Eftirlit stjórnsýsluaðila. Peningaþvætti.

(Mál nr. 10875/2020)

Kvartað var yfir málsmeðferð ríkisskattstjóra í máli sem varðaði fyrirhugaða beitingu stjórnvaldssektar og tilteknum starfsmanni embættisins.

Þar sem ekki lá fyrir ákvörðun í málinu voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. 

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 13. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar f.h. A, dags. 21. desember sl., yfir ríkisskattstjóra og tilteknum starfsmanni embættisins. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að málsmeðferð ríkisskattstjóra í máli sem varðar fyrirhugaða beitingu stjórnvaldssektar á grundvelli 46. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem og úrbótakröfu og fyrirhugaðar dagsektir, sbr. 44. og 45. gr. sömu laga.

Af gögnum málsins má ráða að ríkisskattstjóri hafi boðað vettvangsathugun með bréfi sem barst yður 11. maí sl. vegna eftirlits á grundvelli laga nr. 140/2018 sem hafi síðan farið fram hinn 28. maí sl. Í kjölfar hennar hafi félaginu verið tilkynnt með bréfi, dags. 10. júlí sl., að ríkisskattstjóri hygðist leggja á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 10.000.000 kr. með vísan til 46. gr. laganna.

Þá var enn fremur beint að félaginu úrbótakröfu og tekið fram að með hliðsjón af málsatvikum þætti hæfilegt að dagsektir, yrðu þær lagðar á, ákvörðuðust í tilviki sem þessu 50.000 kr. fyrir hvern þann dag sem ekki væri farið eftir úrbótakröfu eftir gefinn frest. Félaginu hafi m.a. verið gert að framkvæma áreiðanleikakönnun á öllum nýjum viðskiptasamböndum auk núverandi viðskiptasambanda sem falla undir gildissvið laganna. Frestur hafi verið veittur til 2. nóvember sl.

Í niðurlagi bréfs ríkisskattstjóra kemur fram að ekki sé um að ræða endanlega ákvörðun um beitingu stjórnvaldssektar og fjárhæð hennar sem og að ekki sé um að ræða endanlega ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð slíkra sekta. Endanlegar ákvarðanir að þessu leyti verði ekki teknar fyrr en félaginu hafi gefist kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru framangreindar aðgerðir afturkallaðar með bréfi, dags. 8. desember sl., og félaginu tilkynnt á ný um fyrirhugaða beitingu viðurlaga skv. XII. kafla laga nr. 140/2018.

Af bréfi ríkisskattstjóra má ráða að um sé að ræða sömu aðgerðir og áður voru fyrirhugaðar og raktar voru hér að framan. Af niðurlagi bréfsins má ráða að ríkisskattstjóri líti svo á að ekki sé um að ræða endanlega ákvörðun um beitingu stjórnvaldssektar eða sektarfjárhæð. Slík ákvörðun verði ekki tekin fyrr en félaginu hafi verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Sömuleiðis sé ekki um að ræða endanlega ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð slíkra sekta. Félaginu hafi verið veittur frestur til 7. janúar 2021 til þess að koma á framfæri skriflegum andmælum m.t.t. hinna fyrirhuguðu ákvarðana, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í tilefni af framangreindu bendi ég yður á að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir jafnframt að almennt verður kvörtun ekki tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns á meðan mál er enn til meðferðar hjá stjórnvaldi og lokaniðurstaða í máli viðkomandi á stjórnsýslustigi liggur ekki fyrir.

Í ljósi framangreinds brestur lagaskilyrði til þess að ég geti tekið þau atriði sem kvörtun yðar lýtur að til athugunar að svo stöddu. Ákvörðunum samkvæmt lögum nr. 140/2018 verður ekki skotið til æðra stjórnvalds eða úrskurðarnefndar, sbr. 3. mgr. 52. gr. Yður er því fært að leita til mín á ný þegar ríkisskattstjóri hefur lokið afgreiðslu sinni á máli yðar innan árs, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

 

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson