Sveitarfélög. Umferðarmál. Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds. Jafnræðisreglan.

(Mál nr. 10904/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis f.h. B og kvartaði yfir synjun Bílastæðasjóðs við umsókn B um íbúakort vegna bifreiðarinnar  X. Umsókninni var synjað á þeim grundvelli að skilyrði reglna um bílastæðakort íbúa í Reykjavík, þess efnis að ekki mætti vera bílastæði á lóð, væri ekki fullnægt þar sem bílskúr fylgdi fasteign A og B. Kvörtunin beindist einnig að því að stöðubrotsgjald hefði verið lagt á bifreið A sem lagt var fyrir framan innkeyrslu að lóð þeirra. Athugun umboðsmanns laut að því hvort framangreind synjun væri samrýmanleg lögum en í ljósi þess að sektin hafði verið endurgreidd var ekki ástæða til að umboðsmaður tæki það atriði til nánari skoðunar.

Umboðsmaður benti á að í umferðarlögum er kveðið á um að sveitarstjórn sé heimilt að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum hennar. Ákvæði umferðarlaga feli ekki í sér skyldu heldur heimild fyrir sveitarfélög til að setja sér reglur um stöðureiti, m.a. um ívilnandi úrræði fyrir íbúa sem eiga lögheimili á ákveðnum svæðum í Reykjavík, og því hafi sveitarstjórnir visst svigrúm við útfærslu á slíkum reglum.

Var það niðurstaða umboðsmanns, að virtu því svigrúmi sem sveitarstjórn hefur við setningu reglna um stöðureiti, að ekki væri tilefni til að gera athugasemd við þá ákvörðun að synja B um íbúakort á þeim grundvelli að hún hefði aðgang að bílastæði á eigin lóð. Benti umboðsmaður á að draga mætti þá ályktun að umrætt skilyrði reglna Reykjavíkurborgar hefði þann tilgang að gefa þeim íbúum sem búa á gjaldskyldum svæðum, án aðgengis að stæðum, kost á að leggja bifreiðum sínum þeim að kostnaðarlausu með því að framvísa íbúakorti. Því sé ljóst að Reykjavíkurborg meti stöðu þeirra sem eiga fasteign með bílastæði vera aðra en þeirra sem ekki hafa slíkan aðgang. Taldi umboðsmaður ekki unnt að slá því föstu að í mati Reykjavíkurborgar á mismunandi stöðu íbúa að þessu leyti fælist ólögmæt mismunun. Enn fremur vísaði umboðsmaður til þess að A og B hefði verið leiðbeint um önnur úrræði sem þeim stæði til boða væri stæði þeirra ónothæft sökum aðstæðna. Taldi umboðsmaður því ekki forsendur til að gera athugasemd við málsmeðferð Reykjavíkurborgar í máli þeirra.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 30. september 2021 sem hljóðar svo:

  

    

I

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 10. janúar sl., f.h. B yfir synjun Bílastæðasjóðs frá 8. júní 2020 við umsókn hennar um íbúakort vegna bifreiðarinnar X. Var um­sókninni synjað á þeim grundvelli að skilyrðum reglna nr. 591/2015, um bílastæðakort íbúa í Reykjavík, þess efnis að ekki mætti vera bílastæði á lóð, væri ekki fullnægt þar sem bílskúr fylgir fasteign yðar að Y.

Kvörtunin beindist jafnframt að stöðubrotsgjaldi sem var lagt á 20. mars 2020 vegna þess að bifreið yðar var lagt fyrir framan innkeyrslu að lóð yðar. Þar sem gjaldið var fellt niður og yður boðin endurgreiðsla lauk athugun á þeim þætti málsins með bréfi setts umboðsmanns til yðar, dags. 22. mars sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var Reykjavíkurborg ritað bréf, dags. 22. mars sl., þar sem m.a. var óskað eftir gögnum málsins sem og tilteknum upplýsingum og skýringum. Svör bárust 6. maí sl. Athugasemdir yðar bárust 24. maí sl. Í tilefni af athugasemdum yðar um lyktir málsins að því er varðar álagningu stöðubrotsgjaldsins 20. mars 2020 vísast til bréfs setts umboðsmanns til yðar þar að lútandi og er áréttað að umboðs­manni er ekki ætlað að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.

  

II

Í 2. mgr. 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 er kveðið á um að sveitar­stjórn sé heimilt að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum hennar, sbr. 2. mgr. 83. gr. eldri umferðar­laga nr. 50/1987. Ljóst er af framangreindu orðalagi ákvæðisins að ekki er um að ræða skyldu heldur heimild fyrir sveitarfélög til að setja sér reglur um stöðureiti, m.a. um ívilnandi úrræði fyrir íbúa sem eiga lög­heimili á ákveðnum svæðum í Reykjavík án þess að hafa aðgang að bíla­stæði sem ekki er gjaldskylt. Af þeim sökum hafa sveitarstjórnir visst svigrúm við útfærslu á slíkum reglum.

Með vísan til eldri umferðarlaga samþykkti borgarráð reglur nr. 591/2015, um bílastæðakort íbúa í Reykjavík, sem í gildi voru þegar atvik málsins áttu sér stað. Í reglunum var mælt fyrir um skilyrði til að geta keypt bílastæðakort íbúa. Í 1. lið reglnanna kom fram að íbúar með lögheimili á ákveðnum svæðum í Reykjavík, sbr. 2. lið, þar sem ekki væri bílastæði á lóð gætu sótt um að fá keypt bílastæðakort íbúa. Þá ályktun má draga af framangreindu skilyrði reglnanna og gögnum málsins að tilgangur íbúakorts sé að sé að tryggja að íbúar sem búa á gjald­skyldum svæðum og hafa ekki aðgang að bílastæði hafi aðgengi að stæðum nálægt heimilum sínum.

Hvað varðar athugasemdir yðar um að í framangreindu skilyrði um aðgang að stæði felist mismunum íbúa út frá eignastöðu og því sé verið að brjóta á jafnræði þeirra er rétt að taka fram að í jafnræðisreglunni felst að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sam­bæri­lega úrlausn. Í því tilliti njóta stjórnvöld allt að einu ákveðins svigrúms til mats á því hvaða málefnalegu sjónarmið verði lögð til grundvallar ákvörðunum þeirra. Ljóst er að Reykjavíkurborg hefur metið stöðu þeirra sem eiga fasteign með bílastæði, sem ekki er gjaldskylt, vera aðra en þeirra sem hafa ekki slíkan aðgang og byggt það á framan­greindu sjónarmiði að baki reglna 591/2015. Að þessu virtu og með tilliti til atvika málsins að öðru leyti tel ég ekki unnt að slá því föstu að í fyrrgreindu mati Reykjavíkurborgar á mismunandi stöðu íbúa að þessu leyti felist ólögmæt mismunun.   

Hvað sem framangreindu skilyrði 1. liðar reglna um bílastæðakort íbúa í Reykjavík líður má ráða af gögnum málsins og skýringum sveitar­félagsins til mín að Bílastæðasjóður hafi í einstaka tilvikum í framkvæmd vikið frá umræddu skilyrði fyrir veitingu íbúakorts sé það bílastæði sem sé til staðar ónothæft vegna aðstæðna og hafi aðili skilað inn yfir­lýsingu þess efnis. Við slíkar aðstæður sé gert almennt gjaldskylt bílastæði fyrir framan innkeyrslu og því sé öllum heimilt að leggja í slíkt stæði. Fyrir liggur að yður var leiðbeint um framangreint úrræði af hálfu sveitarfélagsins en kusuð að nýta yður það ekki. Enn fremur liggur fyrir að yður hefur verið bent á að þér getið óskað eftir breytingu á deiliskipulagi sé stæðið ónothæft, sbr. svar umhverfis- og skipu­lagssviðs frá 15. apríl sl.

Eftir athugun mína á framangreindum atriðum, skýringum sveitar­félagsins og því sem fram kemur í kvörtuninni er það niðurstaða mín, að virtu því svigrúmi sem sveitarstjórnir hafa við setningu reglna um stöðu­reiti, að ekki séu efni til að gera athugasemd við þá ákvörðun að synja B um íbúakort á þeim grundvelli að hún hefði þegar aðgang að bílastæði á eigin lóð. Þá má ráða af gögnum málsins og skýringum sveitarfélagsins til mín að það hafi aflað upplýsinga um stæðið sem þér teljið yður ekki geta nýtt yður og lagt mat á aðstæður að öðru leyti. Því eru ekki forsendur af minni hálfu til að gera athugasemd við málsmeðferð í máli yðar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.