Opinberir starfsmenn. Jafnréttismál.

(Mál nr. 10759/2020)

Kvartað var skipun mennta- og menningarmálaráðherra í embætti skrifstofustjóra.

Þar sem skipunin hafði verið kærð til kærunefndar jafnréttismála og þeirri vinnureglu er fylgt hjá umboðsmanni að fjalla ekki um mál á sama tíma og þau eru til meðferðar hjá eftirlitsaðila innan stjórnsýslunnar kom kvörtunin ekki til frekari athugun hans að sinni.

    

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 14. október sl., yfir ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra um skipun í embætti skrifstofu­stjóra skrifstofu framhaldsskóla og fræðslu í ráðuneytinu.

Hinn 1. nóvember sl. var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

Í samskiptum yðar við skrifstofu umboðsmanns, síðast í bréfi dags. 20. janúar sl., hefur komið fram að þér hafið leitað til kærunefndar jafnréttismála vegna ákvörðunarinnar og kærumálið sé til meðferðar hjá nefndinni.

Eins og kemur fram í bréfi til yðar, dags. 7. janúar sl., hefur þeirri vinnureglu verið fylgt hjá umboðsmanni að fjalla ekki um mál á sama tíma og þau eru til meðferðar hjá eftirlitsaðila innan stjórnsýslunnar. Að því virtu tel ég rétt að ljúka athugun minni á kvörtun yðar að svo stöddu.

Ég tek hins vegar fram að ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu kærunefndarinnar getið þér að sjálfsögðu leitað til umboðsmanns að nýju. Ef niðurstaða nefndarinnar liggur ekki fyrir fyrr en að liðnu ári frá því að ráðherra tók ákvörðun um skipun í embættið yrði slíkt erindi þó, að virtri 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að berast umboðsmanni án tafar til þess að litið yrði svo á að kvörtunin væri enn tæk til meðferðar. Jafnframt skal tekið fram að ef þér teljið yður beittan rangsleitni með meðferð eða niðurstöðu kæru­nefndarinnar í málinu getið þér eins og endranær beint kvörtun þar að lútandi til umboðsmanns sem yrði þá tekin til athugunar að uppfylltum skil­yrðum laga nr. 85/1997.

Tekið skal fram að kvörtun yðar í máli nr. 10743/2020 er enn til meðferðar að fengnum athugasemdum yðar sem settar voru fram í bréfi, dags. 20. janúar sl.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég athugun minni á máli þessu lokið.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson