Gjafsókn. Aðild.

(Mál nr. 10895/2020)

Kvartað var yfir dómsmálaráðuneytinu vegna gjafsókna.  

Þar sem kvörtunin laut ekki að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem beindist að viðkomandi voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki hana til frekari meðferðar.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 5. janúar sl., sem beinist að dómsmálaráðuneytinu vegna gjafsókna. Af kvörtun yðar fæ ég ráðið að hún lúti nánar tiltekið að því að þér teljið að ákvarðanir ráðuneytisins um að veita gagnaðila yðar í forsjármáli gjafsókn hafi ekki verið teknar í samræmi við lög.

Í kvörtuninni kemur einnig fram að þér hafið upplýst gjafsóknarnefnd um þau atriði sem þér sem þér gerið athugasemdir við í tengslum við ákvarðarnir um gjafsókn í umræddu máli. Enn fremur takið þér fram að þér hafið sent í dómsmálaráðuneytinu fjölda gagna „í von um að fá einhver svör“ og verður af því ráðið að þér hafið annaðhvort komið athugasemdum á framfæri við ráðuneytið og/eða óskað skýringa vegna þessara ákvarðana. Engin gögn um samskipti yðar við dómsmálaráðuneytið og gjafsóknarnefnd fylgdu þó kvörtuninni.

  

II

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Í 3. gr. laganna er starfs­svið umboðsmanns nánar afmarkað í samræmi við þetta.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til borið fram kvörtun við umboðsmann. Í þessu ákvæði felst að ekki verður að jafnaði kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin varði tiltekna athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórn­valds sem beinist að eða hefur að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Í kvörtun yðar kemur fram að þér voruð ekki aðili að umsókn um gjafsókn í því máli sem kvörtun yðar lýtur að. Af því verður þannig ráðið að kvörtunin beinist ekki að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds gagnvart yður í ofangreindum skilningi heldur er þar um að ræða ákvörðun sem beindist að öðrum tilgreindum einstaklingi. Ég tek í því sambandi fram að í norrænum stjórnsýslurétti er almennt lagt til grundvallar að það sé einungis umsækjandi um gjafsókn sem telst aðili að máli fyrir gjafsóknarnefnd, sjá hér til hliðsjónar Frederik Chr. Schydt, Fri proces, Kaupmannahöfn, 1992, bls. 277 o. áfr.

Ljóst er að ákvörðun um gjafsókn getur vissulega stuðlað því að einstaklingur höfði mál sem hann hefði ekki ef gjafsóknar hefði ekki notið við. Að mínum dómi verður þó ekki talið að þessi aðstaða hafi svo afgerandi áhrif á stöðu gagnaðila dómsmáls að hún skapi honum stöðu aðila máls við sjálfa ákvörðunina um gjafsókn. Ég vek athygli yðar á því að umboðsmaður danska þjóðþingsins hefur komist að sambærilegri niðurstöðu vegna kvartana sem borist hafa af sams konar toga og kvörtun yðar, sjá hér árskýrslu umboðsmanns danska þjóðþingsins (Folketingets Ombudsmands Beretning) 1997, bls. 168.

Af þessari ástæðu eru með vísan til framangreinds ekki að lögum skilyrði til þess að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar sem kvörtun.

Ég tek þó fram að ég skil kvörtun yðar á þann veg að þér hafið sent dómsmálaráðuneytinu erindi vegna málsins og að þér væntið svara. Af því tilefni tek ég fram að í íslenskum stjórnsýslurétti gildir sú óskráða meginregla að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á almennt rétt á að fá skriflegt svar, nema erindið beri með sér að svars sé ekki vænst. Ef dráttur verður á svörum dómsmálaráðuneytisins við erindi yðar getið þér því, að undangenginni skriflegri ítrekun yðar á því og að liðnum hæfilegum tíma, leitað til mín með sérstaka kvörtun þar að lútandi. Afrit af samskiptum yðar við ráðuneytið yrðu að fylgja með slíkri kvörtun.

  

III

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég athugun minni á málinu.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laganna

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson