Námslán og námsstyrkir.

(Mál nr. 10900/2021)

Kvartað var yfir stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN), nú Menntasjóðs námsmanna, vegna synjunar sjóðsins á beiðni um undanþágu vegna afborgana námslána.

Fyrir lá að málskotsnefnd Menntasjóðs hafði fellt ákvörðunina úr gildi og stjórn sjóðsins verið falið að skoða málið að nýju. Enn fremur að sjóðurinn hefði fallist á undanþágu afborgana og endurgreiðslu. Ekki var því tilefni fyrir umboðsmann til að taka þau atriði til sérstakrar athugunar. Að því leyti sem kvörtunin kynni að beinast að almennum starfsháttum stjórnar og framkvæmdastjórnar sjóðsins var viðkomandi bent á að leita til mennta- og menningarmálaráðherra á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hans.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 7. janúar sl., sem beinist að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN), nú Menntasjóðs námsmanna, í máli yðar er varðar synjun sjóðsins á beiðni yðar um undanþágu vegna afborgana námslána. Af kvörtuninni og fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að hún lúti einkum að röksemdum stjórnar sjóðsins, þar á meðal túlkun á 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra náms­manna, sem fram hafi komið í greinargerð vegna kærumáls yðar hjá málskotsnefnd Menntasjóðs. Jafnframt gerið þér athugasemd við að sam­skiptum yðar við sjóðinn og stjórn hans sé ekki lýst með réttum hætti í greinargerðinni.

Fyrir liggur úrskurður málskotsnefndar Menntunarsjóðs, dags. 30. október sl. Þar var hin kærða ákvörðun felld úr gildi og stjórn sjóðsins falið að skoða mál yðar að nýju. Þá liggur fyrir að Menntasjóður náms­manna hefur tilkynnt yður um að fallist hafi verið á undanþágu afborgana og að endurgreiða yður.

  

II

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 3. mgr. 6. gr. kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðs­manns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þessi regla er byggð á því að stjórnvöld skuli áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfisins, eins og umboðsmanns Alþingis, hafa átt þess kost að leiða málið til lykta og bæta úr því sem kann að hafa farið úrskeiðis við meðferð málsins á lægri stigum stjórnsýslunnar. Þannig gefur stjórnsýslukæra af hálfu þess sem er ósáttur við ákvörðun eða málsmeðferð lægra setts stjórnvalds viðkomandi kost á að koma slíkum athugasemdum á framfæri við æðra stjórnvald og fá úrlausn um þau atriði. Sé viðkomandi enn ósáttur við afgreiðslu æðra stjórnvalds á málinu og leitar að því tilefni til umboðsmanns Alþingis beinist athugun umboðs­manns á kvörtuninni fyrst og fremst að því hvort æðra stjórnvaldið hafi leyst réttilega úr málinu, og þá einnig að því marki sem athugasemdir beinast að meðferð máls á lægra stjórnsýslustigi.

Í úrskurði málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna frá 30. október sl. eru gerðar athugasemdir við niðurstöðu stjórnar sjóðsins um að synja beiðni yðar um niðurfellingu eða lækkun á afborgun námslána, þar á meðal túlkun nefndarinnar á ákvæði 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Þá er ljóst að Menntasjóður námsmanna hefur endurskoðað mál yðar og þér fengið undan­þágu afborgunar og endurgreiðslu. Það er því ljóst að málskotsnefnd Menntasjóðs hefur að þessu leyti brugðist við athugasemdum yðar við málsmeðferð sjóðsins á beiðni yðar um undanþágu vegna afborgunar námslána. Ég tel því ekki tilefni til að taka til sérstakrar athugunar þau atriði sem beinast að sjónarmiðum sem stjórn sjóðsins lagði til grund­vallar ákvörðun sem málskotsnefnd hefur fellt úr gildi.

Að því leyti sem kvörtun yðar kann að beinast að almennum starfsháttum stjórnar og framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna tek ég fram að í samræmi við framangreint ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, og vegna þeirrar yfirstjórnar– og eftirlitsheimilda sem ráð­herrar fara með vegna þeirra málefnasviða og stofnana sem undir þá heyra, í þessu tilviki mennta- og menningarmálaráðherra, hefur af hálfu umboðs­manns verið talið rétt að viðkomandi ráðherra hafi fengið tækifæri til að fjalla um mál og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum, áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar. Með framangreindri ábendingu hef ég þó ekki tekið afstöðu til þess hvaða frekari meðferð málið fái, fari svo að þér leitið til mennta- og menningarmálaráðherra, ætti að hljóta.

   

III

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar. Ég tek þó fram að ábendingar yðar um að tilefni sé til að taka fram­kvæmd á undanþágu afborgunar lána hjá LÍN, nú Menntasjóði námsmanna, til sérstakrar skoðunar, sbr. heimild umboðsmanns samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 hafa verið skráðar hjá umboðsmanni. Komi til þess að ég ákveði að taka framkvæmd Menntasjóðsins að þessu leyti til athugunar að eigin frumkvæði mun ég þó ekki tilkynna yður um það sérstaklega heldur lýsa um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis

   

    

Kjartan Bjarni Björgvinsson