Alþingi og stofnanir þess. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10911/2020)

Kvartað var yfir samskiptum við þingmann á samfélagsmiðlum. 

Umboðsmaður benti á að hann hefði ekki eftirlit með framkomu eða skoðanaskiptum einstaklinga nema það væri í tengslum við skyldur þeirra sem opinberra starfsmanna samkvæmt lögum eða viðeigandi siðareglum. Þingmenn væru ekki starfsmenn stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga aukinheldur sem starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis. Ekki væru því skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar 15. þessa mánaðar yfir samskiptum yðar við þingmann Pírata á samfélagsmiðlum.

Vegna kvörtunar yðar tek ég fram að samkvæmt ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 3. gr. laganna nær starfssvið umboðsmanns í þessu hlutverki einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka svokallaðar stjórnvaldsákvarðanir.

Umboðsmaður Alþingis hefur þannig ekki eftirlit með framkomu eða skoðanaskiptum einstaklinga nema það sé í tengslum við skyldur þeirra sem opinberra starfsmanna samkvæmt lögum eða viðeigandi siðareglum. Þingmenn eru ekki starfsmenn stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Ég tek jafnframt fram að í a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Ákvæðið hefur meðal annars verið skilið á þann veg að það sé ekki hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með opinberri framgöngu þingmanna og meðferð þeirra á skyldum sínum sem þjóðkjörinna fulltrúa.

Um slíkt er fjallað í siðareglum fyrir alþingismenn, sbr. þingsályktun nr. 23/145, eins og þeim var breytt með þingsályktun nr. 18/148. Eftirlit með reglunum er í höndum forsætisnefndar Alþingis og þriggja manna ráðgefandi nefndar vegna erinda sem forsætisnefnd beinir til hennar, sbr. 16. gr. reglnanna. Einstaklingum og lögaðilum er heimilt að leggja fram í eigin nafni skrifleg og rökstudd erindi um meint brot á siðareglunum sem skal beint til forsætisnefndar, sbr. 17. gr. reglnanna.

Ég tek fram að með því að upplýsa yður um siðareglurnar hef ég enga afstöðu tekið til þess hvort sú háttsemi sem lýst er í kvörtun yðar falli undir eða samrýmist þeim hátternisskyldum og meginreglum um hátterni sem fjallað er um í þeim.

Með vísan til þess sem er rakið að framan fellur kvörtun yðar utan við starfssvið umboðsmanns Alþingis. Ég læt því málinu lokið af minni hálfu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Hinn 1. nóvember sl. var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, og hefur hann farið með mál þetta á þeim grundvelli.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson