Kvartað var yfir úrskurði endurupptökunefndar sem hafnaði endurupptöku héraðsdómsmáls.
Umboðsmaður fékk ekki annað séð en nefndin hefði tekið beiðnina til athugunar, lagt viðhlítandi mat á hvort málsástæður fullnægðu skilyrðum laga og rökstutt höfnunina. Í ljósi þessa og stöðu nefndarinnar taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðuna og þ.a.l. ekki tilefni til nánari athugunar á málinu.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. janúar 2021, sem hljóðar svo:
Ég vísa til kvörtunar yðar 14. þessa mánaðar yfir úrskurði endurupptökunefndar 26. nóvember sl. í máli nr. 2/2020. Samkvæmt úrskurðarorði var beiðni yðar og B um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-3765/2017, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. júlí 2018, hafnað.
Í kvörtun yðar er ekki færður fram sérstakur rökstuðningur fyrir henni, heldur látið við það sitja að vísa til skjala sem fylgdu kvörtuninni, þar á meðal þeirra gagna sem fylgdu beiðni yðar til endurupptökunefndar. Ég legg því til grundvallar að óánægja yðar með úrskurð nefndarinnar byggist á sömu sjónarmiðum og koma fram í gögnunum, þar á meðal beiðni yðar og B til nefndarinnar 6. ágúst sl.
Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 50/2016, um dómstóla, var endurupptökunefnd sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem tók ákvörðun um hvort heimila skyldi endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefði verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Þegar endurupptökunefnd var komið á fót með lögum nr. 15/2013, um breytingu á eldri lögum um dómstóla, nr. 15/1998, var meðal annars lögð áhersla á mikilvægi þess að nefndin væri sjálfstæð í störfum sínum.
Vegna athugunar minnar á kvörtun yðar tel ég ástæðu til að vekja athygli á að stjórnskipan Íslands og réttarkerfi byggist á því að það sé verkefni sjálfstæðra dómstóla að skera úr réttarágreiningi milli borgaranna og þeirra við stjórnvöld. Aðilum máls er tryggður réttur til þess að koma þar að þeim kröfum og málsástæðum sem þeir kjósa að byggja mál sitt á og verða settar fram innan þess ramma sem réttarfarslöggjöf hljóðar á um. Dómur á að fela í sér endanlegar lyktir þess máls sem borið er undir dómstólinn. Endurupptaka dæmdra mála er því undantekning frá þeirri meginreglu og almennt verður að gera ríkar kröfur til að skilyrði til þess teljist uppfyllt.
Í tilviki endurupptökunefndar fól Alþingi sjálfstæðri stjórnsýslunefnd að leggja mat á hvort efnisleg skilyrði til endurupptöku dæmdra mála væru fyrir hendi. Þegar Alþingi hefur þannig falið stjórnvaldi slíkt sérhæft mat og lagt áherslu á sjálfstæði þess í störfum beinist athugun umboðsmanns Alþingis á kvörtunum vegna ákvarðana slíkra stjórnvalda fyrst og fremst að því hvort stjórnvaldið hafi við meðferð málsins gætt að og fylgt þeim reglum sem því ber að fylgja um meðferð málsins og hvort forsvaranlegar ályktanir hafi verið dregnar af gögnum þess. Athugun mín á kvörtun yðar hefur tekið mið af þessu.
Samkvæmt úrskurði endurupptökunefndar í máli yðar og B uppfyllti endurupptökubeiðnin ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um að leiddar hefðu verið sterkar líkur að því að málsatvik hefðu ekki verið leidd réttilega í ljós og að aðilum verði ekki um það kennt. Af þeim sökum væri ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um hvort skilyrði b- og c-liða sömu málsgreinar væru uppfyllt.
Eftir að hafa kynnt mér öll þau gögn sem fylgdu kvörtun yðar og lágu fyrir hjá endurupptökunefnd þegar hún kvað upp úrskurð sinn, þar á meðal samninginn um greiðsluaðlögun frá 24. febrúar 2012, stefnu lögmanns fyrir hönd yðar og B 24. nóvember 2017, dóm héraðsdóms 13. júlí 2018 og beiðni yðar til endurupptökunefndar 6. ágúst sl., fæ ég þannig ekki annað séð en að endurupptökunefnd hafi tekið beiðni yðar til athugunar, lagt viðhlítandi mat á hvort málsástæður yðar fullnægðu þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í lögum nr. 91/1991 og ber að skýra þröngt en síðan hafnað beiðninni með rökstuddum hætti. Í ljósi framangreinds um stöðu nefndarinnar tel ég að kvörtun yðar gefi ekki nægilegt tilefni til athugasemda af minni hálfu við niðurstöðu hennar og þ.a.l. ekki tilefni til nánari athugunar á málinu.
Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Undirritaður hefur farið með mál yðar á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.
Kjartan Bjarni Björgvinsson