Jafnréttismál.

(Mál nr. 10916/2021)

Kvartað var yfir stofnun Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna. 

Ekki varð ráðið að kvörtunin beindist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem snerti viðkomandi sérstaklega. Laut umfjöllun umboðsmanns því að tilurð og tilgangi Svanna sem hann taldi ekki tilefni til að taka til nánari athugunar.  

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 22. janúar sl., vegna stofnunar Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðs­manns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðs­manns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðs­manns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlut­verk umboðsmanns að láta í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún beinist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalda sem hefur beinst að yður sérstaklega, s.s. gert er ráð fyrir í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, heldur að þér teljið starfsemi Svanna á skjön við 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 um jafnan rétt karla og kvenna enda standi sambærileg lánafyrirgreiðsla karlmönnum ekki til boða, hvorki á vegum Svanna né annarra sjóða eða aðgerða á vegum hins opinbera.

Hlutverk sjóðsins mun vera að veita lán til fyrirtækja í meiri­hluta­eigu kvenna en sjóðurinn er í eigu forsætisráðuneytisins, atvinnu­vega- og nýsköpunarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar og má rekja sögu hans allt aftur til ársins 1995. Nú starfar hann í samvinnu við Lands­bankann, sem veitir umrædd lán.

Að því er varða þann lagagrundvöll sem býr að baki starfsemi sjóðsins vil ég vekja athygli yðar á því að umboðsmaður hefur áður fjallað um hann vegna kvörtunar sem honum barst. Þá umfjöllun má nálgast á vef umboðsmanns, www.umbodsmadur.is (sjá bréf vegna máls nr. 3580/2002).

Samkvæmt þeim grundvallarreglum sem fylgt er hér á landi um starfs­heimildir stjórnvalda þurfa ákvarðanir þeirra sem beinast að málefnum borgaranna að styðjast við lagaheimild og vera í samræmi við hana. Þá þurfa stjórnvöld að virða jafnræði borgaranna í störfum sínum, sbr. 65. gr. stjórnarskrár og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ég bendi yður á að samkvæmt 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnar­skipunarlaga nr. 97/1995, er sérstaklega mælt fyrir um að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Í upphaflegu frumvarpi því er varð að lögum nr. 97/1995, sem breyttu mannréttindakafla stjórnar­skrárinnar, var ekki gert ráð fyrir framangreindu ákvæði í 2. mgr. 65. gr. Með 3. breytingartillögu stjórnarskrárnefndar, þegar frumvarpið var til meðferðar á Alþingi á 128. löggjafarþingi, sjá þskj. 759, var 1. og 2. mgr. 65. gr. breytt í það horf sem nú gildir. Í nefndaráliti stjórnar­skrárnefndar kemur fram að gagnrýni hafi borist varðandi upphaflega fram­setningu frumvarpsins þar sem ekki hafi m.a. komið fram í greininni „nægilega skýrt ákvæði um jafnrétti karla og kvenna“. Þá komi ekki nægilega skýrt fram „hvort svonefnd „jákvæð mismunun“ sé heimil þrátt fyrir orðalag ákvæðisins, þ.e. að heimilt sé að veita ákveðnum hópum þjóð­félagsins, einkum konum, ríkari rétt en öðrum á meðan verið er að útrýma misrétti.“ (Sjá Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 3882.) Síðan segir m.a. svo í nefndarálitinu:

„[Með 3. breytingartillögu við frumvarpið er] komið til móts við það sjónarmið að í frumvarpinu vanti sérstakt ákvæði um jafn­rétti karla og kvenna þótt fjallað sé um það í raun með orðum 3. gr. Er sérstöku ákvæði bætt við til þess að leggja frekari áherslu á jafnan rétt kvenna og karla á öllum sviðum þjóðlífs. [...] Hvað varðar svonefnda „jákvæða mismunun“ telur nefndin að það gæti verið réttlætanlegt að gera ákveðnum hópum hærra undir höfði en öðrum með það að markmiði að rétta skertan hlut þeirra. Er nú þegar dæmi um slíkt í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Nefndin álítur að í jafnræðisreglunni felist þessi heimild ef beiting hennar byggist á málefnalegum forsendum.“ (Sjá Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 3883.)

Fyrir liggur að um lagagrundvöll sjóðsins hefur verið vísað til til­tekinna ákvæða áðurgildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög nr. 28/1991, og síðar lög nr. 96/2000 og 10/2008, og nú lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sem beinlínis hafi heimilað sérstakar tímabundnar aðgerðir til að stuðla að jafnrétti kynjanna. Með tilliti til þessa lagagrundvallar, áðurnefndra ákvæða stjórnar­skrárinnar og þar sem fyrir liggur að starfsemi sjóðsins er samkvæmt samþykktum hans takmörkuð við tiltekið tímabil, þ.e. 1. júní 2020 til 1. janúar 2024, tel ég ekki tilefni til þess að ég taki það til nánari athugunar eða geri athugasemdir við að umrædd stjórnvöld hafi staðið að stofnun og starfrækslu Lánatryggingasjóðs kvenna með þeim hætti að karlmenn eigi ekki kost á sömu fyrirgreiðslu af hálfu sjóðsins. Ég tek það fram að ég geng út frá því að fjárframlögum og fjárhagslegum skuld­bindingum stjórnvalda vegna starfsemi sjóðsins hafi verið hagað í samræmi við þær kröfur sem lög setja.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

    

Kjartan Bjarni Björgvinsson