Endurveiting ökuréttinda. Vafi um réttaráhrif dóma í opinberum málum. Stjórnarskrá. Réttaröryggi.

(Mál nr. 3152/2001)

A kvartaði yfir tveimur úrskurðum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem hafnað var að veita honum ökuréttindi á ný einkum á þeim grundvelli að hann hefði verið með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur á árinu 1999 verið sviptur ökurétti ævilangt. Í málinu hélt A því fram að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hefði verið óheimilt að lögum að leggja til grundvallar við úrlausn á beiðni hans um endurveitingu ökuréttinda að hann hefði með formlegum og lagalega bindandi hætti verið sviptur ökurétti ævilangt með umræddum dómi héraðsdóms.

Í málinu lá fyrir að við uppkvaðningu héraðsdóms í máli A hafði í dómsorði, sem kveðið var upp í heyranda hljóði að viðstöddum A og verjanda hans og þeir fengu afhent skriflega, ekki verið kveðið á um sviptingu ökuréttar. Lágu þá ekki fyrir forsendur dómarans enda var málið tekið strax til dóms og uppkvaðningar samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Í kjölfarið boðaði héraðsdómari til sérstaks þinghalds vegna málsins og óskaði eftir viðhorfum A og verjanda hans til þess hvort þeir féllust á að viðurlögunum yrði bætt við dómsorðið í staðfestu endurriti. Féllust þeir ekki á það og var því dómsorðið látið óbreytt standa en í forsendum dómara kom fram að A hefði verið sviptur ökurétti.

Umboðsmaður tók fram að atvik kynnu að vera með þeim hætti í einstökum tilvikum að umsækjandi um endurveitingu ökuréttinda, sbr. 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, héldi því fram að hann hefði ekki með formlegum og réttum hætti verið sviptur ökurétti. Í þeim tilvikum yrði dóms- og kirkjumálaráðuneytið á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga að kanna efni þess dóms sem svipting ökuréttar væri byggð á. Benti umboðsmaður á að mál þetta snerist um það hvaða sjónarmið ráðuneytið hefði verið heimilt að leggja til grundvallar við slíkar aðstæður og þá einkum þegar vafi léki á því hvort dómur hefði með bindandi hætti kveðið á um refsikennd viðurlög á borð við sviptingu ökuréttar.

Umboðsmaður dró saman þau almennu sjónarmið sem hann taldi að kæmu til skoðunar við þær aðstæður sem um var að ræða í málinu. Lýsti hann því lögbundna verkefni stjórnvalda að taka ákvarðanir um hvort og þá hvernig réttaráhrif einstakra refsiákvarðana skyldu falla niður eða þeim breytt. Taldi umboðsmaður að enda þótt löggjöfin gerði að jafnaði ráð fyrir því að stjórnvöld skyldu hafa svigrúm við mat um hvort skilyrði laga um töku slíkra ákvarðana væru uppfyllt yrði að ganga út frá því, nema annað yrði með skýrum hætti ráðið af þeirri lagareglu sem um væri að ræða hverju sinni, að löggjafinn hefði ekki ætlað stjórnvöldum svigrúm til mats um það hvort og þá hvaða refsing eða refsikennd viðurlög viðkomandi hefði hlotið í dómi. Leiða mætti þennan skilning af sjónarmiðum um réttaröryggi borgaranna og þá nánar af stjórnskipulegri stöðu stjórnsýslunnar gagnvart dómstólum landsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Samkvæmt þessu yrði að miða við það, við úrlausn á ágreiningi á milli stjórnvalda og dómþola um það hvort dómur í máli hans hefði með lagalega réttum og bindandi hætti kveðið á um tiltekna refsingu eða refsikennd viðurlög, að lagður yrði jafnan til grundvallar formlegur mælikvarði, þ.e. að stjórnvöld hefðu í slíkum tilvikum ekki svigrúm til mats þegar niðurstaða væri fengin um það hvort maður hefði hlotið refsingu eða ákveðin refsikennd viðurlög í dómi. Þá yrði ekki hjá því komist að miða almennt við það að ef vafi léki á því hver væru hin bindandi réttaráhrif dóms í refsimáli þá væri rétt og eðlilegt að skýra slíkan vafa dómþola í hag.

Umboðsmaður rakti ákvæði 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 og 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Tók hann fram að ekki væri í þessum ákvæðum eða lögskýringargögnum að finna nánar fyrirmæli um þær kröfur sem gera yrði til efnis dómsorða eða lagalegs gildis þeirra umfram aðra þætti dómsniðurstöðunnar þegar réttaráhrif dóms væru metin af hálfu stjórnvalda við töku eftirfarandi ákvarðana um fullnustu hans eða um endurveitingu réttinda. Benti umboðsmaður á að ekki hefði af hálfu fræðimanna hér á landi verið fjallað með ítarlegum hætti um það hvaða hluti dómsniðurstöðunnar í opinberu máli skyldi ráða úrlausn ágreinings um réttaráhrif hans. Þá yrði skýr vísbending að þessu leyti ekki fengin úr dómaframkvæmd. Umboðsmaður vísaði þó til skrifa fræðimanna hér á landi og í Danmörku þar sem gengið hefði verið út frá því að eini lagalega bindandi þáttur dómsniðurstöðunnar í opinberu máli væri ályktunarorð dómara, þ.e. dómsorðið. Þá taldi umboðsmaður rétt að líta til þeirra sjónarmiða sem miðað hefði verið við í fullnusturéttarfari hér á landi af hálfu fræðimanna og dómstóla. Hefði á því sviði verið lagt til grundvallar sem meginreglu að einungis dómsorðið hefði bindandi réttaráhrif fyrir aðila máls.

Að þessu virtu, og með áherslu á almenn réttaröryggissjónarmið og stjórnskipulega skiptingu framkvæmdarvalds og dómsvalds, var það niðurstaða umboðsmanns með tilliti til eðlis refsinga og refsikenndra viðurlaga að miða yrði að jafnaði við það að einvörðungu dómsorðið hefði lagalega bindandi áhrif gagnvart dómþola í opinberum málum. Af þessari meginreglu leiddi að stjórnvöldum væri skylt, sbr. þau sjónarmið sem lægju að baki 2. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991, að byggja ákvarðanir við fullnustu refsidóma að jafnaði aðeins á þeim niðurstöðum dómara sem með skýrum og ótvíræðum hætti kæmu fram í dómsorði. Umboðsmaður tók fram að ófært væri með tilliti til framangreindra sjónarmiða að stjórnvöld hefðu almennt við töku stjórnvaldsákvarðana um fullnustu refsiákvarðana eða t.d. endurveitingu réttinda, þar sem þýðingu hefði að afmarka þá refsingu eða þau refsikenndu viðurlög sem hlutaðeigandi hefði hlotið í dómi, svigrúm til að leggja heildstætt mat á meðferð málsins fyrir dóminum og þá einnig hugsanlega aðra hluta dómsniðurstöðunnar, s.s. lýsingu á málsatvikum og forsendum dómara.

Umboðsmaður lagði áherslu á að hann gerði sér grein fyrir því að þessi úrlausn kynni að leiða til óheppilegrar niðurstöðu í sumum tilvikum. Hvað sem því liði yrði að leggja hér til grundvallar að ef vafi væri um hvort dómþoli hefði hlotið tiltekna refsingu eða refsikennd viðurlög í dómi þá bæri að skýra slíkan vafa honum í hag. Ef mistök yrðu af hálfu dómara við meðferð máls og samningu dóms, þannig að vafi skapaðist um það hver væri í raun hin lagalega bindandi niðurstaða dómara, yrði ríkisvaldið að bera hallann af slíkum mistökum en ekki borgararnir. Samkvæmt þessu og með tilliti til atvika málsins, sem sérstaklega voru rakin af hálfu umboðsmanns, var það niðurstaða hans að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hefði að lögum ekki verið heimilt að byggja á því við úrlausn kærumála A að hann hefði með umræddum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verið sviptur ökurétti ævilangt.

Umboðsmaður beindi samkvæmt framangreindu þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki mál A til endurskoðunar, kæmi fram ósk þess efnis frá honum, og fjallaði þá um mál hans í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

I.

Hinn 10. janúar 2001 leitaði B, hæstaréttarlögmaður, til mín fyrir hönd A og kvartaði yfir úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 27. júní 2000, þar sem staðfest var sú ákvörðun sýslumannsins á Akureyri að synja umsókn A um endurveitingu ökuskírteinis. Þá kvartaði hann yfir afgreiðslu ráðuneytisins frá 15. nóvember s.á. þar sem hafnað var að veita A leyfi til að gangast undir ökupróf.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 12. september 2001.

II.

Atvik málsins eru þau að samkvæmt ákæru, útgefinni 29. júní 1999, höfðaði lögreglustjórinn í Reykjavík opinbert mál á hendur A fyrir ætluð brot á umferðarlögum nr. 50/1987. Var þess krafist að ákærði yrði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar. Hinn 25. ágúst 1999 hélt héraðsdómari dómþing í málinu í dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg og var ákæra lögð þar fram ásamt birtu fyrirkalli. Var málinu hins vegar frestað til 31. s.m. sökum þess að A sótti ekki þing. Hinn 31. ágúst 1999 var á ný haldið dómþing og sótti ákærði þá þing og var farið með málið sem játningarmál samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Í sama þinghaldi tók dómari málið til dóms og í endurriti úr þinghaldinu, sem dómarinn ritaði undir og starfsmaður dómsins vottaði, kemur fram að dómarinn hefði þá kveðið upp dóm með svohljóðandi dómsorði:

„Ákærði, [A], sæti fangelsi í 1 mánuð.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.“

Hinn 20. september 1999 hélt umræddur héraðsdómari dómþing á ný og tók fyrir mál A sem mættur var. Í staðfestu endurriti úr þinghaldinu sagði meðal annars svo:

„Dómarinn kynnir að mistök hafi orðið í endurriti sem dómþoli fékk afhent af dómsorði þegar dómur var kveðinn upp 31. ágúst sl. sem voru þau að úr dómsorðinu hafði fallið „ákærði er sviptur ökurétti ævilangt“. Endurritið var ekki staðfest.

Borið er undir dómþola og lögmann hvort fallist sé á að villa þessi falli undir 3. tl. 137. gr. laga nr. 19/1991. Dómþoli og lögmaðurinn fallast ekki á að villan sé þess eðlis. Endurritið stendur því óbreytt eins og dómþoli fékk það afhent við dómsuppsögu.“

Samkvæmt þessu var A og lögmanni hans afhent staðfest endurrit af dóminum 31. ágúst 1999 ásamt forsendum dómara og óbreyttu dómsorði frá því sem rakið er hér að framan. Í forsendunum kemur hins vegar fram að ákærði hafi verið „sviptur ökurétti ævilangt“.

Hinn 22. september 1999 ritaði héraðsdómarinn bréf til ríkissaksóknara þar sem eftirfarandi kom fram:

„Athygli er vakin á því að við uppkvaðningu á dómi í máli nr. S-1711/1999, hinn 31. ágúst sl., sem dæmt var sem játningarmál, urðu þau mistök að út úr dómsorði féll setningin „ákærði er sviptur ökurétti ævilangt“. Fékk dómþolinn afhent óstaðfest endurrit með þessari villu. Af þessum ástæðum var hann kallaður aftur í dóminn og honum kynnt þessi mistök, lögmaður mætti með honum. Féllust þeir ekki á að dómsorðið yrði leiðrétt með vísan til 3. tl. 137. gr. laga nr. 19/1991. Var því ákveðið að láta dómsorðið standa óleiðrétt þrátt fyrir að hann sé sviptur ökurétti ævilangt í dóminum. Dómþola var tjáð við dómsuppsögu að refsing við broti því sem ákært var fyrir og hann játaði væri fangelsi í einn mánuð og svipting ökuréttar ævilangt.“

Með bréfi, dags. 13. október 1999, sendi ríkissaksóknari fangelsismálastofnun endurrit dómsins á hendur A ásamt reikningi um sakarkostnað með áritun um að dóminum yrði eigi áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins. Vísað var til tilvitnaðs bréfs héraðsdómarans frá 22. september 1999. Þá sagði svo í bréfi ríkissaksóknara:

„Ævilangrar sviptingar dómfellda er getið í sakaskrá ríkisins samkvæmt forsendum dómsins og ennfremur í ökuferilsskrá lögreglunnar í Reykjavík.

Af ákæruvaldsins hálfu er því litið svo á, að ofangreindum [A] sé óheimill allur akstur ökutækja ævilangt frá birtingu dómsins.“

Í bréfi fangelsismálastofnunar, dags. 19. október 1999, til A var vísað til þess að stofnunin hefði til fullnustu umræddan dóm frá 31. ágúst 1999 en aðeins var tekið fram að A hefði verið dæmdur í „mánaðar fangelsi og til greiðslu sakarkostnaðar eins og nánar greinir í dómsorði“.

Hinn 2. nóvember 1999 ritaði lögmaður A ríkissaksóknara bréf þar sem lýst var viðhorfum umbjóðanda hans til málsins. Rakti hann að A teldi að sökum þess að ekkert hefði verið kveðið á um það „í forsendum né í dómsorði“ endurrits, sem afhent var lögmanninum og A við uppkvaðningu dómsins 31. ágúst 1999, að hann hefði verið sviptur ökurétti ævilangt væri hann „ekki ökuleyfissviptur“. Með bréfi ríkissaksóknara til lögmannsins, dags. 9. nóvember 1999, er framangreindu viðhorfi andmælt og rakið að í „forsendum“ umrædds dóms hafi „greinilega“ komið fram að A hafi verið sviptur ökurétti ævilangt.

Í kjölfarið fóru fram nokkur bréfaskipti á milli lögmanns A og fulltrúa hjá embætti ríkissaksóknara um málið sem ekki er þörf á að rekja hér nánar. Hinn 9. desember 1999 sendi ríkissaksóknari bréf til embættis lögreglustjórans í Reykjavík, þess héraðsdómara sem kvað upp dóminn 31. ágúst 1999, A og lögmanns hans. Í bréfinu var tekið fram að af hálfu ákæruvaldsins væri „tvímælalaust litið svo á, að nefndum A [hafi verið] óheimill allur akstur ökutækja ævilangt frá birtingu dómsins“.

Á upphafsmánuðum ársins 2000 leitaði A til sýslumannsins á Akureyri og óskaði eftir að embættið veitti honum ökuréttindi sín á ný. Var honum í símtali tjáð að hann væri sviptur ökurétti ævilangt. Ritaði hann því embættinu bréf, dags. 21. febrúar 2000, þar sem hann lýsti því viðhorfi sínu að ekki væri rétt að hann væri sviptur ökurétti ævilangt og óskaði hann eftir skriflegu svari sýslumannsins við beiðni sinni um útgáfu ökuréttinda. Í svarbréfi sýslumannsins á Akureyri, dags. 10. apríl 2000, var A tjáð að hann fengi ekki ökuréttindi aftur fyrst um sinn. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

„Með vísan til bréfs yðar dags. 21. febrúar s.l. og eftir að málið hefur verið skoðað sérstaklega hjá sýslumanninum á Akureyri, staðfestist að þér voruð sviptir ökurétti ævilangt með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 31. ágúst 1999 og sendist afrit hans hér með ásamt sakavottorði.

Með vísan til ofanritaðs er ljóst að þér fáið ökurétt (ökuréttindi) yðar ekki aftur fyrst um sinn, sbr. hér 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.“

Með bréfi, dags. 26. apríl 2000, kærði lögmaður A framangreinda ákvörðun sýslumannsins til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Í kærubréfi lögmannsins sagði meðal annars svo:

„Nánari atvik eru þau að með ákæru dags. 29. júní 1999 var [A] gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni DA-469 11. apríl 1999 undir áhrifum áfengis.

Málið var tekið fyrir 31. ágúst 1999 og játaði ákærði greiðlega brot sitt. Var sama dag kveðinn upp dómur í málinu og [A] dæmdur til eins mánaðar fangelsisvistar.

Var honum afhent eintak dómsins undirritað af dómara og vottað af ritara.

Þegar héraðsdómarinn áttaði sig á að „láðst“ hafði að svipta ákærða ökuleyfi var hann kallaður fyrir dómara á ný og fór dómarinn þess á leit að [A] samþykkti að dóminum yrði breytt. Varð [A] ekki við þeirri ósk.

Næst gerist það að [A] berst ný og endurbætt útgáfa dómsins og hafði forsendukaflinn verið aukinn verulega. Þar er m.a. skráð að ákærði sé sviptur ökurétti ævilangt, en dómsorðið kveður ekki á um slíka sviptingu.

Með vísan til 1. mgr. 135. gr. og 2. mgr. 137. gr. [laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála] krefst ákærði þess að hinn upprunalegi dómur, sem hér fylgir í ljósriti, teljist standa og ákærði sé því ekki talinn sviptur ökurétti.“

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu 27. júní 2000. Í úrskurðinum sagði meðal annars svo:

„Í máli þessu liggur fyrir sakavottorð kæranda frá 24. mars 2000, þar sem fram kemur að hann hafi verið sviptur ökurétti ævilangt frá 31. ágúst 1999. Þá liggur fyrir staðfest endurrit héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. ágúst 1999 í máli nr. 1711/1999: Ákæruvaldið gegn [A], þar sem hann er sviptur ökurétti ævilangt. Dóminum var ekki áfrýjað.

Áður var kærandi sviptur ökurétti í 2 ár frá 21. maí 1996. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 68. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 501/1997, öðlast sá sem sviptur hefur verið ökuréttindum um lengri tíma en eitt ár ekki ökuréttindi að nýju að loknum sviptingartíma nema hann standist ökupróf. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi ekki gengist undir slíkt próf.

Með hliðsjón af framansögðu er hin kærða ákvörðun staðfest.“

Í kjölfarið ritaði A embætti sýslumannsins á Akureyri bréf, dags. 9. júlí 2000, og fór þess á leit að fá að gangast undir ökupróf að nýju með vísan til 2. mgr. 53. gr. laga nr. 50/1987 og 68. gr. reglugerðar nr. 501/1997 um ökuskírteini. Með bréfi sýslumannsins, dags. 15. ágúst 2000, var erindi A hafnað með vísan til þess að hann væri sviptur ökurétti ævilangt. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

„Í úrskurði ráðuneytis frá 27. júní s.l. er staðfest sú ákvörðun sýslumannsins á Akureyri að synja yður um útgáfu ökuskírteinis þar sem þér voruð sviptir ökurétti ævilangt frá 31. ágúst 1999 með dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá sama tíma.

Í úrskurði ráðuneytis er þess jafnframt getið að áður voruð þér sviptir ökurétti í 2 ár frá 21. maí 1996 og vísað til þeirra lagaákvæða sem rakin eru hér að ofan og að samkvæmt þeim öðlast sá sem sviptur hefur verið ökuréttindum um lengri tíma en eitt ár ekki ökuréttindi að nýju að loknum sviptingartíma nema hann standist ökupróf.

Í bréfi yðar virðist þér horfa fram hjá þeirri staðreynd að þér eruð sviptir ökurétti ævilangt og að á henni byggðist sú ákvörðun sýslumannsins á Akureyri um að synja yður um útgáfu ökuskírteinis, sem dómsmálaráðuneytið staðfesti svo í sínum úrskurði.“

Með bréfi 31. október 2000 kærði lögmaður A tilvitnaða ákvörðun sýslumannsins 15. ágúst 2000 til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fyrir hönd A og krafðist þess með vísan til 2. mgr. 53. gr. laga nr. 50/1987 og 68. gr. reglugerðar nr. 501/1997 að ráðuneytið legði fyrir sýslumanninn á Akureyri að heimila umbjóðanda hans að gangast undir ökupróf. Ráðuneytið svaraði erindi þessu með bréfi, dags. 15. nóvember 2000. Þar sagði meðal annars svo:

„Eins og fram kemur í úrskurði ráðuneytisins frá 22. júní sl. liggur fyrir að umbj. yðar var sviptur ökurétti ævilangt frá 31. ágúst 1999. Samkvæmt 106. gr. ofangreindra umferðarlaga getur dómsmálaráðherra heimilað manni sem sviptur hefur verið ökurétti ævilangt, að öðlast ökurétt að nýju, þegar svipting hefur staðið í fimm ár. Jafnframt segir að endurveitingu skuli því aðeins heimila, að sérstakar ástæður mæli með því.

Fimm ár verða liðin þann 31. ágúst 2004 og getur umbj. yðar sótt um heimild til að öðlast ökurétt að nýju að þeim tíma liðnum til dómsmálaráðuneytisins. Til að öðlast ökuréttindi að nýju þarf umbj. yðar ennfremur að gangast undir ökupróf. Prófið má ekki fara [fram] fyrr en einum mánuði áður en sviptingartímabil rennur út, sbr. 2. mgr. 53. gr. ofangreindra umferðarlaga og 68. gr. reglugerðar um ökuskírteini.

Með vísan til ofangreinds eru ekki lagaskilyrði fyrir sýslumann að verða við beiðni umbj. yðar.“

III.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra bréf, dags. 16. janúar 2001, þar sem þess var óskað með vísan til 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar hans. Í bréfi mínu sagði meðal annars svo:

„Fyrir liggur að í endurriti dóms sem [A] fékk í hendur við dómsuppkvaðninguna 31. ágúst 1999 var í engu vikið að sviptingu ökuréttar. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki annað ráðið en að í forsendum dómsins hafi komið fram að hann væri sviptur ökurétti ævilangt og að mistök hafi valdið því að þessi viðurlagaákvörðun dómsins var ekki tekin upp í dómsorð. Ég lít því svo á að umfjöllun mín um fram komna kvörtun, sem fylgir bréfi þessu í ljósriti, lúti að því álitaefni hvort rétt sé að líta svo á, í ljósi atvika samkvæmt framansögðu, að [A] hafi verið gert að sæta sviptingu ökuréttar ævilangt.“

Í sama bréfi fór ég þess síðan sérstaklega á leit við ráðuneytið að það skýrði lagagrundvöll þeirrar niðurstöðu sinnar að rétt væri að líta svo á að A hafi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 1999 verið sviptur ökurétti ævilangt. Svarbréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags 14. mars 2001, barst mér 15. mars 2001. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

„Í ofangreindum úrskurði ráðuneytisins var til úrlausnar sú stjórnvaldsákvörðun sýslumannsins á Akureyri að synja beiðni [A] um leyfi til að gangast undir ökupróf. Í gögnum málsins lá fyrir staðfest endurrit dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. ágúst 1999 þar sem fram kemur að hann sé sviptur ökuréttindum ævilangt frá þeim tíma. Það endurrit sem [A] hefur vísað til, þar sem ekki kemur fram að hann sé sviptur ökuréttindum, er hins vegar óstaðfest. Þá lá fyrir sakavottorð [A] þar sem fram kemur að hann sé sviptur ökuréttindum ævilangt. Ráðuneytið telur alveg ljóst að sýslumaður gat ekki við ákvörðun sína litið framhjá því sem fram kemur á sakavottorði og staðfestu endurriti dóms. Ráðuneytið lítur svo á að raunverulegur ágreiningur í máli þessu lúti fyrst og fremst [að] athöfnum dómara og hvort hugsanlega hafi orðið mistök við meðferð málsins fyrir dómi, fremur en að þeirri stjórnvaldsákvörðun sýslumanns að synja kæranda um leyfi til að gangast undir ökupróf. Ráðuneytið getur ekki við meðferð kærumáls tekið athafnir dómara til endurskoðunar og fellt þær úr gildi. Með vísan til sakavottorðs sem fyrir lá í málinu auk staðfests endurrits héraðsdóms taldi ráðuneytið þá ákvörðun sýslumanns rétta að synja kæranda um leyfi til að gangast undir ökupróf. Með vísan til þessa var erindi lögmanns [A], dags. 31. október 2000, þar sem þess var krafist að ráðuneytið leggi fyrir sýslumanninn á Akureyri að [A] verði heimilað að gangast undir ökupróf að nýju, hafnað með bréfi ráðuneytisins dags. 15. nóvember 2000.“

IV.

1.

Ágreiningur máls þessa beinist að því álitaefni hvort úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 27. júní 2000, þar sem staðfest var sú ákvörðun sýslumannsins á Akureyri að synja umsókn A um útgáfu ökuskírteinis að nýju, og einnig afgreiðsla ráðuneytisins 15. nóvember s.á. þar sem því var synjað að veita A leyfi til að þreyta ökupróf af því tilefni, hafi verið byggð á réttum lagagrundvelli.

A óskaði eftir því við stjórnvöld að fá endurútgefið ökuskírteini sitt og þá að fá að gangast undir ökupróf af því tilefni eins og áskilið er í reglugerð nr. 501/1997, um ökuskírteini. Var þeirri málaleitan endanlega hafnað með vísan til þess að hann hefði verið sviptur ökurétti ævilangt 31. ágúst 1999 með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og að sú skipan hefði verið staðfest með skráningu á sakavottorð hans og í ökuskírteinaskrá.

Í málinu heldur A því fram að á skorti að til staðar hafi verið formlegur grundvöllur að lögum til töku framangreindra ákvarðana að hálfu stjórnvalda enda hefði sá tími verið liðinn sem hann hefði verið sviptur ökurétti samkvæmt eldri dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, dags. 10. maí 1996, þ.e. tvö ár.

Athugun mín í þessu máli hefur samkvæmt því sem rakið er hér að framan nánar tiltekið takmarkast við það atriði hvort dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi við afgreiðslu á kærum A verið að lögum heimilt að byggja á því sem staðreynd, sem ráða ætti réttarstöðu hans við úrlausn málsins, að A hefði með formlegum og lagalega réttum hætti verið sviptur ökurétti ævilangt með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 1999.

2.

Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 öðlast sá, sem sviptur hefur verið ökuréttindum um lengri tíma en eitt ár, ekki ökuréttindi að nýju að loknum sviptingartíma nema hann standist próf í umferðarlöggjöf, akstri og meðferð ökutækis. Á grundvelli heimildar í 1. mgr. 52. gr. sömu laga hefur dóms- og kirkjumálaráðherra sett nánari skilyrði fyrir endurveitingu ökuskírteinis eftir sviptingu þeirra í reglugerð nr. 501/1997, sbr. reglugerð nr. 376/2000.

Í 1. mgr. 64. gr. reglugerðarinnar kemur fram að umsókn um endurveitingu ökuréttinda, meðal annars vegna sviptingar, skuli afhenda lögreglustjóra. Þá er með 1. mgr. 68. gr. áréttuð ofangreind lagaregla 2. mgr. 53. gr. umferðarlaga. Samkvæmt þessu má draga þá ályktun að ef maður er sviptur ökurétti í lengri tíma en eitt ár er að lögum aðeins gert það skilyrði fyrir endurveitingu ökuréttinda að viðkomandi hafi staðist hæfnispróf að loknum sviptingartíma.

Í 106. gr. umferðarlaga, sbr. 30. gr. laga nr. 44/1993, er að finna sérákvæði um þau tilvik þegar maður hefur verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár eða ævilangt og er það svohljóðandi:

„Nú hefur maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár og getur þá dómsmálaráðherra, þegar svipting hefur staðið í þrjú ár, heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt má þó eigi veita ökurétt að nýju fyrr en svipting hefur staðið í fimm ár.

Endurveitingu skal því aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því, en áður skal leitað umsagnar viðkomandi lögreglustjóra.“

Með 30. gr. laga nr. 44/1993, um breyting á umferðarlögum nr. 50 30. mars 1987, var orðalagi 1. mgr. 106. gr. lítillega breytt. Ég vek athygli á því að í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 44/1993 var áréttað að „miðað [væri] við að ákvörðun um sviptingu ökuréttar [yrði] tekin í hvert sinn þegar viðurlög [væru] ákveðin, þ.e. að svipting [yrði] áréttuð ef hún [hefði] áður verið ákveðin, enda [skipti] það máli við beitingu heimildar um endurveitingu ökuréttar skv. 106. gr. laganna“. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 2330.)

Af ákvæði 106. gr. umferðarlaga og lögskýringargögnum má ráða að með því hafi löggjafinn mælt fyrir um að í þeim tilvikum þegar maður hefur verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár og allt að ævilangt verði honum aðeins veitt ökuréttindi á ný ef sérstakar ástæður mæli með því að mati dóms- og kirkjumálaráðherra. Er honum skylt við könnun á slíkri umsókn að leita umsagnar viðkomandi lögreglustjóra. Af þessu verður sú ályktun dregin að játa verður ráðherra nokkurt svigrúm við mat á slíkum umsóknum þó meðal annars að gættri jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laganna. Ég legg þó á það áherslu að tilvitnað ákvæði 106. gr. umferðarlaga veitir dóms- og kirkjumálaráðherra aðeins mat um það hvort sérstakar ástæður réttlæti að þeim, sem sviptir hafa verið ökurétti um lengri tíma en þrjú ár og allt að ævilangt, verði veitt ökuréttindi sín að nýju. Ákvæðið verður hins vegar ekki skýrt með þeim hætti að það geri ráð fyrir slíku svigrúmi ráðuneytisins þegar niðurstaða er fengin um það hvort viðkomandi telst í raun vera „sviptur ökurétti“. Úrlausn á því atriði af hálfu ráðuneytisins ræðst að mínu áliti alfarið af könnun á staðreyndum sem það verður að jafnaði að framkvæma, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en mat er lagt á það hvort sérstakar ástæður í merkingu 2. mgr. 106. gr. umferðarlaga séu fyrir hendi til að endurveita ökuréttindi þegar maður hefur verið sviptur slíkum réttindum um lengri tíma en þrjú ár eða allt að ævilangt.

Ganga verður út frá því að þegar beiðni um endurveitingu ökuréttinda berst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á grundvelli 106. gr. umferðarlaga sé það jafnan fullnægjandi, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, við könnun á því hvort umsækjandi hafi í raun verið sviptur ökurétti, að aðeins sé kannað hvort viðkomandi hafi verið sviptur slíkum rétti með dómi samkvæmt opinberri skráningu, þ.e. á sakavottorði viðkomandi, sbr. reglugerð nr. 569/1999, um sakaskrá ríkisins, eða í ökuskírteinaskrá, sbr. 2. mgr. 88. gr. reglugerðar nr. 501/1997. Leiðir þessi aðstaða af sjónarmiðum um hagræði í opinberri stjórnsýslu.

Atvik kunna hins vegar að vera með þeim hætti í einstökum tilvikum að umsækjandi telji að slík skráning sé röng sökum þess meðal annars að hann hafi í raun ekki að lögum verið sviptur ökurétti með formlegum og réttum hætti með dómi. Tel ég að í þeim tilvikum þegar umsækjandi ber við slíkum annmörkum beri dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á grundvelli meginreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að kanna efni þess dóms sem svipting ökuréttar samkvæmt opinberri skráningu er byggð á. Mál þetta snýst um það hvaða sjónarmið ráðuneytinu er heimilt að leggja til grundvallar við slíkar aðstæður og þá einkum þegar vafi leikur á því hvort dómur kveði með bindandi hætti á um refsikennd viðurlög á borð við sviptingu ökuréttar. Með tilliti til þessa tel ég rétt að draga saman þau almennu sjónarmið sem koma til skoðunar við slíkar aðstæður.

3.

Stjórnsýslunni er falið samkvæmt lögum að annast framkvæmd refsivörslu, þ.e. meðal annars rannsókn og sókn sakar, og fullnustu refsiákvarðana. Þá er stjórnsýslunni einnig falið í ákveðnum tilvikum það hlutverk að taka ákvarðanir um hvort og þá hvernig réttaráhrif einstakra refsiákvarðana skuli niður falla eða þeim breytt, s.s. með því að taka ákvarðanir um hvort fanga skuli veitt reynslulausn, hvort dómþoli uppfylli skilyrði laga um samfélagsþjónustu eða hvort sá sem sviptur hefur verið tímabundið, eða eftir atvikum ævilangt, tilteknum réttindum í refsiskyni, s.s. rétti til aksturs vélknúins ökutækis, skuli veitt slík réttindi á ný. Í slíkum tilvikum er stjórnvöldum ávallt nauðsynlegt að leggja til grundvallar að hlutaðeigandi hafi hlotið tiltekna refsingu eða viðurlög áður en slíkar ákvarðanir eru teknar enda kunna skilyrði fyrir töku þeirra að ráðast að miklu leyti af því hvaða refsingu eða viðurlög um er að ræða.

Enda þótt löggjöfin geri að jafnaði ráð fyrir því að stjórnvöld skuli hafa svigrúm við mat á því hvort skilyrði laga fyrir töku framangreindra ákvarðana séu uppfyllt tel ég að ganga verði út frá því, nema annað verði með skýrum hætti ráðið af þeirri lagareglu sem um ræðir hverju sinni, að löggjafinn hafi ekki ætlað stjórnvöldum mat um það hvort og þá hvaða refsing eða refsikennd viðurlög viðkomandi hafi hlotið í dómi. Leiðir þessi skilningur meðal annars af sjónarmiðum um réttaröryggi borgaranna og þá nánar af stjórnskipulegri stöðu stjórnsýslunnar gagnvart dómstólum landsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Við úrlausn á ágreiningi á milli stjórnvalda og dómþola um það hvort dómur í máli hans hafi með lagalega réttum og bindandi hætti kveðið á um tiltekna refsingu eða refsikennd viðurlög verður að mínu áliti, með tilliti til framangreindra sjónarmiða, að leggja jafnan til grundvallar formlegan mælikvarða við úrlausn á því hvort umræddur dómur kveði með lagalega bindandi hætti á um tiltekna refsingu eða refsikennd viðurlög. Á ég þá nánar við að ganga verður almennt út frá því, nema annað verði með skýrum hætti ráðið af þeirri lagareglu sem um ræðir hverju sinni, að stjórnvöld hafi ekki svigrúm til mats þegar niðurstaða er fengin um það hvort maður hafi hlotið refsingu eða ákveðin refsikennd viðurlög í dómi. Þá tel ég einnig að ekki verði hjá því komist að miða almennt við það að ef vafi leikur á því hver séu hin bindandi réttaráhrif dóms í refsimáli þá sé rétt og eðlilegt að skýra slíkan vafa dómþola í hag.

Dómstólar hafa meðal annars því hlutverki að gegna samkvæmt íslenskri stjórnskipun að kveða endanlega á um það hvort maður hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi og ákveða honum refsingu eða önnur refsikennd viðurlög af því tilefni. Í ljósi þessa og með tilliti til sjónarmiða um réttaröryggi er í lögum leitast við að tryggja að niðurstöður dóma í opinberum málum séu glöggar og skýrar. Tilgangur þess er ekki síst sá að leitast við að tryggja að réttarstaða dómþola sé skýr sökum þess að löggjafinn hefur falið stjórnvöldum það hlutverk að sjá til þess að niðurstaða dómstóla í opinberu máli sé fullnustuð.

Í ákvæði 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sbr. 5. gr. laga nr. 37/1994, er samkvæmt þessu kveðið á um að dómurum í opinberum málum sé skylt að rökstyðja niðurstöður sínar og viðurlög auk þess sem dómari skal greina það skýrlega hvað hann telur sannað í máli og með hverjum hætti. Þá er gert skylt að draga niðurstöðu dómara í hlutaðeigandi máli saman í dómsorð. Ekki er í lögunum eða lögskýringargögnum að finna nánari ákvæði um þær kröfur sem gera verður til efnis dómsorða eða lagalegs gildis þeirra umfram aðra þætti dómsniðurstöðunnar þegar réttaráhrif dóms eru metin meðal annars af hálfu stjórnvalda við eftirfarandi töku ákvarðana um fullnustu hans. Af samanburðarskýringu 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 og ákvæðis 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, má hins vegar a.m.k. draga þá ályktun að í dómsorði í opinberu máli skuli aðalniðurstaða dómara um sekt eða sýknu ákærða dregin saman. Þá beri dómara, ef um sakfellingu er að ræða, að tilgreina nákvæmlega þá refsingu eða þau refsikenndu viðurlög sem hann hefur ákveðið af því tilefni.

Ekki hefur af hálfu fræðimanna hér á landi verið fjallað með ítarlegum hætti um það hvaða hluti dómsniðurstöðunnar í opinberu máli skuli ráða úrlausn ágreinings um réttaráhrif hans. Þá verður ekki skýr vísbending að þessu leyti fengin úr dómaframkvæmd. Ég vek þó athygli á því að Einar Arnórsson komst svo að orði um þetta álitaefni:

„[...] Svo má vera, að dómur fari lengra í forsendum sínum en til hefir verið ætlast, og er það eigi bindandi, ef það kemur eigi fram í atriðisorðum hans.“ (Einar Arnórsson: Dómstólar og réttarfar á Íslandi. Reykjavík, 1911, bls. 637.)

Þá bendi ég á að sambærileg sjónarmið hafa verið lögð til grundvallar af hálfu fræðimanna í Danmörku. Er þar gengið út frá því að einungis ályktunarorð dóma, þ.e. dómsorðið, hafi bindandi réttaráhrif gagnvart dómþola, sjá til hliðsjónar Hans Gammeltoft-Hansen: Strafferetspleje, Kaupmannahöfn, 1996, bls. 32 og 185, en þar er meðal annars til stuðnings vísað til UFR 1994, bls. 196V.

Ég tel rétt til nánari glöggvunar að hafa hér einnig til hliðsjónar þau sjónarmið sem talin eru ráðandi á sviði fullnusturéttarfars hér á landi. Hef ég þá meðal annars tekið mið af því að reglur opinbers réttarfars annars vegar og reglur fullnusturéttarfars eru að mörgu leyti sambærilegar í eðli sínu. Á ég þá einkum við það einkenni þeirra að dómstólum er á þessum sviðum falið að ákvarða umfang og eðli tiltekinna ráðstafana sem eru jafnan íþyngjandi gagnvart borgurunum.

Af hálfu fræðimanna og dómstóla hér á landi hefur verið gengið út frá því sem meginreglu í fullnusturéttarfari að einungis dómsorðið hafi bindandi réttaráhrif fyrir aðila máls, sjá hér Markús Sigurbjörnsson: Aðfarargerðir, Reykjavík, 1995, bls. 121-124.) Í dómi Hæstaréttar frá 24. mars 1997 í málinu nr. 119/1997, (H 1997, bls. 1106), sagði meðal annars svo:

„Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 má fullnægja með aðför kröfum samkvæmt dómum og úrskurðum, sem eru kveðnir upp af íslenskum dómstólum. Með hliðsjón af 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 hefur þetta ákvæði verið skýrt á þann veg, að við aðför samkvæmt dómi í einkamáli komi að meginreglu aðeins til álita að fullnægja þeim kröfum, sem greinir þar í dómsorði. Frá þeirri meginreglu hefur þó meðal annars verið viðurkennd sú undantekning, að við aðför samkvæmt dómi megi leita fullnustu á kröfu, sem ekki er getið berlega í dómsorði, ef ótvíræð heimild verður fundin fyrir því í settum lögum eða eftir atvikum annarri réttarheimild.“

Enda þótt ofangreind meginregla og dómur Hæstaréttar frá 1997 fjalli um gildi dómsorða í málum er varða aðfarargerðir tel ég ekki rök standa til annars en að hafa nokkra hliðsjón af þeim sjónarmiðum við könnun á því hvaða áhrif dómsorð í opinberum málum hafi á réttarstöðu dómþola við fullnustu slíkra dóma hjá stjórnvöldum. Í þessu sambandi tel ég rétt að taka hér orðrétt upp eftirfarandi athugasemdir úr áðurnefndu riti Markúsar Sigurbjörnssonar, Aðfarargerðir, bls. 121-123, þar sem lýst er með almennum hætti þeim hagsmunum sem hér leikast á en ég tel, eins og fyrr greinir, að áþekk sjónarmið eigi við þegar vafi leikur á um hver séu raunveruleg réttaráhrif dóms í opinberu máli:

„Í forsendum dóms eða úrskurðar getur verið leyst úr margvíslegum atriðum án þess að afstaðan til þeirra verði endilega lokaniðurstaðan í úrlausninni. [...]

Í þessu ljósi fer ekki hjá því, að spurning komi upp um hvernig eigi nákvæmlega að finna lokaniðurstöðuna í dómi eða úrskurði, sem má krefjast aðfarargerðar til að fá fullnægt. Við fyrstu sýn getur þessi spurning virst léttvæg, því í dómum og úrskurðum eiga að koma fram rökstuddar niðurstöðu um sönnunaratriði og lagaatriði, eins og má sjá til dæmis af f-lið 1. mgr. 114. gr. EML, og hlýtur þannig að mega reikna með að lokaniðurstaðan verði einfaldlega fundin með því, að lesa niðurstöðukafla úrlausnarinnar eða eftir atvikum hana í heild. Þetta svar getur þó aðeins verið viðunandi ef horft er fram hjá hættunni á að lestur á úrlausn geti skilið eftir vafa um heildarniðurstöður. Lausn á slíkum vafa er ekki hægt að eftirláta málsaðilunum, sem mundu af augljósum ástæðum hneigjast hvor um sig til að draga ályktanir með sínu hugarfari um hvað megi ráða af forsendum úrlausnarinnar. Ekki er heldur hægt að ætlast til að sýslumaður lesi í heild sérhverja dómsúrlausn, sem lögð er fyrir hann með beiðni um aðför, til að leita þar að niðurstöðum. Hlutverk sýslumanns á þessu sviði er að fylgja eftir ákvörðunum dómstóla, sem hann er bundinn af, en ekki að leita að þessum ákvörðunum eða skýra þær eftir eigin höfði. Fyrir þessu er löng hefð, sem má sjá hvað gleggst í ákvæðum NL VI-14-6, þar sem sá, sem framkvæmir aðför, er nefndur þjónn réttarins. Þegar uppi er staðið getur því eina færa lausnin á þessu orðið sú, að dómstólar taki sjálfir af öll tvímæli í úrlausnum sínum um hverjar þær niðurstöðu séu, sem er ætlast til að megi fullnægja með aðför. Þetta er jafnframt sú leið, sem er ætlast til í lögum að sé farin, því dómum og úrskurðum eiga alltaf að fylgja ályktunarorð; dómsorð eða úrskurðarorð, þar sem draga á saman aðalniðurstöðu máls, sbr. 3. mgr. 112. gr. og 2. mgr. 114. gr. EML og 2. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 135. gr. OML, en í þeim tekur dómstóllinn þá sjálfur afstöðu til þess, hvaða lokaniðurstaða felist í úrlausn hans. Samkvæmt þessu er því hægt að álykta að sú meginregla felist í 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. AFL, að heimildin til aðfarar á grundvelli dóms eða úrskurðar sé bundin við þær kröfur, sem er mælt fyrir um í ályktunarorðum úrlausnarinnar, en nái ekki til atriða, sem er aðeins sagt til um í forsendum hennar.“ (Markús Sigurbjörnsson: Aðfarargerðir, Reykjavík, bls. 121-123.)

Ég minni á að almenn réttaröryggissjónarmið leiða til þess að réttarstaða manns, sem þolað hefur dóm í opinberu máli vegna refsiverðrar háttsemi, sé skýr og glögg enda gera lög ráð fyrir því, eins og áður er nefnt, að stjórnvöld hafi það hlutverk á hendi gagnvart dómþola að fullnusta dóminn í samræmi við niðurstöðu hans. Með tilliti til eðlis refsinga og refsikenndra viðurlaga verður því að mínu áliti með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið hér að framan að miða við það að einvörðungu dómsorðið hafi lagalega bindandi áhrif gagnvart dómþola í opinberum málum við framkvæmd þeirra dóma af hálfu stjórnvalda. Af þessari meginreglu leiðir að stjórnvöldum er skylt, sbr. þau sjónarmið sem búa að baki fyrirmælum 2. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991, að byggja ákvarðanir við fullnustu refsidóma að jafnaði aðeins á þeim niðurstöðum dómara sem með skýrum og ótvíræðum hætti greinir í dómsorði. Aðeins yrði því hægt að fallast á það viðhorf að stjórnvöldum væri heimilt í einstökum tilvikum að byggja eftirfarandi ákvarðanir sínar, að því marki sem þar verður að leggja til grundvallar tiltekna refsingu eða refsikennd viðurlög í dómi, á heildarmati á forsendum og niðurstöðum dóms í opinberum málum, að slíka heimild væri að finna í lögum.

4.

Af atvikum þessa máls, eins og þau endurspeglast í þeim gögnum sem fyrir mig hafa verið lögð og rakin eru í kafla II hér að framan, má ráða að óumdeilt er að við uppkvaðningu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 1999 í refsimáli A hafi héraðsdómarinn afhent honum og lögmanni hans endurrit sem undirritað var af hálfu héraðsdómarans og vottað af starfsmanni dómsins. Hafði málið verið tekið til dóms sem játningarmál samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og hafði dómarinn ákveðið að kveða upp dóm í þinghaldinu. Var samkvæmt því svohljóðandi dómsorð tekið upp í endurritið sem A og lögmaður hans fengu afhent.:

„Ákærði, [A], sæti fangelsi í 1 mánuð.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.“

Þá kemur fram í endurritinu að dómsorðið hafi verið lesið í heyranda hljóði að dómþola og sækjanda viðstöddum.

Áður er rakið að umræddur héraðsdómari ákvað í kjölfarið að halda dómþing á ný í máli A 20. september 1999 og mætti hann ásamt lögmanni sínum. Í staðfestu endurriti úr þinghaldinu kemur fram að dómarinn hafi kynnt þeim að mistök hefðu orðið við ritun framangreinds endurrits sem A og lögmaður hans fengu afhent þegar dómur var kveðinn upp 31. ágúst 1999. Hafi í dómsorðinu láðst að geta þess að A hefði verið „sviptur ökurétti ævilangt“. Þá tók héraðsdómarinn sérstaklega fram að endurritið hefði ekki verið staðfest og bar undir A og lögmann hans hvort þeir myndu fallast á að „villa þessi [félli] undir 3. tl. 137. gr. laga nr. 19/1991“. Féllust þeir ekki á það. Í ljósi þessa ákvað dómarinn að rita svohljóðandi athugasemd í endurrit úr nefndu þinghaldi 20. september 1999:

„[...] Endurritið stendur því óbreytt eins og dómþoli fékk það afhent við dómsuppsögu.“

Í sama þinghaldi var A og lögmanni hans afhent staðfest endurrit af dóminum 31. ágúst 1999 ásamt forsendum dómara og óbreyttu dómsorði frá því sem rakið er hér að framan. Í forsendunum kom hins vegar fram að A hefði verið „sviptur ökurétti ævilangt“. Af gögnum málsins verður síðan ráðið að þessi niðurstaða var færð til skráningar í sakarvottorð og ökuskírteinaskrá sem stjórnvöld, sýslumaðurinn á Akureyri og dóms- og kirkjumálaráðuneytið, lögðu til grundvallar við úrlausn beiðni A um endurveitingu ökuréttinda.

Í ljósi þess sem rakið er hér að framan liggur fyrir að bæði í upphaflegu endurriti af dómsorði í máli ákæruvaldsins gegn A, dags. 31. ágúst 1999, og einnig í staðfestu endurriti dómsins 20. september s.á. var ekki kveðið í dómsorði á um það að A skyldi sviptur ökuréttindum ævilangt.

Ég vek athygli á því að héraðsdómarinn í máli A boðaði til sérstaks þinghalds 20. september 1999 eftir upphaflega uppkvaðningu dómsins 31. ágúst s.á. og leitaði eftir sjónarmiðum hans og verjanda hans um hvort þeir féllust á að umræddum viðurlögum yrði bætt inn í dómsorðið. Féllust þeir ekki á þá málaleitan og fengu þeir í kjölfarið afhent staðfest endurrit dómsins með óbreyttu dómsorði frá því sem upplesið var í heyranda hljóði að A viðstöddum 31. ágúst 1999. Verður ekki önnur ályktun dregin af þessum atvikum en að héraðsdómarinn hafi ekki talið sig hafa heimild að lögum til að breyta dómsorðinu eins og aðstæðum var háttað.

Ég hef hér að framan rakið þau sjónarmið sem ég tel að leggja verði til grundvallar við úrlausn á því ágreiningsefni sem fyrir liggur í þessu máli. Að mínu áliti verður að leggja til grundvallar að ályktunarorð dóma, þ.e. dómsorðið, sé eini hluti dómsniðurstöðunnar sem hefur lagalega bindandi áhrif gagnvart dómþola í opinberum málum. Verður því að sama skapi að miða við það að stjórnvöldum sé að jafnaði skylt að byggja úrlausnir sínar, þar sem lög gera ráð fyrir að tiltekin refsing eða refsikennd viðurlög samkvæmt dómi sé sá formlegi grundvöllur sem úrlausnin verður taka mið af, alfarið á þeirri lýsingu sem fram kemur í dómsorði. Styðst þessi niðurstaða við almenn réttaröryggissjónarmið í samskiptum borgaranna og stjórnvalda og stjórnskipulegri skiptingu framkvæmdarvalds og dómsvalds. Ég tel ófært með tilliti til þessara sjónarmiða að stjórnvöld hafi almennt við töku stjórnvaldsákvarðana um fullnustu refsiákvarðana eða t.d. endurveitingu réttinda, þar sem þýðingu hefur að afmarka þá refsingu eða þau refsikenndu viðurlög sem hlutaðeigandi hefur hlotið í dómi, svigrúm til að leggja heildstætt mat á meðferð málsins fyrir dóminum og þá einnig hugsanlega aðra hluta dómsniðurstöðunnar, s.s. lýsingu á málsatvikum og forsendum dómara.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þessi úrlausn kann í sumum tilvikum að leiða til óheppilegrar niðurstöðu. Hvað sem því líður verður eins og greinir í upphafi að leggja hér til grundvallar að ef vafi leikur á um hvort dómþoli hafi hlotið tiltekna refsingu eða refsikennd viðurlög í dómi þá beri að skýra slíkan vafa honum í hag. Ef mistök verða af hálfu dómara við meðferð máls og samningu dóms, þannig að vafi skapast um hver hin lagalega bindandi niðurstaða dómara í rauninni er, verður ríkisvaldið að mínu áliti að bera hallann af slíkum mistökum en ekki borgararnir.

Að virtu því sem rakið er hér að framan og atvikum þessa máls er það niðurstaða mín að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hafi að lögum ekki verið heimilt að byggja á því við úrlausn kærumála A að hann hafi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 1999 verið sviptur ökurétti ævilangt.

5.

Af gögnum málsins má ráða að A var sviptur ökurétti í tvö ár frá 21. maí 1996 eins og fram kemur í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 27. júní 2000. Í nefndum úrskurði vísaði ráðuneytið til þess að samkvæmt 2. mgr. 53. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 68. gr. reglugerðar nr. 501/1997 væri það skilyrði fyrir endurveitingu ökuréttinda, ef maður hefur verið sviptur ökurétti um lengri tíma en eitt ár, að hann standist ökupróf. Hafnaði ráðuneytið kröfu A um að hann fengi ökuréttindi á ný á þessum forsendum.

Í ljósi ofangreindrar niðurstöðu minnar hér að framan um að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hafi að lögum ekki verið heimilt að byggja á því að A hefði verið sviptur ökurétti ævilangt með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 1999 tel ég rétt að beina þeim tilmælum til ráðuneytisins að það taki mál A til endurskoðunar, komi fram beiðni þess efnis frá honum, og taki þá eftir atvikum afstöðu til þess hvort skilyrði séu til staðar til að heimila honum að gangast undir ökupróf í samræmi við framangreind ákvæði umferðarlaga og reglugerðar nr. 501/1987.

V.

Niðurstaða.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að leggja verði til grundvallar að ályktunarorð dóma, þ.e. dómsorðið, sé hluti dóms sem hefur lagalega bindandi áhrif gagnvart dómþola í opinberum málum við framkvæmd þeirra af hálfu stjórnvalda. Í ljósi þessa er það niðurstaða mín að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hafi að lögum, eins og atvikum var háttað í þessu máli, ekki verið heimilt að byggja á því við úrlausn kærumála A að hann hafi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 1999 verið sviptur ökurétti ævilangt.

Að þessu virtu beini ég þeim tilmælum til ráðuneytisins að það taki mál A til endurskoðunar, komi frá ósk þess efnis frá honum, og fjalli þá um mál hans í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í áliti þessu.

VI.

Í tilefni af áliti mínu leitaði A til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 17. september 2001 og óskaði eftir endurupptöku málsins. Með bréfi, dags. 20 nóvember 2001, leitaði A til mín að nýju og kvartaði yfir því að ráðuneytið hefði ekki svarað erindi hans. Af því tilefni sendi ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dags. 28. nóvember 2001, þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hvað liði afgreiðslu ráðuneytisins á erindi A. Í svari ráðuneytisins, dags. 3. desember 2001, segir meðal annars svo:

„Með bréfi, dags. 17. september sl., mótteknu 25. s.m., var óskað eftir því að ráðuneytið taki mál [A] til endurskoðunar með vísan til álits yðar […] Í kjölfar álits yðar sendi ráðuneytið þann 24. september sl., ríkissaksóknara til athugunar álit yðar og barst ráðuneytinu […] bréf ríkissaksóknara, dags. 27. september sl. Ráðuneytið hefur ekki lokið skoðun sinni á málinu en niðurstöðu er að vænta mjög fljótlega.“

Í framhaldinu barst mér bréf ráðuneytisins, dags. 14. desember 2001. Í því segir meðal annars svo:

„Ráðuneytið hefur í meðfylgjandi bréfi, dags. í dag, svarað ofangreindu erindi. Jafnframt hefur ráðuneytið ritað sýslumanninum á Akureyri bréf, dags. í dag, þar sem tilkynnt er að sýslumanni sé heimilt að láta [A] í té ökuskírteini, þegar hann hefur staðist próf í umferðarlöggjöf, akstri og meðferð ökutækis. Þá hefur ríkissaksóknara verið ritað bréf, dags. í dag, þar sem gerð er grein fyrir afgreiðslu ráðuneytisins á erindinu.“