Jarðamál. Landskipti.

(Mál nr. 10897/2020)

Kvartað var yfir ákvörðun landbúnaðarráðherra um að aflétta óðalsböndum af hluta jarðar.

Þar sem kvörtunin var ekki borin fram innan árs frá því að stjórnsýslugerningurinn sem um ræddi var til lykta leiddur voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um hana.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 6. janúar sl., sem lýtur að ákvörðun landbúnaðarráðherra frá árinu 2008 um að aflétta óðalsböndum af hluta jarðarinnar [...]. Af kvörtuninni og gögnum sem henni fylgdu verður ráðið að þér hafið í bréfi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 12. júní 2017, óskað eftir að viðurkenndur yrði eignar- og óðalsréttur yðar og fjölskyldu yðar á jörðinni og að framangreind ákvörðun landbúnaðarráðherra yrði felld úr gildi. Ráðuneytið hafi hafnað beiðni yðar, sbr. bréf dags. 26. september sama ár. Í kvörtuninni er á því byggt að ráðherra hafi skort lagaheimild til að leysa hluta ættaróðalsins undan óðalsböndum en þér séuð réttmætur óðalsbóndi og eigið að sitja jörðina óskipt með tilteknum aðila.

Einnig liggur fyrir að þér höfðuðuð mál til ógildingar á ákvörðun ráðuneytisins frá 2008 en því var vísað frá með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2019 í máli nr. E-1762/2018. Til grundvallar þeirri niðurstöðu lá að þér voruð ekki talin hafa fært rök fyrir því að þér ættuð eignarrétt að jörðinni eða jarðarhlutum sem leyst voru úr óðalsböndum með ákvörðun ráðuneytisins og ekki leitt líkur að eða rökstutt að þér nytuð annars konar réttinda yfir eigninni eða hefðuð með öðrum hætti hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort tilgreindir hlutar af jörðinni [...] væru óðalsjörð eða ekki. Þér voruð því ekki taldar hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn álitaefnisins.

Í tilefni af kvörtuninni tek ég fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Kvörtun yðar lýtur samkvæmt framangreindu að ákvörðun landbúnaðarráðherra frá 20. maí 2008 og mögulega að ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá árinu 2017. Ég tel því ljóst að kvörtunin barst ekki innan þess tímafrests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Þegar af þeirri ástæðu brestur lagaskilyrði til að ég fjalli frekar um kvörtunina.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson