Opinberir starfsmenn. Öryggisvottun.

(Mál nr. 10901/2021)

Kvartað var yfir synjun ríkislögreglustjóra um útgáfu öryggisvottunar annars vegar og hins vegar yfir skorti á upplýsingum og leiðbeiningum frá dómsmálaráðuneytinu.  

Þar sem synjun ríkislögreglustjóra hafði ekki verið skotið til utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og kæruleið þannig tæmd voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann þátt kvörtunarinnar. Hvað ráðuneytið snerti hafði það svarað erindum viðkomandi.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 7. janúar sl., yfir ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytinu. Kvörtun yðar lýtur annars vegar að synjun ríkislögreglustjóra, dags. 3. febrúar sl., um útgáfu öryggisvottunar til handa yður og hins vegar skorti á upplýsingum og leiðbeiningum frá dómsmálaráðuneytinu.

Af gögnum málsins má ráða að Landhelgisgæsla Íslands hafi sótt um „NATO Secret öryggisvottun“ til handa yður hinn 20. september 2019 hjá ríkislögreglustjóra. Yður hafi verið synjað um útgáfu öryggisvottunar hinn 3. febrúar sl. á grundvelli 3. og 7. mgr. 32. gr. reglugerðar nr. 959/2012, um vernd trúnaðarupplýsinga, öryggisvottanir og öryggisviðurkenningar á sviði öryggis- og varnarmála, með vísan til þess að þér hafið hlotið fangelsisdóma og sektir fyrir brot gegn hegningarlögum nr. 19/1940 og eldri umferðarlögum nr. 50/1987. Af niðurlagi ákvörðunarinnar má ráða að yður hafi verið leiðbeint um að hana væri hægt að kæra til ráðherra varnarmála, sbr. 4. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 959/2012, innan þriggja mánaða frá tilkynningu um ákvörðunina. Í kjölfar kvörtunar yðar hafði starfsmaður skrifstofu minnar samband við yður símleiðis hinn 11. janúar sl. og óskaði m.a. eftir upplýsingum um hvort þér hefðuð kært framangreinda ákvörðun til utanríkisráðherra. Því svöruðuð þér neitandi.

Hvað svör dómsmálaráðuneytisins varðar má ráða að þér beinduð tilteknum almennum fyrirspurnum til ráðuneytisins með tölvupóstum annars vegar hinn 20. febrúar sl. og hins vegar 26. nóvember sl. Þeim hafi verið svarað með tölvupóstum, dags. 20. maí og 20. desember sl. Í áðurnefndu samtali yðar við starfsmann skrifstofu minnar kom fram að þér áttuð ekki frekari samskipti við starfsmenn dómsmálaráðuneytisins í kjölfar svara þeirra, þ.e. þér lýstuð t.a.m. ekki þeim sjónarmiðum við ráðuneytið að þér telduð svörin ekki fullnægjandi.

  

II

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið felur í sér þá meginreglu um störf umboðsmanns að kæruleiðir innan stjórnsýslunnar þurfa að vera tæmdar, þ.e. að endanlegur úrskurður á stjórnsýslustigi liggi fyrir, áður en mál verður borið undir umboðsmann, og byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Eins og áður greinir kærðuð þér ekki ákvörðun ríkislögreglustjóra frá 3. febrúar sl. til utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Í samræmi við framangreint eru því ekki skilyrði að lögum til þess að ég geti tekið erindi yðar að þessu leyti til frekari meðferðar.

Hvað svör dómsmálaráðuneytisins varðar tel ég rétt að taka fram að í hinni óskráðu reglu stjórnsýsluréttar sem nefnd hefur verið svarreglan felst að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að ekki sé vænst svara. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki í óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því. Í reglunni felst á hinn bóginn ekki að stjórnvöldum sé skylt að svara efnislega öllum almennum erindum sem þeim berast heldur ræðst réttur aðila að þessu leyti af öðrum réttarreglum, svo sem leiðbeiningarreglu stjórnsýsluréttar, vönduðum stjórnsýsluháttum sem og af eðli erindisins. Staða einstaklings sem er aðili að stjórnsýslumáli er almennt önnur í þessu tilliti en þess einstaklings sem t.d. sendir stjórnvaldi almenna fyrirspurn eða annars konar almennt erindi. Í þessu sambandi bendi ég á að borgarar geta almennt ekki gert þá kröfu til stjórnvalda að þau fjalli almennt um einstök álitaefni sem standa ekki í tengslum við tiltekið stjórnsýslumál.

Eftir að hafa kynnt mér efni samskipta yðar við dómsmálaráðuneytið tel ég ekki tilefni til aðgerða af minni hálfu varðandi þennan hluta kvörtunar yðar. Hef ég hér einkum í huga að brugðist hefur verið við erindi yðar í samræmi við svarregluna og yður m.a. leiðbeint um atriði er varða uppreist æru og breytingalög nr. 141/2018, um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru og það að í sérlögum séu mismunandi skilyrði sett varðandi það hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að mega gegna tilteknum störfum eða njóta tiltekinna réttinda og í þeim efnum m.a. útskýrt að misjafnt sé eftir lögum hvort einstaklingar megi hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað eftir að þeir urðu fullra 18 ára eða ekki.

Að því marki sem þér teljið yður ekki hafa fengið þau svör sem þér leituðust eftir að fá er yður eftir sem áður fær sú leið að freista þess að bera slíkt undir ráðuneytið sjálft. Í kjölfarið er það svo undir ráðuneytinu komið að meta og taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig brugðist verður við erindi yðar í samræmi við m.a. framangreind sjónarmið.

  

III

Með hliðsjón af því sem að framan greinir lýk ég umfjöllun minni um mál yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson