Námslán og námsstyrkir.

(Mál nr. 10849/2020)

Kvartað var yfir að Menntasjóður námsmanna hefði ekki svarað erindi.  

Í ljós kom að erindinu hafði verið svarað og þótt viðkomandi teldi svörin ekki fullnægjandi var ekki tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar. Hann benti hins vegar á að skjóta mætti erindinu til stjórnar Menntasjóðs sem æðra stjórnvalds.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 3. desember sl., sem laut að því að Menntasjóður námsmanna hefði ekki svarað erindi yðar frá 14. september sl. þar sem þér ítrekuðuð ósk yðar um frekari upplýsingar um hverjir hefðu verið skráðir ábyrgðarmenn lána yðar hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, nú Menntasjóði námsmanna. Tilefni erindisins var að þér höfðuð frétt að fleiri hefðu fengið bréf frá sjóðnum varðandi lán yðar en þeir sem þér hefðuð haft upplýsingar um að væruð skráðir ábyrgðarmenn vegna lána yðar. Einnig er vísað til kvörtunar yðar frá 16. september sl. um sama efni sem umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um með bréfi, dags. 18. september sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var Menntasjóði námsmanna ritað bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort tölvupóstur yðar frá 14. september sl. hefði borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu erindisins sem í honum fælist og gögnum sem lægju fyrir hefðu orðið frekari samskipti við yður um erindið.

Nú hefur borist bréf frá Menntasjóði námsmanna, dags. 11. janúar sl., sem fylgir hjálagt í ljósiriti, þar sem vísað er til þess að yður hafi verið svarað 23. desember sl. og fylgir afrit af tölvupósti til yðar frá sjóðnum. Í bréfinu til umboðsmanns staðfestir framkvæmdastjóri sjóðsins fyrri svör starfsmanns sjóðsins til yðar um að í kerfum sjóðsins sé einungis hægt að leita eftir útsendingum bréfa með því að leita eftir því með nafni eða kennitölu þess sem bréfið fékk. Því sé ekki mögulegt að veita yður þær upplýsingar sem þér hafið óskað eftir án þess að þér veitið sjóðnum frekari upplýsingar.

Af gögnum sem fylgja bréfi Menntasjóði námsmanna má ráða að þér hafið ítrekað beiðni yðar 28. desember sl. þar sem þér teljið svörin ekki fullnægjandi.

Þar sem kvörtun yðar laut að því að erindi yðar hefði ekki verið svarað og því hefur nú verið svarað, tel ég, þrátt fyrir að þér teljið svörin ekki fullnægjandi, ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar.

Ég tel rétt í þessu sambandi að vekja athygli yðar á þeirri óskráðu reglu stjórnsýsluréttarins að skriflegum erindum ber að svara skriflega, nema svars sé eigi vænst eða ljóst sé að borgarinn sætti sig við munnleg svör. Í henni felst að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki í óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því. Í reglunni felst hins vegar ekki að sá sem ber upp erindi við stjórnvald eigi rétt á tiltekinni úrlausn mála sinna eða þeim efnislegu svörum við fyrirspurnum sínum sem hann óskar eftir. Það ræðst af eðli erindis, því málefnasviði sem það tilheyrir og málsatvikum að öðru leyti hvaða kröfur verða leiddar af lögum, skráðum og óskráðum, og vönduðum stjórnsýsluháttum til þeirra svara sem stjórnvöld veita vegna slíkra erinda borgaranna. 

  

II

Í bréfi umboðsmanns Alþingis til yðar frá 18. september sl. var tekið fram að ef sjóðurinn synjaði beiðni yðar um að fá umræddar upplýsingar afhentar gætuð þér, ef þér telduð tilefni til, leitað til umboðsmanns með kvörtun vegna þess, eftir atvikum eftir að hafa nýtt yður kæruheimild sem sjóðnum bæri þá að leiðbeina yður um. Í ljósi svara Menntasjóðs námsmanna við beiðni yðar og þess að sjóðurinn vísar einungis til þess að ekki sé unnt að verða við beiðninni vegna kerfa sjóðsins tel ég rétt að benda yður á eftirfarandi.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar stjórn sjóðsins. Fjallað er um hlutverk stjórnar í 30. gr. laga nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna. Meðal annars hefur sjóðsstjórn eftirlit með starfsemi og fjárreiðum Menntasjóðsins, sbr. 2. tölul. 4. mgr. 30. gr., og sker úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum, sbr. 4. tölul. 4. mgr. 30. gr.

Ástæða þess að ég rek framangreind lagaákvæði er að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eru sett nánari skilyrði fyrir kvörtun til umboðsmanns. Í 3. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.   

Af kvörtuninni verður ekki ráðið að fyrir liggi afstaða stjórnar Menntasjóðs til málsins. Í ljósi svara Menntasjóðs námsmanna við beiðni yðar og þess að sjóðurinn vísar til þess að ekki sé unnt að verða við beiðninni vegna kerfa sjóðsins tel ég rétt að benda yður á að ef þér teljið tilefni til getið þér freistað þess að leita til stjórnar sjóðsins vegna afgreiðslu hans á erindi yðar og starfshátta, og þá eftir atvikum með tilliti til þess hvort skráningu upplýsinga og skjalavörslu sé hagað með fullnægjandi hætti í ljósi ákvæða upplýsingalaga nr. 140/2012 og laga nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn. Það verður síðan að ráðast af viðbrögðum stjórnarinnar og þeim farvegi sem slíkt erindi yrði lagt í hvort þér getið eftir atvikum borið mál yðar undir málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna í samræmi við ákvæði 2. mgr. 32. gr. í lögum nr. 60/2020, úrskurðarnefnd um upplýsingamál á grundvelli ákvæða upplýsingalaga eða freistað þess að leita til mennta- og menningarmálaráðherra á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hans með sjóðnum.

Ef þér teljið yður enn rangindum beittan að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda er yður að sjálfsögðu frjálst að leita til umboðsmanns Alþingis á nýjan leik.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laganna.

  

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson