Opinberir starfsmenn. Sveitarfélög. Stjórnunarréttur.

(Mál nr. 11188/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir „formlegu leiðbeinandi samtali“ sem henni var gert að eiga við skólastjóra X og mannauðsstjóra sveitarfélagsins Y. Byggðist kvörtunin á því að með því að hafa átt téð samtal við A hafi skólastjórinn tekið stjórnvaldsákvörðun. Var í því sambandi vísað til þess að slík samtöl fælu í sér stjórnsýsluviðurlög sem gætu endað með áminningu og í framhaldinu brottrekstri.

Umboðsmaður benti á að samkvæmt lögum um grunnskóla væri skólastjóri grunnskóla forstöðumaður hans. Hann stjórnaði skólanum, veitti faglega forustu og bæri ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Skólastjóra grunnskóla væri því heimilt, eftir atvikum í samráði við sveitarfélagið, að taka ákvarðanir um starfsemi skólans innan ramma laganna á grundvelli stjórnunarheimilda sinna. Ákvarðanir sem skólastjóri tæki á þessum grundvelli um málefni starfsmanna skólans væru því að jafnaði ekki stjórnvaldsákvarðanir. Þá yrði ekki ráðið af lögum, kjarasamningi eða fyrirliggjandi verklagsreglum Y að formlegt leiðbeinandi samtal skólastjóra við starfsmann hefði réttaráhrif fyrir hann ólíkt því sem við ætti um þá ákvörðun forstöðumanns að áminna opinberan starfsmann.

Taldi umboðsmaður að hvorki yrði litið svo á að formlegt leiðbeinandi samtal á grundvelli verklagsreglna Y væri stjórnvaldsákvörðun né að með því að boða til slíks samtals hefði verið ákveðið að hefja meðferð stjórnsýslumáls. Um væri að ræða verklag sem sveitarfélagið og skólastjórinn hefðu svigrúm til að ákveða á grundvelli stjórnunarheimilda sinna. Taldi hann því ekki efni til að gera athugasemdir við þá stjórnsýslu sem kvartað var yfir.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 27. janúar 2022 sem hljóðar svo:

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 22. júní sl. fyrir hönd A yfir svokölluðu „formlegu leiðbeinandi samtali“ hennar við skólastjóra X og mannauðsstjóra Y 28. ágúst 2020. Kvörtunin byggist á því að með því að hafa átt téð samtal við A hafi skólastjórinn tekið stjórnvaldsákvörðun. Um það er vísað til þess að slík samtöl feli í sér stjórnsýsluviðurlög sem geti endað með áminningu og í framhaldinu brottrekstri. Þá eru færð rök að því að meðferð málsins hafi verið andstæð tilgreindum form- og efnisreglum stjórnsýslu­réttar.

Í tilefni af kvörtun yðar var Y ritað bréf 25. júní sl. og þess óskað að sveitarfélagið afhenti umboðsmanni afrit af öllum gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust með bréfi 16. ágúst sl.

  

II

Um „formleg leiðbeinandi samtöl“ og skriflegar áminningar er fjallað í ítarlegum verklagsreglum Y 23. október 2018. Þar segir að telji forstöðumaður að starfsmaður hafi ekki bætt úr þeirri háttsemi sem var tilefni samtalsins skuli hann tilkynna starfsmanni um „fyrirhugaða og mögulega“ skriflega áminningu. Í framhaldi af því skuli forstöðumaður m.a. veita starfsmanni andmælarétt og rannsaka málið nánar áður en ákveðið er hvort viðkomandi verði áminntur eða ekki. Sé ákveðið að áminna starfsmanninn ekki sé starfsmanni afhent greinargerð og máli þar með lokið.

Af fundarboði 18. ágúst 2020 og fundargerð og bréfi um formlegt leiðbeinandi samtal 28. þess mánaðar verður ráðið að A hafi verið gerð grein fyrir þeim atriðum sem stóð til að ræða um við hana á fundinum. Einnig var hún vöruð við að það væri mat skólastjóra að háttsemi hennar hefði verið í andstöðu við tilgreind ákvæði kjara­samnings og bætti hún ekki úr háttsemi sinni tafarlaust gæti samtalið verið undanfari skriflegrar áminningar. Aftur var fundað um efnisatriði hins formlega leiðbeinandi samtals 3. febrúar sl. og A því næst tilkynnt 10. júní sl. að þar sem að fullu hefði verið bætt úr þeim teldi forstöðumaður ekki ástæðu til frekari aðgerða vegna málsins.

  

III

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, er skólastjóri grunnskóla forstöðumaður hans. Hann stjórnar skólanum, veitir faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 91/2008 kemur fram að ekki þyki rétt að lögbinda stjórnskipulag grunnskóla að öðru leyti en með því að kveða á um skólastjóra eða forstöðumann stofnunar þar sem eðlilegt sé að sveitarfélög og einstakir skólar geti ráðið sjálfir með hvaða hætti stjórnun að öðru leyti sé fyrir komið (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1808).

Í samræmi við þessi ákvæði og almennar reglur er skólastjóra grunnskóla, eftir atvikum í samráði við sveitarfélagið, heimilt að taka ákvarðanir um starfsemi skólans innan ramma laganna á grundvelli stjórnunarheimilda sinna, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 23. september 2019 í máli nr. 9944/2019. Ákvarðanir, sem skólastjóri tekur á þessum grundvelli um málefni starfsmanna skólans, eru að jafnaði ekki stjórnvaldsákvarðanir. Þó eru sumar ákvarðanir forstöðumanns um málefni opinberra starfsmanna slíkar ákvarðanir, þ.á m. ákvörðun um að beita hann stjórn­sýslu­viðurlögum, svo sem áminningu.

Ólíkt því sem á við um þá ákvörðun forstöðumanns að áminna opinberan starfsmann verður ekki ráðið af lögum, kjarasamningi eða fyrir­liggjandi verklagsreglum Y að formlegt leiðbeinandi samtal skólastjóra við starfsmann hafi réttaráhrif fyrir hann. Þvert á móti verður ráðið af ákvæðum kjarasamningsins, sbr. 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, að skrifleg áminning sé að jafnaði skilyrði þess að starfsmanni verði sagt upp störfum ef tilefni uppsagnar er rakið til hans. Þá eru fyrrgreindar verklagsreglur sveitarfélagsins, sem og önnur gögn málsins, skýr um það að bæti starfsmaður ekki úr þeim atriðum sem eru efni formlegs leiðbeinandi samtals verði forstöðumaður þá að ákveða hvort ástæða sé til að hefja mál þar sem til greina kemur að áminna starfsmanninn. Af framangreindum sökum verður því hvorki litið svo á að formlegt leiðbeinandi samtal á grundvelli áðurnefndra verklagsreglna sé stjórnvalds­ákvörðun né að með því að boða til slíks samtals hafi verið ákveðið að hefja meðferð stjórnsýslumáls, heldur er um að ræða verklag sem sveitarfélagið og skólastjóri hafa svigrúm til að ákveða á grundvelli stjórnunarheimilda sinna.

Þótt ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi samkvæmt framangreindu ekki um formlegt leiðbeinandi samtal á grundvelli verklagsreglna sveitarfélagsins eiga óskráðar meginreglur stjórnsýslu­réttarins eftir sem áður við um það eins og aðrar ráðstafanir á grundvelli stjórnunarheimilda forstöðumanns. Af kvörtun yðar sem og gögnum málsins verður hins vegar ekkert ráðið sem gefur til kynna að skólastjóri X hafi brotið í bága við þær reglur með því að eiga samtal við starfsmann skólans um frammistöðu hans í starfi, enda þótt um framkvæmd samtalsins hafi verið settar verklagsreglur af hálfu sveitarfélagsins og því verið gefið heitið „formlegt leiðbeinandi samtal“. Tel ég því ekki efni til að gera athugasemdir við þá stjórnsýslu sem kvartað er yfir.

  

IV

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. a- og b-liði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.