Sjávarúvegur. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Aðild.

(Mál nr. 10890/2020)

Kvartað var yfir svokölluðu kvótaþaki í lögum um stjórn fiskveiða. 

Þar sem kvörtunin laut ekki að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem beindist að viðkomandi heldur fól í sér almennar athugasemdir voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki hana til frekari meðferðar. Aukinheldur tæki starfssvið sitt ekki til lagasetningar Alþingis.

    

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 30. desember sl., sem beinist m.a. að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og lýtur að svokölluðu kvótaþaki sem mælt er fyrir um í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Af kvörtuninni verður ráðið að hún beinist að eftirliti með stjórn fiskveiða, nánar tiltekið yfirráði lögaðila, einstaklinga, eða annarra einstakra aðila og tengdra aðila með aflahlutdeild almennt og í tilteknum einstökum tegundum sem ekki mega fara upp fyrir tiltekið mark sem nánar er kveðið á um í 13. gr. laga um stjórn fiskveiða. Takið þér fram að lögin heimili 12% kvótaþak en að aflahlutdeild tveggja fyrirtækja sé orðin 17% eða meira.

  

II

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir ákvæði 1. eða 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Af kvörtuninni verður ekki ráðið að hún beinist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds gagnvart yður í ofangreindum skilningi heldur sé um almennar athugasemdir að ræða. Þegar af þessari ástæðu eru með vísan til framangreinds ekki að lögum skilyrði til þess að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar sem kvörtun.

Að því leyti sem erindi yðar kann að beinast að því fyrirkomulagi sem mælt er fyrir um í lögum um stjórn fiskveiða tel ég enn fremur rétt að benda á að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það er því ekki í verkahring umboðsmanns að láta í ljós álit sitt á störfum Alþingis eða hvernig til hefur tekist um efni þeirra ákvarðana sem Alþingi tekur í formi laga og annarra ályktana. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni Alþingis þó veitt heimild til að gera Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnum viðvart ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Lögin gera hins vegar ekki ráð fyrir að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli heldur ákveður umboðsmaður, ef hann telur tilefni til og möguleiki er á slíku með tilliti til þess mannafla sem umboðsmaður hefur til að sinna slíkum athugunum, hvort heimild 11. gr. skuli nýtt, sbr. 5. gr. laganna. Ég tek þó fram að vitanlega er öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði.

Á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 getur umboðsmaður einnig ákveðið, að eigin frumkvæði, að taka starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar. Mér er hins vegar kunnugt um að Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu til Alþingis í byrjun árs 2019 um eftirlit Fiskstofu þar sem m.a. er fjallað um yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeild. Af framangreindu verður því ráðið að önnur eftirlitstofnun Alþingis hafi þegar fjallað um þetta málefni og því ekki tilefni til að umboðsmaður Alþingis taki málið til frekari skoðunar að eigin frumkvæði.

Þá bendi ég á að af upplýsingum sem fram koma á vefsíðu Stjórnarráðsins verður ráðið að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar unnið að tillögum til úrbóta í þessum málum. Yður til upplýsingar bendi ég yður á að fyrir liggja drög að frumvarpi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem hefur að markmiði að skýra betur skilgreiningu á því hvað teljist tengdir aðilar í sjávarútvegi og koma á fót skilvirkara eftirliti með hámarksaflahlutdeild. Drögin má nálgast í samráðsgátt íslenskra stjórnvalda á vefslóðinni www.samradsgatt.island.is.

  

III

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1 mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu.

 

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson