Kvartað var yfir tvísköttun lífeyrisgreiðslna á árunum 1988 – 1995.
Þar sem kvörtunin barst ekki innan árs frá því stjórnsýslugerningurinn var til lykta leiddur brast skilyrði til að umboðsmaður tæki hana til umfjöllunar.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. janúar 2021, sem hljóðar svo:
Ég vísa til erindis yðar, dags. 9. desember sl., sem varðar tvísköttun lífeyrisgreiðslna yðar á árunum 1988-1995. Nánar tiltekið lýtur erindi yðar að því að þér séuð ósáttir við afstöðu sem kemur fram í svari ríkisskattstjóra, settu fram í tölvupósti 6. júní 2019, við fyrirspurn frá skrifstofustjóra Skólameistarafélags Íslands um skattlagningu lífeyrisgreiðslna.
Í umræddu svari ríkisskattstjóra er gerð grein fyrir því að samkvæmt ákvæðum í 7. og 8. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skuli allur lífeyrir vera skattlagður sem almennar tekjur. Enginn fyrirvari sé gerður um það í viðkomandi lagaákvæðum um hvernig réttur til lífeyrisgreiðslna hafi stofnast eða að skattlagningin takmarkist við lífeyrisgreiðslur sem rekja megi til innborgana sem ekki voru skattlagðar. Síðan segir í bréfinu:
„Í gegnum tíðina hefur hlutur launþega í iðgjöldum verið frádráttarbær frá tekjum að undanskildu sjö ára tímabili, frá árinu 1988-1995, en með tilkomu staðgreiðslukerfisins á árinu 1988 var frádráttarheimild launþega á greiddum lífeyrissjóðsiðgjöldum felld niður. Í stað ýmissa frádráttarliða kom m.a. hærri persónuafsláttur en áður.“
Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Kvörtun yðar lýtur samkvæmt framangreindu annars vegar að álagningu tekjuskatts fyrir árin 1988-1995 og hins vegar að svari ríkisskattstjóra við almennri fyrirspurn frá 6. júní 2019. Með hliðsjón af því að kvörtunin barst mér 9. desember sl. fæ ég ekki séð að framangreindu skilyrði sé fullnægt.
Þar sem í kvörtun yðar kemur fram að þér teljið að þér kunnið að eiga endurgreiðslukröfu á ríkissjóð vegna ofgreiddra skatta á framangreindu tímabili tek ég fram að lög nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eru byggð á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu sé að ræða á milli umboðsmanns og dómstóla og að mál geti verið þannig vaxin að heppilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Ég nefni í þessu sambandi c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 þar sem tekið er fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Ég hef þannig almennt ekki talið það falla undir hlutverk umboðsmanns Alþingis samkvæmt lögum nr. 85/1997 að taka afstöðu til hugsanlegrar fjárkröfu/bótakröfu á hendur stjórnvöldum heldur farið þá leið að ljúka málum þar sem uppi eru álitamál um slíkt með vísan til c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, án þess þó að taka afstöðu til þess hvort slík málsókn sé líkleg til árangurs.
Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. og c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laganna.
Kjartan Bjarni Björgvinsson