Atvinnuleysistryggingar. Rafræn stjórnsýsla. Birting. Endurupptaka.

(Mál nr. 10918/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja endurupptökubeiðni máls þar sem bótaréttur var felldur niður í tvo mánuði þar sem viðkomandi mætti ekki á námskeið. Gerðar voru athugasemdir við að ekki hefði komið tilkynning í tölvupósti um að til stæði að skerða atvinnuleysisbætur á grundvelli viðurlaga.  

Ákvörðun Vinnumálastofnunar var birt á „mínum síðum“ viðkomandi líkt og honum hafði verið tilkynnt að gert yrði eftir að hann bað um að vera í rafrænum samskiptum við stofnunina. Beiðni um endurupptöku var lögð fram eftir að ársfrestur til þess var liðinn. Taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að ekki hefðu verið veigamiklar ástæður sem mæltu með endurupptöku málsins eða svo verulegur annmarki á málsmeðferðinni að skylt hefði verið að endurupptaka það á grundvelli ólögfestra reglna.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 22. janúar sl., sem þér beinið að Vinnumálastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála og lýtur að úrskurði nefndarinnar frá 19. janúar sl. í máli nr. 479/2020. Með úrskurðinum stað­festi úrskurðarnefndin ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja endur­upptökubeiðni yðar, dags. 26. maí 2020. Sú endurupptökubeiðni laut að ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 28. maí 2018, um að fella bótarétt yðar niður í tvo mánuði á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnu­­leysistryggingar, vegna fjarveru yðar á boðað námskeið.

Í kvörtun yðar vísið þér til þess að þér hafið ekki fengið til­kynningar í tölvupósti um að til stæði að skerða atvinnuleysisbætur yðar á grundvelli viðurlaga. Þá gerið þér athugasemdir við tölvupósts­sam­skipti yðar við starfsmann Vinnumálastofnunar, sem þér teljið hafa talað niður til yðar.

  

II

1

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að 26. mars 2018 hafið þér verið boðaður á námskeið sem haldið var 9., 11. og 13. apríl sama ár. Þá hafi yður verið send áminning um námskeiðið og þar tekið fram að um skyldumætingu væri að ræða. Þá hafið þér jafnframt óskað eftir því að vera í rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnun og verið upplýstur um að í því fælist að ákvarðanir hennar yrðu birtar á „mínum síðum“ stofnunarinnar og að tilkynningar um þær yrðu sendar með tölvupósti. Í samræmi við það hafi ákvörðun stofnunarinnar verið birt á „mínum síðum“ og yður send tilkynning á skráð netfang yðar að skilaboð biðu á vefsvæðinu. Taldi úrskurðarnefndin því að ekki væri ástæða til að gera athugasemd við birtingu ákvörðunarinnar og að ekki væru fyrir hendi veigamiklar ástæður sem mæltu með endurupptöku málsins.

Um endurupptöku stjórnsýslumála er fjallað í 24. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993. Þar segir að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því mál sé tekið til meðferðar á ný ef ávörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum gögnum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð og bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. sömu málsgreinar. Þá segir í 2. mgr. 24. gr. að eftir að þrír mánuður séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Í athugasemdum við 24. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/1993 kemur fram að í 2. mgr. 24. gr. sé að finna skilyrði sem sett séu til að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd og sé ætlað að koma í veg fyrir að verið sé að endurupptaka mjög gömul mál sem erfitt getur verið að upplýsa. Markmiðið með ákvæðum 2. mgr. sé að stuðla að því að mál séu til lykta leidd svo fljótt sem unnt er. Telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3305.)

Heimildir stjórnvalda til endurupptöku máls eru þó ekki bundnar við þær ástæður sem nefndar eru í 24. gr. stjórnsýslulaga heldur getur málsaðili átt rétt til endurupptöku á grundvelli ólögfestra reglna, s.s. þegar efnislegur annmarki er á hinni upphaflegu ákvörðun eða þegar til staðar eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds. Sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns frá 7. júlí 2000 í máli nr. 2614/1998.

Þá tel ég einnig vert að nefna að í 2. og 3. málsl. 7. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um það að þegar Vinnumálastofnun upplýsir umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans stendur. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hefur tiltekið við hlutaðeigandi teljast upp­lýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti samkvæmt lögunum.

Í ljósi þess að beiðni yðar um endurupptöku málsins var lögð fram hjá Vinnumálastofnun 25. maí sl. liggur fyrir að sá ársfrestur sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga var þá þegar liðinn. Að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem þér gerið við hina upphaflegu ákvörðun Vinnumálastofnunar, og með hliðsjón af því að sú ákvörðun ásamt boðun yðar á umrætt námskeið var birt yður á „mínum síðum“ stofnunar­innar, að undangenginni tilkynningu með tölvupósti, tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðar­nefndarinnar að ekki hafi verið fyrir hendi veigamiklar ástæður sem mæltu með endurupptöku málsins eða svo verulegur annmarki á málsmeð­ferðinni að skylt hafi verið að endurupptaka málið á grundvelli ólögfestra reglna. Hef ég þar einkum í huga að ekki verður annað séð en að birting ákvörðunarinnar og boðun yðar á námskeiðið hafi verið í samræmi við fyrirmæli 7. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006.

Í því sambandi ítreka ég það sem fram komi í bréfi umboðsmanns til yðar frá 25. september sl. í máli nr. 10561/2020, um að ekki væru for­sendur til að rengja þær fullyrðingar Vinnumálastofnunar að til­kynningar hennar hefðu borist yðar með tölvupósti samhliða því að ákvörðun hennar var birt á „mínum síðum“ stofnunarinnar, og þá með hliðsjón af því að þér brugðust við andmælabréfi hennar með tölvupósti frá því netfangi sem þér létuð stofnuninni í té, daginn eftir að það var sent.

  

2

Að því marki sem kvörtun yðar beinist að tölvupóstssamskiptum yðar við starfsmann Vinnumálastofnunar, sem þér teljið hafa talað niður til yðar, bendi ég yður á að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­mann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórn­völd skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Í samræmi við framangreint hefur þeirra starfsvenju verið fylgt hjá umboðsmanni að kvartanir, sem lúta að því hvernig einstakir starfsmenn í stjórnsýslunni rækja skyldur sínar, verði almennt að hafa verið bornar undir þann sem fer með agavald gagnvart viðkomandi starfs­manni, hér forstjóra Vinnumálastofnunar, áður en þær geta komið til athugunar hjá umboðsmanni. Með þeim hætti fær viðkomandi tækifæri til að fjalla um málið og taka afstöðu til þess hvort tilefni sé fyrir hann til að bregðast við gagnvart starfsmanninum.

Ef  þér leitið til forstjórans og teljið viðbrögð hans við erindi yðar gefa tilefni til, þá getið þér eftir atvikum leitað til félags- og barna­málaráðherra sem fer með yfirstjórn stofnunarinnar, sbr. o-lið 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

  

III

Með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson