Almannatryggingar. Heimilisuppbót.

(Mál nr. 10914/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar að synja umsókn um heimilisuppbót. Gerðar voru athugasemdir við þá afstöðu nefndarinnar að umsækjendur sem skráðir væru í hjúskap uppfylltu, þegar af þeirri ástæðu, ekki það skilyrði þess að heimilisuppbót væri greidd að vera einhleypir.

Umboðsmaður reifaði breytingu á tilteknu ákvæði um heimilisuppbót í lögum um félagslega aðstoð.  Ekki væri unnt að gera athugasemd við grundvöll úrskurðar nefndarinnar og þann málskilning að með einhleypum einstaklingi væri átt við þann sem hvorki væri í sambúð né hjúskap enda væri það í samræmi við hefðbundnar lögskýringaraðferðir.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar sem þér hafið komið á framfæri f.h. A og barst umboðsmanni Alþingis 21. janúar sl. vegna úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála frá 16. desember 2020 í máli nefndarinnar nr. 360/2020 þar sem staðfest var sú ákvörðun Trygginga­stofnunar frá 11. júní 2020 að synja umsókn hennar um heimilis­uppbót, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.

Af kvörtuninni verður ráðið að gerðar séu athugasemdir við þá afstöðu úrskurðarnefndarinnar að umsækjendur sem skráðir eru í hjúskap uppfylli þegar af þeirri ástæðu ekki það skilyrði þess að heimilisuppbót verði greidd að viðkomandi sé einhleypur. Sú afstaða sé ekki í samræmi við þau markmið sem stefnt sé að með lögum um félagsaðstoð, svo og lögum um almannatryggingar, þ.e. að veita þeim sem eru í neyð nauðsynlega aðstoð.

Ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð er svohljóðandi:  

„Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps líf­eyris­þega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjár­hagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“

Í úrskurðinum kemur að þessu leyti eftirfarandi fram:

„Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði [1. mgr. 8. gr. laga um félaglega aðstoð] að vera uppfyllt. Trygginga­­stofnun synjaði umsókn [A] um heimilis­upp­bót á þeirri forsendu að [hún] uppfyllti ekki skilyrði [ákvæðisins] um að vera einhleyp. Skilgreining á orðinu einhleypur samkvæmt Íslenskri nútímaorðabók, sem birt er á netinu og unnin hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er að um sé að ræða einstakling sem sé hvorki í sambúð né hjóna­bandi. Samkvæmt gögnum málsins fékk [A] leyfi til skilnaðar að borði og sæng með dómi héraðsdóms þann 23. júní 2020. [...] Úrskurðarnefndin telur ljóst að það sé skýrt skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt [1. mgr. 8. gr.] að umsækjandi sé einhleypur. Þar sem kærandi var í hjónabandi uppfyllti hún þegar af þeirri ástæðu ekki umrætt skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar.“

Af gögnum málsins og því sem fram kemur í úrskurði nefndarinnar verður ráðið að með umsókn sinni hafi A farið þess á leit við Tryggingastofnun að henni yrði greidd heimilisuppbót aftur til 18. maí 2017, til vara aftur til ágústmánaðar 2017 og loks til þrautavara frá 18. desember 2018. Óumdeilt er að A var í hjúskap á þessum tíma.

Af hinum tilvitnuðu orðum úr úrskurði nefndarinnar verður ráðið að úrskurðarnefndin líti svo á að umsækjandi sem skráður er í hjónaband uppfylli ekki það skilyrði 1. mgr 8. gr. laga nr. 99/2007 að vera ein­hleypur. Þar með hafi A ekki uppfyllt skilyrði greiðslnanna.

Af þessu tilefni tek ég fram að upphaflega var mælt fyrir um heimilisuppbót í lögum í 2. mgr. 19. gr. þágildandi laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, sbr. lög nr. 69/1977, en þá var vísað til þess að heimilt væri að greiða „einhleypingi“ sem væri einn um heimilisrekstur heimilisuppbót. Í lögskýringargögnum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 69/1977 var ekki vikið að því hvað fælist í hugtakinu einhleypingur.

Ákvæði laga um félagslega aðstoð um heimilisuppbót í þeirri mynd sem það birtist í dag, sbr. ofangreint, var fært inn í lögin með lögum nr. 116/2016, um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, sbr. 13. gr. þeirra. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 116/2016 kemur fram að „lagt [sé] til að orðalagi 1. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð verði breytt án þess að um efnislega breytingu sé að ræða hvað varðar skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar.“ (Sjá Þskj. 1624 – 857. mál, 145. löggjafarþingi 2015-2016.)

Með þetta í huga tel ekki unnt af minni hálfu að gera athugasemd við að úrskurðarnefndin hafi lagt til grundvallar í máli A þann almenna málskilning að með einhleypum einstaklingi sé í laga­ákvæðinu átt við þann sem hvorki er í sambúð né hjúskap enda er það í samræmi við hefðbundnar lögskýringaraðferðir. Því tel ég ekki tilefni til þess að taka úrskurð nefndarinnar til frekari athugunar að þessu leyti.

Fyrir liggur að A fékk leyfi til skilnaðar að borði og sæng með dómi héraðsdóms frá 23. júní 2020. Þá kemur fram í greinargerð Tryggingarstofnunar vegna málsins hjá úrskurðarnefndinni að A hafi sótt að nýju um heimilisuppbót eftir að dómurinn var kveðinn upp. Ég vek athygli á því að í framkvæmd hefur verið á því byggt að einstaklingur sem hefur fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng teljist einhleypur í skilningi 1. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð, sjá t.d. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála frá 19. október 2016 í máli nefndarinnar nr. 72/2015. Með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvernig Tryggingastofnun, og eftir atvikum úrskurðarnefndin, ber að fara með hina endurnýjuðu umsókn. Ég tek þó fram að A, eða yður fyrir hennar hönd, er að sjálfsögðu fært að leita til umboðsmanns á nýjan leik telji hún sig hafa verið beitta rangsleitni að fenginni endanlegri niðurstöðu í því máli.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson