Opinberir starfsmenn. Áminning. Upphaf stjórnsýslumáls. COVID-19.

(Mál nr. 10807/2020)

Kvartað var yfir áminningu frá forsetaritara fyrir að virða ekki reglur um sóttkví.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta hafði ekki verið veitt áminning heldur alvarleg viðvörun. Engin ákvörðun stjórnvalds lá því til grundvallar kvörtuninni og því ekki nægt tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 16. nóvember sl., sem beinist að embætti forseta Íslands vegna áminninga sem yður hafi verið veittar af hálfu forsetaritara fyrir að virða ekki reglur um sóttkví. Fram kom í kvörtuninni að þér hefðuð verið áminntur skriflega tvisvar sama sólarhring í byrjun nóvember sl. án undangenginnar rannsóknar og möguleika á andmælarétti. Í kvörtuninni er því haldið fram að ekki hafi verið rétt staðið að áminningunum og í þeim efnum vísað til 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þér gerðuð jafnframt athugasemdir við framkomu forsetaritara í munnlegum samskiptum yðar tveggja og teljið að viðbrögð hans hafi ekki verið í samræmi við ætluð brot.

  

II

Í tilefni af kvörtun yðar var skrifstofu forseta ritað bréf, dags. 20. nóvember sl., þar sem óskað var eftir upplýsingum vegna málsins og hafið þér fengið afrit af því bréfi.

Mér barst svar frá skrifstofu forseta með bréfi, dags. 2. desember sl. Í bréfinu er tekið fram að áminning í tölvubréfi forsetaritara til yðar hafi ekki verið formleg áminning í skilningi 21. gr. laga nr. 70/1996 heldur „alvarleg viðvörun“ ætluð til að hvetja yður til að hlíta almennum reglum um sóttkví eins og aðrir starfsmenn embættisins, að meðtöldum forseta Íslands. Bréfinu fylgja afrit af tölvupóstsamskiptum yðar og forsetaritara af þessu tilefni og tekið er fram að ekki liggi fyrir önnur skrifleg gögn í málinu.

Í bréfinu er atvikum dagana 3.-8. nóvember sl. lýst eins og þau horfa við forsetaritara. Kemur þar meðal annars fram að forsetaritari styðjist þar við samantekt frá lögreglumanni sem hafi verið við gæslustörf á Bessastöðum umrædda daga.

   

III

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er ákvörðun um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Slík ákvörðun felur í sér íþyngjandi stjórnsýsluviðurlög en við hana eru bundin þau sérstöku réttaráhrif að hún getur verið undanfari uppsagnar úr starfi bæti starfsmaður ekki ráð sitt. Fylgja ber reglum stjórnsýslulaga og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins við meðferð mála þar sem til greina kemur að veita opinberum starfsmanni áminningu. Þær reglur gilda jafnframt um meðferð mála sem enda með formlegu tiltali ef til greina hefur komið að áminna starfsmanninn, sbr. álit umboðmanns Alþingis frá 29. nóvember 2019 í máli nr. 9823/2018. Um nánari umfjöllun um þær reglur sem gæta þarf að af hálfu stjórnvaldsins er vísað til álitsins. 

Fyrir liggja þær upplýsingar frá skrifstofu forseta að yður hafi  ekki verið veitt áminning í skilningi laga nr. 70/1996. Þá kemur jafnframt fram í svörum embættisins að engin gögn liggi fyrir um málið umfram þá tölvupósta sem þér lögðuð fram og skrifstofan afhenti einnig. Af þessu verður ráðið að engar ákvarðanir hafi beinst að yður sem starfsmanni embættisins í tengslum við samskipti yðar við forsetaritara sem vörðuðu fyrst og fremst tilmæli um hvernig þér skylduð haga sóttkví og áréttingar um afstöðu forsetaritara og eftir atvikum lögreglumannsins til þess hvað teldist heimilt í þeim efnum.

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og fylgigögn sem og svör skrifstofu forseta við beiðni minni um upplýsingar tel ég ekki nægt tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar. Ég lít þá einkum til þess að þrátt fyrir orðalag forsetaritara í umræddum tölvupóstum um „áminningu“ og upplýsingar um að um hafi verið að ræða „alvarlega viðvörun“ fæ ég ekki ráðið að málið hafi verið lagt í farveg stjórnsýslumáls þar sem til greina hafi komið að áminna yður.

Í ljósi svara forsetaritara og þess að skýrt liggur fyrir af hálfu hans að ekki var um áminningarmál í skilningi laga nr. 70/1996 að ræða tel ég heldur ekki nægt tilefni til aðhafast frekar vegna þeirra atriða í kvörtun yðar sem lúta að munnlegum samskiptum yðar og forsetaritara og viðbrögðum hans við ætluðum brotum. Í því sambandi tek ég fram að vegna sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, hefur þeirri starfsvenju verið fylgt hjá umboðsmanni að kvartanir, sem lúta að því hvernig einstakir starfs­menn í stjórnsýslunni rækja skyldur sínar, verði almennt að hafa verið bornar undir þann sem fer með agavald gagnvart við­komandi starfsmanni, hér forseta Íslands, áður en þær geta komið til athugunar hjá umboðs­manni. Með þeim hætti fær viðkomandi tækifæri til að fjalla um mál og taka afstöðu til þess hvort tilefni sé fyrir hann til að bregðast við gagnvart starfsmanninum.

    

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson