yðar yfir öðrum þáttum umönnunarmats barnanna, mál nr. 10709/2020 og 10720/2020 í málaskrá umboðsmanns.

  

II

Af úrskurðum úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 417/2020 og 418/2020 fæ ég ráðið að þér hafið óskað eftir að upphafstími umönnunar­mats barnanna beggja yrði ákvarðaður frá 1. júlí 2017 en stofnunin hafi ákvarðað upphafstíma umönnunarmats þeirra frá 1. október 2017. Til grund­vallar ákvörðun Tryggingastofnunar hafi legið umsókn yðar um umönnunar­greiðslur vegna sonar yðar frá 3. september 2019 og vegna dóttur yðar frá 20. september 2019.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, er Trygginga­stofnun heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til fram­færenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi, allt að 96.978 kr. á mánuði og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Heimilt er að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvar­leg þroskafrávik, sem jafna má við fötlun, og barna með alvarleg hegðunar­vandamál sem jafna má við geðræna sjúkdóma. Nánar er mælt fyrir um heimildir til aðstoðar í reglugerð nr. 504/1997, með síðari breytingum, um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og lang­veikra barna.

Í 13. gr. laga nr. 99/2007 er mælt fyrir um að við framkvæmd þeirra skuli beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar. Þá segir í 14. gr. laganna að ákvæði laga um almannatryggingar gildi um bætur félags­legrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, skal sækja um allar bætur og greiðslur samkvæmt þeim lögum. Í 2. mgr. kemur fram að umsóknir skuli vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti sem stofnunin telji fullnægjandi. Í 6. gr. reglugerðar nr. 504/1997 kemur fram að umsóknir framfærenda skuli sendar Trygginga­stofnun á þar til gerðum eyðublöðum með tillögum svæðis­skrif­stofu um málefni fatlaðra eða sveitarfélaga um flokkun og greiðsluviðmið ef um fatlað barn er að ræða. Greiningaraðilar skulu senda læknisvottorð um læknisfræðilega greiningu og meðferð og umönnun barna til Trygginga­stofnunar ríkisins.

Um upphaf bótaréttar er fjallað í 53. gr. laga nr. 100/2007. Þar segir í 1. mgr. að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skuli bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Í 4. mgr. ákvæðisins segir að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

  

III

Af úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála fæ ég ráðið að niðurstöður nefndarinnar um að staðfesta ákvarðanir Tryggingastofnunar um upphafstíma umönnunarmats barna yðar hafi einkum byggst á því að umsóknirnar ásamt fylgigögnum hafi borist annars vegar 3. september og hins vegar 20. september 2019. Sækja verði sérstaklega um umönnunar­greiðslur, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007, og þær verði ekki ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauð­synleg gögn berast, sbr. 4. mgr. 53. gr. Við það tímamark hafi því verið miðað og þar með ákveðið að samþykkja umönnunargreiðslur frá 1. október 2017.

Alþingi hefur með framangreindum ákvæðum 1. og 4. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 útfært í lögum við hvaða tímamark skuli miða og er þar skýrt tekið fram að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta. Ákvæðið í þessari mynd var lögfest með 10. gr. laga nr. 166/2006, en með því var gerð breyting á orðalagi 2. mgr. 48. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar á þann hátt að við 1. málsl. ákvæðisins, setninguna „Bætur, aðrar en slysalífeyrir og sjúkradagpeningar, skulu aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár.“, bættist setningar­hlutinn „frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni“. Í athugasemdum greinargerð með frumvarp er varð að lögunum segir:

„Ákvæði b-liðar 9. gr. frumvarpsins skýra betur frá hvaða tímamarki skuli ákvarða bætur aftur í tímann. Óvissa hefur verið um þessi tímamörk og þykir eðlilegt að miða við tímann frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.“ (Sjá Alþt. 2006-2007, A-deild, bls. 1801.)

Fyrir liggur að umsóknir fyrir börnin bárust 3. september og 20. september 2019. Læknisvottorð barnageðlæknisins vegna beggja barnanna, sem send voru beint til Tryggingastofnunar, eru dagsett 12. ágúst 2019.

Úrskurðarnefndin fjallaði um þá málsástæðu yðar að gögn frá sér­fræðilækni hefðu borist áður en umsóknirnar og vísaði í þeim efnum til þess að ekki væru heimildir í lögum til að greiða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því umsókn barst. Ég tel mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að þessu leyti.

Að virtum framangreindum lagagrundvelli málsins og með vísan til rökstuðnings úrskurðarnefndarinnar tel ég ekki forsendur af minni hálfu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að staðfesta ákvarðanir Tryggingastofnunar frá 8. júní 2020 um að upphafstími umönnunar­mats barna yðar skyldi vera 1. maí 2017. Ég tek hins vegar fram að kvartanir yðar sem hafa hlotið málsnúmerið 10709/2020 og 10720/2020 í málaskrá umboðsmanns eru enn til athugunar.

  

IV

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég athugun minni á málinu.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

    

Kjartan Bjarni Björgvinsson