Heilbrigðismál. Nauðungarvistun. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. OPCAT-eftirlit.

(Mál nr. 10519/2020)

Kvartað var yfir Landspítala vegna greiningar, lyfjagjafar og vistun sem viðkomandi sætti þar.

Með úrskurði héraðsdóms hafði viðkomandi verið svipt sjálfræði og þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til dómstóla voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina að því er það snerti. Þá féll einnig utan starfssviðsins að fjalla um hvort lagaskilyrði væru fyrir vistuninni á Landspítala, sjálfræðissviptingunni sem og þvingaðri lyfjagjöf eða meðferð þar sem slíkt ætti að bera undir dómstóla. Umboðsmaður ritaði Landspítala hins vegar bréf þar sem m.a. ábendingar hans úr heimsóknarskýrslu á Klepp voru áréttaðar um að taka skipulag og starfsemi deildanna þriggja þar til skoðunar með það í huga að tryggja að upplýsingar um lögbundnar kvörtunarleiðir væru aðgengilega bæði sjúklingum og aðstandendum og að gætt væri að skráningu athugasemda við þjónustu og meðferð.

 

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. janúar 2021, sem hljóðar svo:

  

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 4. maí sl., sem beinist að Land­spítala og lýtur að greiningu og lyfjagjöf sem þér hafið sætt á sér­hæfðri endurhæfingargeðdeild. Af kvörtun yðar má ráða að þér hafið fengið þær upplýsingar að mál yðar hafi verið lagt fyrir dómstóla en þér þó engin gögn séð um slíkt eða mætt í dóm. Af henni sem og gögnum málsins má jafnframt álykta að þér séuð ósáttar við vistun yðar á spítalanum sem og lyfjagjöf sem þér sætið eða sættuð þar.

Áður en lengra er haldið tel ég rétt að taka fram að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í b-lið 4. mgr. 3. gr. laganna er sér­staklega tekið fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa dóm­­stóla. Í samræmi við þetta fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um málsmeðferð og niðurstöðu dómstóla í einstökum málum sem fyrir þá hafa verið lögð og samkvæmt c-lið sama ákvæðis tekur starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla.

Eins og vikið verður nánar að hér á eftir leiðir af framangreindu að lögbundnar takmarkanir eru á möguleikum umboðsmanns Alþingis til að fjalla á grundvelli kvartana um mál sem varða ákvarðanir um nauðungar­vistun, þvingaða lyfjagjöf og sjálfræðissviptingu, auk þess sem umboðs­maður hefur almennt takmarkaðar forsendur til að gera athugasemdir við það sérfræðilega mat lækna sem liggja slíkum ákvörðunum til grundvallar. Umboðsmaður getur þó tekið stjórnsýsluframkvæmd til umfjöllunar á almennum grundvelli, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Frá árinu 2018 hefur umboðs­maður jafnframt farið með svokallað OPCAT-eftirlit með stöðum þar sem dveljast einstaklingar sem eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu. Eftirlitið byggist á valfrjálsri bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða van­virðandi meðferð eða refsingu og miðar að því að koma í veg fyrir að pyndingar eða önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. M.a. að þessu virtu hefur umboðsmaður eftir atvikum talið rétt, þegar kvartanir vegna ákvarðana eins og þeirra sem um ræðir í yðar tilviki berast, að afla upplýsinga um stöðu þess sem slík ákvörðun beinist að og ganga úr skugga um, innan marka laga, hvort viðkomandi hafi fengið leiðbeiningar og aðstoð til að gæta réttar síns með þeim hætti sem mælt hefur verið fyrir um í lögum.

Í tilefni af kvörtun yðar og í samræmi við framangreint var Land­spítala ritað bréf, dags. 6. maí sl., þar sem þess var m.a. óskað að spítalinn veitti umboðsmanni upplýsingar um á hvaða grundvelli þér væruð vistaðar á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild og að honum yrðu jafnframt afhent afrit af þeim gögnum sem liggja fyrir um meðferð yðar á deildinni frá innlögn og þá sérstaklega þeim upplýsingum sem eftir atvikum kunna að hafa verið skráðar í sjúkraskrá yðar á grundvelli 26. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Þá var þess enn fremur óskað að Landspítali upplýsti umboðsmann um hvort og þá með hvaða hætti yður hafi verið kynntar þær leiðir sem yður stæðu til boða ef þér vilduð kvarta eða kæra ákvarðanir eða athafnir spítalans vegna vistunar, þjónustu og meðferðar á spítalanum.

Í svarbréfi Landspítala, dags. 30. júní sl., kemur fram að þér voruð nauðungarvistaðar á bráðageðdeild 32C hinn 24. febrúar sl. og að sýslumaður hafi staðfest beiðni um 21 dags nauðungarvistun tveimur dögum síðar. Þér hafið verið fluttar á móttökugeðdeild 33A hinn 10. mars sl., sjálfræðissviptar til eins árs hinn 18. mars sl. og fluttar á sérhæfða endurhæfingargeðdeild hinn 1. apríl sl. þar sem þér dveljið nú eða dvöldust a.m.k. þegar svar Landspítala barst. Í bréfinu kemur enn fremur fram að ekki sé skráð í sjúkraskrá yðar um að yður hafi verið veittar sérstakar upplýsingar um með hvað hætti þér gætuð kvartað vegna vistunar, þjónustu og meðferðar á spítalanum. Skráning í sjúkraskrá yðar beri þó með sér að þér hafið verið í samskiptum við starfsmenn embættis landlæknis og yður því réttur að þessu leyti kunnur. Jafnframt að þér hafið verið hvattar til að ræða við ráðgjafa sem og að yður hafi í tví­gang verið afhentar upplýsingar um heimild yðar til þess að bera ákvörðun um vistun eða meðferð undir dómstóla.

Af gögnum málsins má ráða að þér báruð ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lög­ræðis­laga nr. 71/1997, undir Héraðsdóm Reykjavíkur sem úrskurðaði í máli yðar nr. L-1516/2020 hinn 3. mars sl. Kröfu yðar um ógildingu ákvörðunar sýslumanns hafi verið hafnað. Enn fremur má af gögnum málsins ráða að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi krafist þess að þér yrðuð sviptar sjálfræði tímabundið í 12 mánuði fyrir dómstólum. Héraðsdómur Reykja­víkur hafi úrskurðað í máli yðar nr. L-1855/2020 hinn 18. mars sl. þar sem fallist var á kröfu velferðarsviðs. Af úrskurðinum má ráða að þér kröfðust þess að kröfunni yrði hafnað en til vara að sjálfræðissviptingu yrði markaður skemmri tími. Í úrskurðinum kemur fram að þér komuð ekki fyrir dóm en fóluð verjanda yðar að halda uppi framangreindri kröfugerð og koma sjónarmiðum yðar á framfæri.

  

II

1

Um nauðungarvistun er fjallað í III. kafla lögræðislaga nr. 71/1997. Samkvæmt 18. gr. laganna er með nauðungarvistun í lögum bæði átt við það þegar sjálfráða maður er færður nauðugur í sjúkrahús og haldið þar og þegar manni, sem dvalið hefur í sjúkrahúsi af fúsum og frjálsum vilja, er haldið þar nauðugum.

Um skilyrði nauðungarvistunar er fjallað í 19. gr. laganna. Í 1. mgr. 19. gr. kemur fram sú meginregla að sjálfráða maður verði ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi. Í 2. mgr. er að finna undantekningar frá þeirri reglu. Þar segir að læknir geti ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvar­legum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Ef frelsis­skerðing á að standa lengur en 72 klukkustundir þarf samþykki sýslu­manns. Í 3. mgr. segir að með samþykki sýslumanns megi vista sjálfráða mann gegn vilja sínum í sjúkrahúsi til meðferðar í allt að 21 sólarhring frá dagsetningu samþykkis sýslumanns ef fyrir hendi eru ástæður þær sem greinir í 2. mgr. og nauðungarvistun er óhjákvæmileg að mati læknis.

Í 27. gr. laganna er fjallað um ráðgjafa nauðungarvistaðs manns en þar segir í 1. mgr. að nauðungarvistaður maður eigi rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings sérstaks ráðgjafa vegna sjúkrahúsdvalarinnar og meðferðar þar.

Um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð á einstaklingum sem dvelja á sjúkrastofnun á grundvelli nauðungarvistunar gildir 28. gr. lög­ræðislaga. Samkvæmt ákvæðinu má aðeins beita mann sem er nauðungar­vistaður í sjúkrahúsi án samþykkis sýslumanns þvingaðri lyfjagjöf eða annarri þvingaðri meðferð ef hann er hættulegur sjálfum sér eða öðrum eða ef lífi hans eða heilsu er annars stefnt í voða. Ef samþykki sýslu­manns fyrir nauðungarvistun liggur fyrir skal maður einungis sæta þvingaðri lyfjagjöf eða annarri þvingaðri meðferð samkvæmt ákvörðun yfir­læknis. Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laganna er þeim heimilt sem gert hefur verið að sæta þvingaðri lyfjagjöf eða meðferð samkvæmt 28. gr. að bera þá ákvörðun undir dómstóla. Krafa samkvæmt 2. mgr. skal vera skrif­leg og beint til viðkomandi dómstóls. Í kröfunni skal koma fram hvort óskað sé skipunar ákveðins talsmanns og ef svo er hver það eigi að vera. Ráðgjafi skal aðstoða við kröfugerð samkvæmt þessari grein ef þess er óskað og sjá um að dómstóli berist krafan þegar í stað, sbr. 3. mgr. 30. gr.

Að því er varðar þá sem eru sjálfræðissviptir, eins og við á um yður, ber að líta til 2. mgr. 58. gr. lögræðislaga en þar segir að um flutning manns á stofnun sem rekin er samkvæmt lögum um heilbrigðis­þjónustu og meðferð hans þar gildi ákvæði 4. mgr. 19. gr., 25., 26., 27. og 28. gr. laganna „eftir því sem við á“. Í samræmi við þetta gilda því ákvæði laganna um m.a. þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð nauðungar­vistaðra einstaklinga um sjálfræðissvipta einstaklinga sem vistaðir eru á Landspítala nema fyrirvarinn „eftir því sem við á“ eigi við. Þá er það svo að þótt lögræðislög séu ekki skýr um rétt sjál­fræðis­svipts einstaklings til þess að bera ákvörðun um þvingaða lyfjagjöf undir dómstóla hefur umboðsmaður Alþingis talið rétt að ganga út frá því að þeir njóti slíks réttar. (Sjá skýrslu umboðsmanns Alþingis um heimsókn á Landspítala; réttargeðdeild, öryggisgeðdeild og sérhæfða endurhæfingargeðdeild, 29.-31. október 2018, bls 45-46 sem birt er á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.)

Í 1. mgr. 59. gr. lögræðislaga segir að sjálfræðissviptum manni sé heimilt að bera ákvörðun lögráðamanns síns um vistun hans á stofnun, sbr. 2. mgr. 58. gr., undir dómstóla. Þá getur sá sem sviptur hefur verið sjálfræði sínu borið fram kröfu við héraðsdómara um að lögræðis­svipting verði felld niður með úrskurði að nokkru eða öllu leyti ef hann telur ástæður sviptingar ekki lengur fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 15. gr. lögræðislaga. Krafa um niðurfellingu lögræðissviptingar skal vera skrif­leg og rökstudd og studd gögnum um breyttar aðstæður hins lögræðissvipta ef unnt er, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

  

2

Eins og áður greinir má af kvörtun yðar og gögnum málsins álykta að þér séuð ósáttar við vistun yðar á spítalanum sem og lyfjagjöf þá sem þér sætið eða sættuð.

Eins og kemur fram fyrr í þessu bréfi er í b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekið fram að starfssvið umboðs­manns taki ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við fellur það utan starfssviðs míns að fjalla um málsmeðferð og niðurstöðu dómstóla í ein­stökum málum sem fyrir þá hafa verið lögð. Það eru því ekki uppfyllt laga­skilyrði til þess að ég fjalli um kvörtun yðar að því marki sem hún kann að lúta að þeirri niðurstöðu sem felst í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum yðar nr. L-1516/2020 hinn 3. mars sl. og L-1855/2020 hinn 18. mars sl.

Að því leyti sem kvörtun yðar kann að beinast að því að skilyrði sjál­fræðissviptingar hafi ekki verið fyrir hendi á því tímamarki sem þér báruð kvörtunina fram, eða eftir það, og að skilyrði hafi og/eða séu ekki fyrir hendi til að þvinga yður til að sæta lyfjagjöf tek ég fram að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. tekur starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum laga­fyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Ég bendi yður á þetta vegna þess að samkvæmt framanreifuðum lagaramma er ætlast til þess að sjálfræðissviptir einstaklingar beri ákvörðun læknis um þvingaða lyfjagjöf eða meðferð undir dómstóla. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því að sá sem er sjálfræðissviptur geti borið fram kröfu við héraðsdómara um að lögræðissvipting verði felld niður með úrskurði að nokkru eða öllu leyti ef hann telur ástæður sviptingar ekki lengur fyrir hendi. Það fellur því utan starfsviðs míns að fjalla um hvort lagaskilyrði séu fyrir vistun yðar á Landspítala, sjálfræðis­sviptingu yðar sem og þvingaðri lyfjagjöf eða meðferð. Yður er þó eftir sem áður fær sú leið að freista þess að bera slíkt undir dómstóla í samræmi við framangreindar leiðbeiningar.

  

III

Í ljósi þess sem að framan er rakið læt ég málinu lokið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég hef þó ákveðið að rita Land­spítala bréf það sem hjálagt er í ljósriti þar sem ég kem tilteknum ábendingum á framfæri.

Hinn 1. nóvember sl. var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

   

    


    

Bréf setts umboðsmanns til Landspítala, dags. 15. janúar 2021, hljóðar svo:

    

I

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar A í tengslum við greiningu og lyfjagjöf sem hún sætir eða sætti á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild. Af kvörtun hennar og gögnum málsins má ráða að hún sé ósátt við vistun sína á spítalanum sem og þá lyfja­gjöf sem hún sætir eða sætti þar.

Hinn 1. nóvember sl. var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

Eins og fram kemur í bréfi mínu til A, sem fylgir hjálagt í ljósriti, hef ég ákveðið að ljúka umfjöllun minni um mál hennar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það tel ég rétt að vekja athygli Landspítala á eftir­farandi atriðum.

  

II

1

Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 má með samþykki sýslu­manns vista sjálfráða mann gegn vilja sínum í sjúkrahúsi til með­ferðar í allt að 21 sólarhring frá dagsetningu samþykkis sýslumanns ef fyrir hendi eru ástæður þær sem greinir í 2. mgr. og nauðungarvistun er óhjákvæmileg að mati læknis. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 skal vakthafandi sjúkrahúslæknir tilkynna nauðungarvistuðum manni án tafar um m.a. ákvörðun sýslumanns samkvæmt 3. mgr. 19. gr., ef því er að skipta, og um rétt til að bera ákvörðun um nauðungarvistun eða þvingaða lyfjagjöf eða meðferð undir dómstóla samkvæmt 30. gr., nema slíkt sé bersýnilega þýðingarlaust vegna ástands hans. Yfirlæknir hefur eftir­lit með og ber ábyrgð á að 1. mgr. 25. gr. sé framfylgt, sbr. 2. mgr.

Í 1. mgr. 26. gr. laganna kemur fram að vakthafandi sjúkrahúslæknir skuli, eftir því sem við á, skrá í sjúkraskrá nauðungarvistaðs manns svo fljótt sem verða má m.a. samþykki sýslumanns samkvæmt 3. mgr. 19. gr., sbr. b-lið, ákvarðanir um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða með­­ferð samkvæmt 28. gr. og rökstuðning fyrir nauðsyn hennar, sbr. c-lið, og hvenær nauðungarvistuðum manni var kynntur réttur hans til að bera ákvörðun um nauðungarvistun eða þvingaða lyfjagjöf eða meðferð undir dómstóla samkvæmt 30. gr. Ef slík kynning fer ekki fram þegar í stað skuli ástæður þess skráðar í sjúkraskrá, sbr. e-lið. Yfirlæknir hefur sömuleiðis eftirlit með og ber ábyrgð á að ákvæði 1. mgr. 26. gr. sé framfylgt, sbr. 2. mgr.

Í 28. gr. laganna er fjallað um meðferð nauðungarvistaðs manns í sjúkra­­húsi. Þar kemur fram í 1. mgr. að maður, sem nauðungarvistaður er í sjúkrahúsi án þess að samþykki sýslumanns liggi fyrir, skuli hvorki sæta þvingaðri lyfjagjöf né annarri þvingaðri meðferð nema skilyrðum 3. mgr. greinarinnar sé fullnægt og að í slíkum tilvikum gildi ákvæði 3. mgr. einnig að öðru leyti. Samkvæmt 2. mgr. skal maður, sem nauðungar­vistaður er til meðferðar í sjúkrahúsi með samþykki sýslumanns, einungis sæta þvingaðri lyfjagjöf samkvæmt ákvörðun yfirlæknis. Sama eigi við um aðra þvingaða meðferð. Samkvæmt 3. mgr. getur vakthafandi læknir þó tekið ákvörðun um að nauðungarvistaður maður skuli sæta þvingaðri lyfja­gjöf eða annarri þvingaðri meðferð ef hann er sjálfum sér eða öðrum hættulegur eða ef lífi hans eða heilsu er annars stefnt í voða. Ákvörðun um þvingaða lyfjagjöf eða aðra þvingaða meðferð í þessum tilvikum skuli til­kynnt yfirlækni svo fljótt sem verða má og skal hann taka ákvörðun um frekari meðferð.

Um flutning sjálfræðissvipts manns á stofnun sem rekin er samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eða lögum um málefni fatlaðs fólks gilda ákvæði 4. mgr. 19. gr., 25., 26., 27. og 28. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 eftir því sem við á, sbr. 2. mgr. 58. gr. lögræðislaga. Framanreifuð laga­ákvæði eiga því bæði við um nauðungarvistun sjálfráða einstaklings sem og um sjálfræðissviptan einstakling sem fluttur er og dvelur á Landspítala eftir því sem við á.

Við beitingu og túlkun framangreindra ákvæða ber að hafa í huga að lögræðislög miða að því að tryggja sem best mannréttindi frelsis­sviptra einstaklinga, sem rekja má bæði til ákvæða í stjórnarskrá lýð­veldisins Íslands nr. 33/1944 og til alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Þar á einkum við 67. gr. stjórnarskrárinnar, 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem og 9. gr. alþjóðasamnings um borgara­leg og stjórnmálaleg réttindi. Umrædd ákvæði fjalla um réttindi og réttarstöðu manns sem sviptur hefur verið frelsi með einum eða öðrum hætti. (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 3704.)

Til viðbótar við framangreint er m.a. að finna í lögum nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, ákvæði um rétt sjúklinga til þess að kvarta yfir með­ferð til landlæknis, sbr. 1. mgr. 28. gr. Í 1. málsl. 3. mgr. 28. gr. er það áréttað að starfsmönnum heilbrigðisstofnunar sé skylt að leið­beina sjúklingi eða vandamanni sem vill koma á framfæri athugasemd eða bera fram kvörtun að þessu leyti.

     

2

Af skráningu í sjúkraskrá A frá 26. febrúar sl. má ráða að henni hafi verið tilkynnt um ákvörðun sýslumanns samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laganna í samræmi við c-lið 1. mgr. 25. gr. lögræðislaga og að samþykki sýslumanns hafi verið skráð í sjúkraskrá hennar í samræmi við b-lið 1. mgr. 26. gr. lögræðislaga. Í sömu skráningu kemur fram að hjúkrunar­fræðingur hafi hringt í ráðgjafa og að óvíst sé hvort A ætli sér að kæra ákvörðun sýslumanns eða ekki. Af þessu má álykta að henni hafi verið kynntur réttur til þess að bera ákvörðun sýslu­­­manns á grundvelli 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga undir dómstóla í sam­­ræmi við d-lið 1. mgr. 25. gr. lögræðislaga. Slíkt má sömuleiðis ráða af blaði sem virðist hafa verið afhent A sama dag en þar kemur m.a. fram að hún eigi rétt á að „bera ákvörðun um nauðungarvistun“ undir dómstóla. Ekki virðist þó sérstaklega skráð í sjúkraskrá A hvenær henni var kynntur réttur að þessu leyti eins og áskilið er í e-lið 1. mgr. 26. gr. lögræðislaga.

Í svarbréfi Landspítala, dags. 30. júní sl., kemur fram að A hafi frá 4. mars sl. fengið meðferð með forðalyfi í vöðva á tveggja vikna fresti. Hún hafi ekki verið sátt við lyfjameðferðina en hafi verið til samvinnu. Af gögnum málsins, nánar tiltekið dagálum og skráningu í sjúkraskrá A, má ráða að merkt hafi verið við að hún hafi verið „til samvinnu“ varðandi forðalyfjagjöf fram að 29. maí sl. Frá þeim tíma er á hinn bóginn merkt við að hún sæti meðferð með forðalyfi í vöðva gegn vilja sínum. Hún sé þó til samvinnu. Í gögnum málsins er enn fremur skráð að A sé ósátt við lyfjagjöf sína eða vistun sína á spítalanum. Til dæmis má sjá af skráningu 20. apríl sl. að hún hafi tjáð lækni að hún vilji hætta á geðrofslyfjum og að hún sé neydd til þess að vera á lyfjum og henni haldið á spítalanum 20. maí sl., að hún sé ósátt við forðalyfjasprautur 26. maí sl., að hún vilji ekki vera á geðrofslyfjum og að henni sé haldið gegn vilja hennar 18. júní sl. sem og að hún hafi verið ósátt við hækkun lyfjaskammtar 22. og 24. júní sl.

Ekki virðist beinlínis skráð í sjúkraskrá A að ákvörðun hafi verið tekin um þvingaða lyfjagjöf sem og rökstuðningur fyrir nauðsyn lyfjagjafar eins og c-liður 1. mgr. 26. gr. laganna gerir ráð fyrir. Óljóst er því hvenær hægt er að telja að hún hafi þurft að sæta þvingaðri lyfjagjöf, þ.e. hvort það hafi verið frá og með 29. maí sl. eða fyrr eins og gögn bera raunar með sér. Slíkt leiðir svo aftur til þess að óljóst er hvaða lyfjagjöf A getur borið undir dóm­stóla í samræmi við 2. mgr. 30. gr. laganna.

Í þessum efnum er enn fremur ekkert skráð í sjúkraskrá A um að henni hafi verið kynntur réttur til þess að bera ákvarðanir um þvingaða lyfjagjöf eða meðferð undir dómstóla samkvæmt 30. gr. í samræmi við e-lið 1. mgr. 26. gr. lögræðislaga sem og d-lið 1. mgr. 25. gr. laganna. Ég tel rétt að minna á að ef slík kynning fer ekki fram ber að skrá ástæður þess, sbr. 2. málsl. e-liðar 1. mgr. 26. gr. lögræðislaga. Þá tel ég ekki forsendur til þess að ganga út frá því að sú kynning á rétti A til þess að bera „ákvörðun um nauðungar­vistun eða meðferð undir dómstóla“, sem fram kemur á því upp­lýsingablaði sem henni virðist hafa verið afhent 26. febrúar sl. og fjallað er um í áðurnefndu bréfi Landspítala, sé nægileg til þess að fullnægja framangreindum lagaáskilnaði. Hef ég hér einkum í huga að ekki er skýrlega vísað til ákvarðana um þvingaða lyfjagjöf þar.

Ég tel að endingu rétt að nefna að í bréfi Landspítala er bent á að ekki er skráð í sjúkraskrá A að henni hafi verið veittar sér­stakar upplýsingar um með hvaða hætti hún geti kvartað vegna vistunar, þjónustu og meðferðar á spítalanum. Skráningar í sjúkraskrá hennar beri þó með sér að hún hafi verið í samskiptum við starfsmenn embættis landlæknis og henni því rétturinn kunnur. Í þessum efnum tel ég rétt að árétta að samkvæmt 3. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, hvílir sú skylda á starfsmönnum heilbrigðisstofnana að leiðbeina sjúklingum eða vandamönnum að þessu leyti. Það að sjúklingur hafi verið í samskiptum við embætti landlæknis leysir starfs­menn ekki undan skyldu sinni að þessu leyti.

  

3

Eins og fram kemur í bréfi mínu til A tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla eða ákvarðana og annarra athafna stjórn­valda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Ég tel þó rétt að koma þeirri ábendingu á framfæri við Landspítala að gæta framvegis betur að þeim atriðum sem að framan eru rakin, þ.e. kynningu á rétti einstaklinga til þess að bera ákvarðanir um m.a. þvingaða lyfjagjöf undir dómstóla sem og skráningu í sjúkraskrá í samræmi við 26. gr. lögræðislaga.

Í þessum efnum árétta ég það sem fram kom í heimsóknarskýrslu umboðsmanns Alþingis frá 16. október 2019, sem varðar heimsókn á Klepp. Þar var m.a. þeim ábendingum komið á framfæri við Landspítala að taka skipulag og starfsemi deildanna þriggja, þ.e. réttargeðdeildar, öryggis­geð­deildar og sérhæfðrar endurhæfingargeðdeildar, til skoðunar með það í huga að tryggja að upplýsingar um lögbundnar kvörtunarleiðir vegna athuga­semda við þjónustu og meðferð á deildunum séu aðgengilegar sjúklingum og aðstandendum þeirra og að gætt sé að skráningu í tengslum við slík mál. Þar var enn fremur áréttað að aðgengi sjúklinga að virkum kvörtunar- og kæruleiðum tryggi réttaröryggi þeirra og sé þáttur í að fyrir­byggja ómannlega eða vanvirðandi meðferð.

Í svari Landspítalans, dags. 30. nóvember sl., í tengslum við eftir­­fylgni vegna skýrslunnar, kemur m.a. fram að spítalinn geri ráð fyrir að skerpa verulega á þessum þætti þannig að sjúklingar og aðstandendur fái greiðan og opinn aðgang að upplýsingum um kvörtunar­leiðir auk viðeigandi leiðbeininga eftir því sem þörf er á í hverju tilviki. Í ljósi þessa er því þannig beint til spítalans að fylgja til­­vitnuðum áformum eftir, en að auki þykir rétt að árétta mikilvægi þess að gætt sé að skráningu í tengslum við slíka upplýsingagjöf og leið­beiningar.

Ég vænti þess að þau atriði sem ég hef hér gert að umfjöllunarefni verði framvegis höfð til hliðsjónar í máli A sem og annarra.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson