Almannatryggingar. Hjúkrunarheimili. Samningar. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. 10103/2019)

Kvartað var yfir þeirri ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að skerða uppgjörsgreiðslur samkvæmt rammasamningi fyrir þjónustu hjúkrunarheimilis. Beindist kvörtunin einnig að greiðslum eftir að samningurinn var útrunninn. 

Af atvikum og gögnum máls gat haft þýðingu hvað teldist sannað um samskipti aðila og framkvæmd samningsins. Benti umboðsmaður á að almennt væri það hlutverk dómstóla að leiða ágreining sem lyti að sönnunaratriðum til lykta. Hvað snerti ágreining um hvort heilbrigðisráðuneytið hefði gefið sjúkratryggingum bindandi fyrirmæli eða ekki taldi umboðsmaður að ekki væru nægar forsendur til að líta svo á að heilbrigðisráðherra hefði farið út fyrir yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir sínar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar fyrir hönd [...] hjúkrunarheimilis 4. júní 2019 yfir þeirri ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að skerða uppgjörsgreiðslur samkvæmt rammasamningi til heimilisins sem greiddar voru 4. júní 2018 um 0,5%. Samkvæmt kvörtuninni var um að ræða uppgjörsgreiðslur vegna leiðréttingar á einingaverði samkvæmt rammasamningi fyrir þjónustu hjúkrunarheimila vegna ársins 2017 sem og tímabilsins frá janúar til og með maí 2018. Kvörtunin beinist einnig að greiðslum til [...] sem áttu sér stað eftir 4. júní 2018 fyrir tímabilið frá júní til og með desember 2018. Þær greiðslur hafi allar miðað við einingaverð sem [...] telur að hafi verið skert með ólögmætum hætti.

Samkvæmt kvörtuninni er byggt á því að framangreint hafi verið óheimilt. Í fyrsta lagi er vísað til þess að umrædd ákvörðun um að skerða uppgjörsgreiðslur með þeim hætti sem raun ber vitni hafi ekki verið í samræmi við ákvæði rammasamningsins. Í öðru lagi er það afstaða [...] að fyrirmæli heilbrigðisráðherra til Sjúkratrygginga Íslands, um að tekið yrði tillit til aðhaldskröfu, hafi verið í andstöðu við yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir ráðherrans við aðstæður í þessu máli. Óháð því hvort fyrirmælin hafi verið í samræmi við heimildir ráðherrans er einnig byggt á því að með þeim og hvernig þau komu til framkvæmda hafi í ljósi ákvæða samningsins verið brotið í bága við vandaða stjórnsýsluhætti og meðalhófsregluna. Þá byggist kvörtunin á að hjúkrunarheimilið hafi mátt hafa réttmætar væntingar um að einingaverð rammasamningsins myndi ekki sæta aðhaldskröfunni sérstaklega umrætt sinn.

Eins og yður er kunnugt um ritaði umboðsmaður Alþingis heilbrigðisráðherra bréf 18. desember 2019 þar sem óskað var eftir afstöðu ráðuneytisins til ákveðinna atriða í tilefni af kvörtuninni. Ráðuneytið svaraði umboðsmanni með bréfi 13. febrúar sl., sem þér hafið undir höndum.

  

II

Meðal gagna málsins er fyrrnefndur rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila um þjónustu hjúkrunarheimila frá 21. október 2016. Í 1. gr. hans sagði að samningurinn væri gerður á grundvelli laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, og laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. Í 8. gr. var fjallað um verð fyrir umsamda þjónustu, þar á meðal umrætt einingaverð, og í 9. gr. var kveðið á um endurskoðun einingaverðsins. Þar kom fram að einingaverð breyttist 1. janúar ár hvert í samræmi við launa- og verðlagsforsendur fjárlaga fyrir viðkomandi ár, í fyrsta sinn 1. janúar 2017. Um greiðslur Sjúkratrygginga Íslands, greiðslutilhögun og uppgjör var svo fjallað í 11. gr. samningsins.

Samkvæmt 13. gr. starfaði samstarfsnefnd á grundvelli samningsins og gátu aðilar hans óskað eftir að hún færi yfir álitamál eða kvartanir varðandi hann. Kæmist nefndin ekki að niðurstöðu skyldi málinu vísað til samninganefnda aðila. Í 17. gr. var síðan fjallað um vanefndir og vanefndaúrræði og í 22. gr. kom fram að risi mál út af samningnum skyldi það lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.

Samkvæmt 24. gr. samningsins voru fjárhæðir hans settar fram með fyrirvara um fjárveitingar grundvallaðar á ákvörðun Alþingis um fjárheimildir í fjárlögum og með fyrirvara um að stjórnvöld kynnu að ákveða aðrar viðmiðanir við undirbúning fjárlaga vegna aðstæðna í ríkisfjármálum á hverjum tíma. Þá sagði að þannig væri heimilt að gera ráð fyrir aðhaldi í rekstri þeirra verkefna sem samningurinn tæki til á sama hátt og í málaflokkum, hjá ríkisstofnunum og öðrum aðilum sem önnuðust sambærilega starfsemi tækju stjórnvöld ákvörðun um það við gerð fjárlaga. Kæmi til lækkunar á fjárveitingu til verkefnisins skyldu samninganefndir aðila taka upp viðræður um að aðlaga verkefnið að breyttri fjárveitingu. Allar breytingar á ákvæðum samningsins skyldu aðilar gera skriflega í viðauka.

Bæði heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra staðfestu samninginn í samræmi við ákvæði hans um að hann væri gerður með fyrirvara um samþykki þeirra.

Fyrir liggur að samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2018, sbr. lög nr. 100/2017, var gerð krafa um 0,5% aðhald í rekstri hjúkrunarheimila. Lögin voru birt í A-deild Stjórnartíðinda 10. janúar 2018.

Af gögnum málsins verður enn fremur ráðið að nokkur samskipti um rammasamninginn hafi átt sér stað milli Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, Sjúkratrygginga Íslands, ráðuneytis heilbrigðismála, þá velferðarráðuneytisins, og fjármála- og efnahagsráðuneytisins á síðari hluta árs 2017 og á árinu 2018. Þau samskipti lutu meðal annars að endurskoðun einingaverðs samkvæmt 9. gr. samningsins.

Verður ráðið að í desember 2017 hafi sjúkratryggingar kynnt samtökunum hvert stofnunin teldi að ætti að vera uppfært einingaverð en vinna við að ákveða einingaverðið hafi dregist fram á árið 2018 af ýmsum ástæðum, þar á meðal í tilefni af athugasemdum samtakanna. Um mánaðarmótin maí og júní 2018 hafi sjúkratryggingar gert samtökunum grein fyrir því að fyrrnefnd 0,5% aðhaldskrafa gilti um uppfært einingaverð. Var það meðal annars eftir að ráðuneytið hafði gert athugasemdir við að útreikningar stofnunarinnar, sem stofnunin hafði áður kynnt ráðuneytinu, tækju ekki mið af aðhaldskröfunni.

Í gögnum málsins liggja fyrir samskipti milli sjúkratrygginga og ráðuneytisins um framangreinda niðurstöðu. Í bréfi stofnunarinnar 30. apríl 2018 kemur fram að á fundi í ráðuneytinu 18. sama mánaðar hefði sú afstaða ráðuneytisins verið kynnt að túlka bæri samninginn með þeim hætti að aðhaldskröfu í fjárlögum ætti að draga frá hækkun einingaverðs. Í bréfinu segir að þessu hafi verið haldið fram með vísan til 24. gr. samningsins þrátt fyrir 9. gr. hans. Í framhaldi fundarins hefðu sjúkratryggingar „kannað hvort þessi túlkun [væri] möguleg með tilliti til þess sem um [hefði verið] rætt þegar samningurinn [hefði verið] gerður og með tilliti til ákvæða samningsins“. Í stuttu máli væri það niðurstaða stofnunarinnar að hafið væri yfir vafa að óheimilt væri að taka tillit til framangreindrar aðhaldskröfu við útreikning á einingaverði. Þá segir að ef ráðuneytið staðfesti þá túlkun að aðhaldskrafa fjárlaga ætti eða hefði átt að koma til lækkunar 3,5% hækkun á einingaverði ársins 2018 og „eftir því [væri] óskað“ væru sjúkratryggingar reiðubúnar að rökstyðja framangreinda niðurstöðu með framlagningu lögfræðilegs álits.

Í framhaldi áttu stjórnvöldin í samskiptum sem vörðuðu einingaverðið. Í tölvupósti ráðuneytisins 15. maí 2018 segir: „Minni á að taka tillit til aðhaldskröfu heilbrigðisstofnana“. Í tölvupósti ráðuneytisins 23. sama mánaðar segir að það hafi farið yfir útreikninga stofnunarinnar á einingaverðinu og ekki séu gerðar aðrar athugasemdir við þá en að ekki hafi verið reiknað með aðhaldskröfu fjárlaga. Síðan segir: „Að teknu tilliti til framangreindra útreikninga og almennrar 0,5% aðhaldskröfu fjárlaga á heilbrigðisstofnanir í fjárlögum 2018, sbr. 1. mgr. 24. gr. rammasamnings um þjónustu hjúkrunarheimila, er endurmetið einingaverð yfirstandandi fjárlagaárs 111,75 kr.“

Samtökin mótmæltu þeirri niðurstöðu að aðhaldskröfunni yrði beitt um einingaverðið, sbr. m.a. tölvupóstssamskipti 24. maí 2018. Jafnframt verður ráðið að þetta málefni hafi verið rætt á vettvangi samstarfsnefndar samkvæmt 13. gr. samningsins áður en hann féll úr gildi.

  

III

1

Sem fyrr greinir byggist rammasamningurinn á lögum nr. 112/2008 og 123/2015. Samkvæmt 2. gr. fyrrnefndu laganna markar heilbrigðisráðherra stefnu innan ramma þeirra, laga um heilbrigðisþjónustu og annarra laga. Honum er heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja þeirri stefnu, meðal annars hvað varðar skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna, hagkvæmni, gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni. Í 4. gr. sömu laga er kveðið á um að sami ráðherra fari með yfirstjórn sjúkratrygginga og samningsgerð um heilbrigðisþjónustu og aðra aðstoð samkvæmt lögunum, og yfirstjórn sjúkratryggingastofnunarinnar.

Í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 123/2015 kemur fram að ráðherra hafi umsjón og eftirlit með að skipting fjárheimilda í fjárveitingar, framkvæmd fjárlaga, fjárreiður ríkisaðila og fjárstýring séu í samræmi við ákvæði laganna. Hann setji reglur þar að lútandi, veiti leiðbeiningar um framkvæmd fjárlaga og fylgist með að eftir þeim sé farið. Þá segir í 3. mgr. að hver ráðherra beri ábyrgð á og hafi virkt eftirlit með framkvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði. Hver ráðherra beri ábyrgð á að ráðstöfun fjárheimilda sé innan þess ramma sem Alþingi ákveði.

Um samninga um heilbrigðisþjónustu er fjallað í IV. kafla laga nr. 112/2008. Í 1. mgr. 39. gr. kemur fram að það sé sjúkratryggingastofnunin sem annist samningsgerð um veitingu heilbrigðisþjónustu og aðstoðar samkvæmt lögunum, lögum um heilbrigðisþjónustu og öðrum lögum, og um endurgjald ríkisins vegna hennar. Þá annist stofnunin einnig samningsgerð um veitingu þjónustu í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl og um endurgjald ríkisins vegna hennar. Í 2. mgr. sama ákvæðis segir að stofnunin geri samninga við heilbrigðisstofnanir, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir, fyrirtæki og einstaklinga um veitingu heilbrigðisþjónustu og greiði þeim endurgjald í samræmi við ákvæði samninganna. Þá greinir í 3. mgr. 39. gr. að ráðherra sé heimilt að setja nánari ákvæði um gerð samninga samkvæmt 2. mgr. í reglugerð. Þar skuli kveðið á um tegund og umfang þeirrar heilbrigðisþjónustu sem sjúkratryggingastofnunin semji um.

Samkvæmt 40. gr. laga nr. 112/2008 skulu samningar um heilbrigðisþjónustu gerðir í samræmi við stefnumörkun samkvæmt 2. gr., meðal annars um skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni og gæði þjónustunnar og aðgengi að henni. Samningar skuli meðal annars kveða á um magn, tegund og gæði þjónustu, hvar hún skuli veitt og af hverjum, ásamt endurgjaldi til veitanda og eftirliti með framkvæmd samnings. Að lokum segir að ráðherra sé heimilt að ákveða nánar í reglugerð forsendur fyrir samningsgerð um endurgjald ríkisins fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt sé utan heilbrigðisstofnana sem ríkið reki, í samræmi við stefnumörkun samkvæmt 2. gr., og að hún skuli takmarkast við gagnreynda meðferð á sviði heilbrigðisþjónustu.

Á þessum grundvelli hefur heilbrigðisráðherra sett reglugerð nr. 510/2010, um samninga um heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan heilbrigðisstofnana sem ríkið rekur. Í 2. gr. hennar kemur fram að hún gildi um samninga um heilbrigðisþjónustu sem Sjúkratryggingar Íslands annist í umboði ráðherra, sbr. 40. gr. laga nr. 112/2008.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um undirbúning nýrra samninga. Þar er hlutverki sjúkratrygginga lýst og tekið fram að fallist ráðherra ekki á niðurstöðu frumathugunar stofnunarinnar eða þær fjárhagslegu forsendur sem að baki henni liggja hafni hann tillögu hennar með rökstuðningi. Fallist ráðherra á verkefnið og niðurstöðu frumathugunar tilkynni hann stofnuninni aftur á móti þá ákvörðun sína.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar skal í samningnum meðal annars gera grein fyrir eftirfarandi: a. heildarfjárskuldbindingum ríkisins á samningstímanum ásamt einingaverði og áætluðum árlegum greiðslum. Fram skuli koma að fjárhagsleg ábyrgð ríkisins vegna samningsins takmarkist við fjárhæðir í samningi; b. hvort greiðslur samkvæmt samningi fylgi verðlagsbreytingum og hvort gert sé ráð fyrir að samningsaðilum sé heimilt að óska leiðréttinga á greiðslum á samningstímanum; c. að samningsfjárhæðir og skuldbindingar séu gerðar með fyrirvara um ákvörðun Alþingis um fjárveitingu í fjárlögum.

Þá skal þess getið að samkvæmt 48. og 49. gr. laga nr. 112/2008 skulu í samningi vera ákvæði um hvað teljist vanefndir og um vanefndaúrræði, auk þess sem almennar reglur um vanefndir og vanefndaúrræði gildi, og ákvæði um meðferð ágreinings. Áréttað er að ágreiningur um framkvæmd samninga og val á viðsemjendum sæti ekki endurskoðun ráðherra.

Til viðbótar við þau lagaákvæði sem gilda um rammasamninginn frá 21. október 2016, og hér hafa að hluta verið rakin, gilda almennar reglur stjórnsýsluréttar um hann.

  

2

Eins og áður segir byggist kvörtun [...] á því að ákvörðun og framkvæmd þess að beita 0,5% aðhaldskröfu samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2018 hafi ekki verið í samræmi við ákvæði rammasamningsins. Í því samhengi er meðal annars vísað til 24. gr. hans. Í kvörtuninni er einnig á því byggt að athafnir stjórnvalda hafi, meðal annars í ljósi ákvæða samningsins og samskipta aðila, ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, meðalhófsregluna og regluna um réttmætar væntingar.

Við mat á þessum athugasemdum reynir á efni rammasamningsins og hvort athafnir aðila hans hafi verið í samræmi við hann og almennar reglur stjórnsýsluréttar, að teknu tilliti til ákvæða samningsins. Í ljósi þess hvernig kvörtun [...] er fram sett verður ekki tekin afstaða til framangreindra athugasemda sem varða almennar reglur án samhengis við efni samningsins og samskipti aðila hans. Í þessu skyni þarf því að skýra og fylla ákvæði samningsins, þar á meðal getur þurft að taka afstöðu til þess hvort og þá hvaða þýðingu samskipti aðila við gerð samningsins og framkvæmd hans hafi og þá meðal annars að teknu tilliti til þess að hann gat ekki öðlast gildi án staðfestingar ráðherra.

Í sambandi við framangreint skal minnt á að í fyrrnefndu bréfi sjúkratrygginga til ráðuneytisins frá 30. apríl 2018 var fjallað um hvort ákveðin túlkun á efni samningsins væri möguleg að mati stofnunarinnar. Í þeirri umfjöllun vísaði stofnunin meðal annars til þess sem um hefði verið rætt þegar samningurinn var gerður. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að samningsaðilar eða fulltrúar þeirra hafi átt í nokkrum samskiptum um efni samningsins eftir að hann var gerður, þar á meðal á vettvangi samstarfsnefndar samkvæmt 13. gr. hans, og meðal annars meðan á endurskoðun einingaverðs hans stóð og eftir að það var gert. Þessi samskipti og framkvæmd samningsins að öðru leyti getur, líkt og samskipti í aðdraganda þess að hann var gerður, haft áhrif á túlkun hans. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið getur því haft þýðingu hvað telst sannað um samskipti aðila og framkvæmd samningsins.

Ástæða þess að ég nefni þetta er að í c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Af þessu ákvæði og öðrum ákvæðum laganna verður ráðið að þau byggist á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu milli umboðsmanns og dómstóla sé að ræða og mál geti verið þannig vaxin að heppilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Þannig hefur umboðsmaður Alþingis almennt talið að það verði að vera hlutverk dómstóla að leiða ágreining sem lýtur að sönnunaratriðum til lykta enda er við úrlausn slíkra mála iðulega nauðsyn sönnunarfærslu, til að mynda aðila- og vitnaskýrslna.

Af þessum sökum og með vísan til þess sem er rakið að framan um að við mat á athugasemdum [...] geti þurft að ákveða hvað telst sannað um samskipti samningsaðila og framkvæmd rammasamningsins tel ég að það verði að vera hlutverk dómstóla að fjalla um ágreining hjúkrunarheimilisins við stjórnvöld að þessu leyti ef heimilið kýs að halda málinu til streitu. Ég árétta að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé til að bera málið undir dómstóla.

  

3

Eftir standa athugasemdir [...] um að heilbrigðisráðherra hafi gefið Sjúkratryggingum Íslands sérstök fyrirmæli um að tekið yrði tillit til áðurnefndrar aðhaldskröfu við útreikning einingaverðs samkvæmt rammasamningnum sem hafi verið umfram yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir ráðherrans í þessu tilviki.

Af því tilefni minni ég á að samkvæmt lögum nr. 112/2008 og 123/2015 hefur ráðherra heilbrigðismála hlutverki að gegna við framkvæmd sjúkratrygginga og fjárlaga. Á grundvelli beggja laga, sbr. einnig IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, hefur hann ákveðnar yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir. Honum er meðal annars falið að marka stefnu innan marka laga nr. 112/2008 og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja henni, auk þess sem hann fer með yfirstjórn sjúkratrygginga og samningsgerðar um heilbrigðisþjónustu og staðfestingar hans er þörf til að samningur um heilbrigðisþjónustu öðlist gildi. Þá ber hann ábyrgð á og hefur virkt eftirlit með framkvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði, sbr. 27. gr. laga nr. 123/2015.

Af gögnum málsins verður ráðið að það hafi upphaflega verið afstaða sjúkratrygginga í samskiptum stofnunarinnar við ráðuneytið að ekki væri unnt að taka tillit til 0,5% aðhaldskröfu við endurskoðun einingaverðs samkvæmt 9. gr. rammasamningsins. Jafnframt liggur fyrir að ráðuneytið hafi verið á öndverðum meiði og gert stofnuninni grein fyrir því.

Samskipti stjórnvaldanna bera ekki fyllilega með sér hvort ráðuneytið hafi gefið sjúkratryggingum sérstök fyrirmæli að þessu leyti sem stofnuninni hafi borið að fara eftir. Samkvæmt skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns, dags. 13. febrúar sl., telur það að ekki hafi verið um að ræða bindandi fyrirmæli en stofnunin telur að svo hafi verið. Ólík afstaða stjórnvaldanna um samskipti þeirra gefur að einhverju marki til kynna að þau hefðu mátt vera skýrari af hálfu ráðuneytisins að þessu leyti. Ráðuneytið hefur upplýst að samkvæmt gildandi verklagi hjá því yrði bindandi fyrirmælum til undirstofnunar sem væri efnislega ósammála ráðuneytinu beint til hennar með formlegri hætti.

Orðalag samskiptanna samkvæmt gögnum málsins ber ekki sérstaklega með sér að um hafi verið að ræða fyrirmæli af hálfu ráðuneytisins sem hafi verið bindandi fyrir sjúkratryggingar. Gögn málsins bera helst með sér að ráðuneytið hafi í tilefni af fyrirspurnum og erindum stofnunarinnar sem vörðuðu endurskoðun einingaverðs samkvæmt rammasamningnum látið í ljós þá afstöðu sína að henni bæri við rækslu þessa verkefnis samkvæmt lögum nr. 112/2008 að taka mið af aðhaldskröfu samkvæmt fjárlögum. Af þessum sökum og í ljósi framangreinds um afstöðu ráðuneytisins tel ég að ekki hafi verið sýnt fram á að nægar forsendur séu til að líta svo á að heilbrigðisráðherra hafi farið út fyrir yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir sínar gagnvart sjúkratryggingum í ljós þess hlutverks sem hann gegnir samkvæmt lögum nr. 112/2008 og 123/2015.

  

IV

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar fyrir hönd [...] hjúkrunarheimilis, sbr. a- og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Af hálfu umboðsmanns Alþingis er að lokum beðist velvirðingar á að athugun á þessu máli hefur dregist nokkuð. Er það ekki síst vegna þess að kjörinn umboðsmaður var með til skoðunar hvort tilefni væri til þess að taka ákveðin atriði vegna stöðu dvalar- og hjúkrunarheimila til athugunar að eigin frumkvæði á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Hann hafði þá meðal annars í huga stöðu rekstraraðila þessara heimila með tilliti til þeirrar þjónustu sem þeir þurfa að veita vistmönnum/sjúklingum samkvæmt lögum og reglum, þ.m.t. stjórnarskrá, sem um þessa starfsemi gilda. Við mat á stöðu heimilanna að þessu leyti reynir á réttarstöðu þeirra sem dveljast á þessum heimilum og möguleika rekstraraðila til að veita þeim lögbundna þjónustu. Við skoðun þessara mála af hálfu umboðsmanns var sérstaklega staðnæmst við þá stöðu að hinn fjárhagslegi þáttur í samskiptum ríkisins og dvalar- og hjúkrunarheimilanna við umrædda þjónustu heimilanna er að forminu til lagður í farveg samninga þessara aðila. Fyrirkomulag þessara mála og framkvæmdin vakti upp álitaefni um jafnræði samningsaðila og áhrif þess á möguleika rekstaraðila heimilanna á að mæta kostnaði við lögbundna þjónustu við vistmenn og breytingum þar á sem rekstraraðilar hafa ekki eða takmarkað forræði á. Samhliða þessari skoðun á hugsanlegri frumkvæðisathugun og athugun á kvörtun [...], sem að hluta varpar ljósi á álitaefni sem tengjast framangreindu, hefur umboðsmaður fylgst með rekstri dómsmála þar sem gat reynt á álitaefni um samskipti ríkis og rekstraraðila, til dæmis mál Hæstaréttar nr. 3/2020, en dómur í því var kveðinn upp 16. júní sl. Aðstæður í starfi umboðsmann og takmarkaður mannafli að undanförnu hafa hins vegar ekki leyft að ráðist yrði í þessa frumkvæðisathugun rétt eins og fleiri sem til athugunar hafa verið með tilliti til frumkvæðisheimildar umboðsmanns. Ekki eru líkur á að breytingar verði að þessu leyti á næstunni í starfi umboðsmanns.

Undirritaður var settur í embætti umboðsmanns Alþingis 1. nóvember sl. á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997 og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson