Lögreglu- og sakamál. Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 10787/2020)

Kvartað var yfir lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytinu vegna samskipta um gögn og upplýsingar. Ennfremur voru gerðar athugasemdir við fyrri afgreiðslu umboðsmanns á máli viðkomandi.

Niðurstaða umboðsmanns var að ekki væru forsendur til að gera athugasemdir við afgreiðslu stjórnvalda. Hvað athugasemdir um afgreiðslu umboðsmanns sjálfs snerti voru fyrri kvartanir viðkomandi og afgreiðslur þeirra reifaðar og ítrekað að þar hefði verið staðið rétt að málum.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til erinda yðar er bárust mér 2., 3. og 6. nóvember sl. Af þeim og gögnum málsins má ráða að þér kvartið yfir lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytinu.

Í fyrsta lagi kvartið þér yfir því að lögreglustjórinn hafi ekki orðið við beiðni yðar frá því í júní 2019 um að afhenda yður kæruskýrslu yðar í máli nr. [....] ásamt fylgigögnum, sem ítrekuð var með bréfum, dags. 8. febrúar, 27. maí og 29. nóvember 2020.

Í öðru lagi kvartið þér yfir því að beiðni yðar, dags. 22. júní sl., um staðfestingu lögreglustjórans á móttöku framangreindrar kæruskýrslu yðar ásamt fylgigögnum, sem þér afhentuð 11. nóvember 2013, hafi ekki verið svarað. Samkvæmt gögnum málsins var erindið ítrekað 25. nóvember sl.

Í þriðja lagi kvartið þér yfir því að lögreglustjórinn hafi ekki afhent yður skýrslur um handtöku yðar hinn 13. apríl 2002, í máli nr. [...], í kjölfar beiðni yðar þar um, dags. 8. febrúar 2020, sem ítrekuð var 27. maí sl., 5. október sl. og 29. nóvember sl.

Í fjórða lagi kvartið þér yfir því að hafa ekki fengið afrit eða uppritun af tilkynningu yðar til Neyðarlínunnar hinn 13. apríl 2002 sem þér óskuðuð eftir með bréfi til lögreglustjórans í júní 2019 og 8. febrúar 2020. Af gögnum málsins verður ráðið að síðastnefnda beiðnin hafi verið ítrekuð 27. maí sl. og 29. nóvember sl. sem og að þér hafið sent dómsmálaráðuneytinu beiðni um að afhenda yður sömu gögn með bréfum, dags. 9. maí 2018 og 3. febrúar 2020. Lögmaður yðar hafi enn fremur sent fyrirspurn um umrædda tilkynningu yðar til Neyðarlínunnar 8. júní 2019.

Í fimmta lagi má enn fremur ráða af kvörtun yðar að þér séuð ósáttar við svör dómsmálaráðuneytisins, dags. 16. janúar 2019, og ríkislögreglustjóra, dags. 14. febrúar sl., í tengslum við afhendingu tiltekinnar skýrslu um handtöku yðar hinn 13. apríl 2002. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að því að stjórnvöldin hafi veitt yður mismunandi svör í þessum efnum.

Í sjötta lagi kvartið þér yfir því að ríkislögreglustjóri hafi ranglega fullyrt í tölvubréfi til yðar, dags. 6. nóvember sl., að embættið hafi ekki haft aðkomu að máli nr. 010-2002-15705.

Að endingu má af kvörtun yðar ráða að þér gerið athugasemdir við fyrri afgreiðslu umboðsmanns Alþingis í máli yðar. Í tölvupósti yðar, dags. 6. nóvember sl., kemur nánar tiltekið eftirfarandi fram: „Kvörtun [A] barst umboðsmanni Alþingis innan árs frá því er ríkissaksóknari staðfesti ranga ákvörðun lögreglustjóra þann 28. febrúar 2014“. Af framangreindu má ráða að þér teljið að umboðsmaður hafi ranglega vísað kvörtun yðar, er laut að ákvörðun ríkissaksóknara hinn 28. febrúar 2014, frá á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

II

1

Í upphafi vík ég að því kvörtunarefni yðar sem beinist að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og lýtur nánar tiltekið að því að hann hafi ekki afhent yður afrit af kæruskýrslu yðar og skjöl er henni fylgdu í máli nr. [...]. Í bréfi lögreglustjórans til yðar, dags. 12. júní sl., er tekið fram að meðfylgjandi því sé umrædd kæruskýrsla og þau fylgigögn er þér afhentuð embættinu.

Í samtali við starfsmann skrifstofu minnar hinn 25. nóvember sl. kom fram að þér telduð yður ekki hafa fengið rétta kæruskýrslu og gögn afhent í júní sl. Annar starfsmaður skrifstofu minnar ræddi við yður símleiðis hinn 29. janúar sl. og óskaði eftir upplýsingum um hvort þér hefðuð komið því á framfæri við lögreglustjórann að þér telduð yður ekki hafa fengið rétt gögn afhent. Af samtalinu mátti ráða að þér hefðuð einungis ítrekað erindi yðar um afhendingu gagnanna en ekki tekið sérstaklega fram við lögreglustjórann að þér telduð yður ekki hafa fengið rétt gögn afhent.

Í þessum efnum hefur það verið afstaða umboðsmanns Alþingis að rétt sé að stjórnvald fái tækifæri til að bregðast við umkvörtunarefni áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar, sé öðrum skilyrðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að öðru leyti fullnægt. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þér hafið komið þeim sjónarmiðum á framfæri við lögreglustjórann að þér teljið hann ekki hafa afgreitt beiðni yðar með réttum hætti og afhent yður röng gögn í júní sl. Ég tel því rétt að þér berið athugasemdir yðar að þessu leyti undir lögreglustjórann sjálfan þannig að hann fái tækifæri til að bregðast við þeim.

Með vísan til alls framangreinds tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar að þessu leyti til frekari skoðunar að svo stöddu. Fari svo að þér beinið athugasemdum yðar að þessu leyti að lögreglustjóranum og teljið yður enn beitta rangsleitni að því loknu getið þér, að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar, leitað til mín á ný innan árs, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Annar kvörtunarliður yðar á hendur lögreglustjóranum lýtur að því að erindi yðar frá 22. júní sl., þar sem þér óskuðuð eftir staðfestingu á móttöku kæruskýrslu yðar ásamt fylgigögnum í máli nr. [...], hafi ekki verið svarað. Í kjölfar samtals við starfsmann skrifstofu minnar hinn 29. janúar sl. senduð þér skrifstofu minni gögn um staðfestingu lögreglustjórans, dags. 3. desember sl. Í ljósi þess að þér hafið nú fengið umrædda staðfestingu frá lögreglustjóranum tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan þátt málsins.

Hvað varðar þriðja lið kvörtunar yðar á hendur lögreglustjóranum, sem lýtur að afhendingu tiltekinna gagna í máli nr. [...], er til þess vísað í bréfi lögreglustjórans, dags. 12. júní sl., að gögn í málinu hafi verið send yður hinn 24. janúar 2018 með bréfpósti á heimilisfangið [...] í kjölfar beiðni yðar frá 15. janúar 2017. Það er síðan áréttað í bréfi lögreglustjórans til yðar, dags. 7. desember sl., og að beiðni yðar að þessu leyti teljist því afgreidd. Enn fremur má af svarbréfi lögreglustjórans til yðar, dags. 3. desember sl., ráða að yður hafi verið send skýrsla í máli frá 13. apríl 2002 með því bréfi.

Í samtali við starfsmann skrifstofu minnar hinn 25. nóvember sl. kom fram að þér telduð yður ekki hafa fengið afrit af tiltekinni handtökuskýrslu í janúar 2018. Í ódagsettu skjali sem barst skrifstofu minni frá yður hinn 29. janúar sl. vefengið þér svör lögreglustjórans frá 12. júní sl. Þá vísið þér til þess að þér teljið yður einungis hafa fengið eina skýrslu afhenta af tveimur hinn 3. desember sl.

Ég dreg þá ályktun af framangreindu skjali yðar og af áðurnefndu samtali yðar við starfsmann skrifstofu minnar að þér teljið yður ekki hafa fengið rétta skýrslu senda hinn 24. janúar 2018. Jafnframt að þér hafið einungis fengið eina skýrslu af tveimur afhenta hinn 3. desember sl. Aftur á móti bera gögn málsins þess ekki merki að þér hafið komið því á framfæri við lögreglustjórann annars vegar að hafa ekki fengið rétta skýrslu senda hinn 24. janúar 2018 og hins vegar að þér teljið yður ekki hafa fengið öll umbeðin gögn afhent hinn 3. desember sl.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem að framan eru rakin tel ég rétt að þér beinið athugasemdum yðar til lögreglustjórans að þessu leyti og veitið honum færi á að bregðast við þeim. Fari svo að þér leitið til lögreglustjórans með athugasemdir yðar og teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni afstöðu hans getið þér, að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar, leitað til mín á ný innan árs, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

  

2

Hvað varðar þann hluta kvörtunar yðar er lýtur að beiðni yðar um afhendingu afrits eða uppritunar af tilkynningu yðar til Neyðarlínunnar hinn 13. apríl 2002 sem þér senduð til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dómsmálaráðuneytisins og Neyðarlínunnar er í bréfi lögreglustjórans til yðar, dags. 12. júní sl., tekið fram að ríkissaksóknari hafi áður svarað erindi yður að þessu leyti og kannað tilvist umbeðinna gagna í tvígang. Gerð hafi verið tilraun til að endurheimta gögn af segulspólum en sú tilraun hafi ekki tekist. Ríkissaksóknari hafi því komist að þeirri niðurstöðu að gögnin væru ekki til og þér upplýstar um það í bréfum, dags. 9. október 2015 og 2. nóvember 2016. Í niðurlagi bréfsins er til þess vísað að lögreglustjóranum sé í ljósi framangreinds ómögulegt að láta yður í té umbeðin gögn. Afstaða lögreglustjórans hafi verið áréttuð í bréfi hans til yðar, dags. 7. desember sl.

Í áðurnefndu skjali yðar sem barst skrifstofu minni hinn 29. janúar sl. vísið þér til þess að svör þessi standist ekki skoðun. Í þeim efnum vísið þér m.a. til fyrri svara lögreglustjórans frá árinu 2013. Þar hafi komið fram að eldri símtöl séu vistuð í bankahólfi og að nokkur kostnaður fylgi því að finna þau.

Af gögnum málsins má ráða að dómsmálaráðuneytið hafi einnig svarað beiðni yðar að þessu leyti í tvígang og upplýst yður um með bréfum, dags. 16. janúar 2019 og 6. október sl., að það hefði ekki aðgang að uppritun símtala Neyðarlínunnar og að það gæti því ekki orðið við beiðni yðar um afhendingu umræddra gagna. Yður hafi jafnframt verið leiðbeint um að leita til Neyðarlínunnar. Að endingu má af gögnum málsins ráða að lögmaður yðar hafi fengið þau svör frá Neyðarlínunni hinn 8. ágúst 2019 að umrædd gögn séu ekki til.

Með hliðsjón af framangreindu get ég ekki betur séð en að framangreindir aðilar hafi svarað erindum yðar eftir bestu getu. Samkvæmt því sem kemur fram í svörum þeirra til yðar var gerð árangurslaus tilraun til að endurheimta gögn af segulspólum frá þessum tíma í kjölfar beiðni yðar. Ekki hafi því verið hægt að verða við beiðninni.

Að virtum fyrirliggjandi gögnum málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til að rengja að upptökurnar liggi ekki fyrir. Í því sambandi tek ég fram að ég tel þau svör er þér fenguð frá lögreglustjóranum 13. september 2013 um að eldri símtöl séu geymd í bankahólfi og að nokkur kostnaður fylgi því að nálgast þau ekki hafa þýðingu í þessum efnum, enda ljóst að í kjölfar þeirra hafi verið reynt að nálgast umrædda tilkynningu á segulspólum og það ekki gengið eftir.

Í þessum efnum hef ég einnig hliðsjón af því að í lögum nr. 25/1995, um samræmda neyðarsímsvörun, sem í gildi voru á þeim tíma sem um ræðir, kemur fram í 6. gr. að vaktstöð skuli skrá og hljóðrita tilkynningar sem þangað berast og að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um geymslu og notkun skránna. Í reglugerð nr. 570/1996, um framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar, segir í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. að hljóðritanir skuli varðveita í a.m.k. tvo mánuði eftir upptöku. Af lögunum og reglugerð nr. 570/1996 má ráða að Neyðarlínunni hafi einungis verið skylt að geyma afrit af umræddu símtali yðar í tvo mánuði.

Í ljósi framangreinds og þess að erindum yðar að þessu leyti hefur verið svarað af hálfu stjórnvalda tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þennan þátt kvörtunar yðar.

  

3

Að því er varðar þann hluta kvörtunar yðar sem beinist að dómsmálaráðuneytinu annars vegar og ríkislögreglustjóra hins vegar og því að stjórnvöldin hafi veitt yður mismunandi svör við erindum yðar, er varða tiltekna skýrslu um handtöku yðar 13. apríl 2002, má af gögnum málsins ráða að þér senduð þáverandi dómsmálaráðherra bréf, dags. 9. maí 2018, þar sem þér fóruð þess á leit að ráðherra myndi krefja ríkissaksóknara um að láta yður í té skýrslu ríkislögreglustjóra.

Í svarbréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 16. janúar 2019, kemur fram að ráðuneytið hafi ekki umrædda skýrslu ríkislögreglustjóra undir höndum. Í bréfinu er yður jafnframt leiðbeint um að leita til embættis ríkislögreglustjóra.

Af gögnum málsins má ráða að þér hafið í kjölfarið haft samband við ríkislögreglustjóra sem hafi upplýst yður um í tölvupósti, dags. 14. febrúar 2020, að málið hafi verið á forræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Ríkislögreglustjóri hafi leiðbeint yður um að hafa samband við lögreglustjórann til að fá afrit af gögnum sem og um hvaða gögn þér gætuð nálgast hjá ríkislögreglustjóra.

Af gögnum málsins, nánar tiltekið bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til yðar, dags. 12. júní sl., má ráða að á þessum tíma höfðuð þér þegar óskað eftir gögnum í máli nr. [...] hjá lögreglustjóranum með beiðni, dags. 15. janúar 2017.

Að öllu framangreindu virtu tel ég mig ekki hafa forsendur til annars en að ganga út frá því að dómsmálaráðuneytið og ríkislögreglustjóri hafi svarað erindum yðar að þessu leyti eftir bestu getu. Ráðuneytið hafi engar upplýsingar haft um umrædda skýrslu nema þær sem stöfuðu frá yður. Ráðuneytið hafi í samræmi við það leiðbeint yður um að leita eftir umræddu gagni hjá því embætti sem þér tölduð að gagnið stafaði frá. Í kjölfarið hafi ríkislögreglustjóri upplýst yður um að málið hefði verið á forræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og yður leiðbeint um að leita til embættisins.

Með hliðsjón af framangreindu og því hvernig þessi hluti málsins liggur fyrir mér tel ég ekki tilefni til að taka þetta atriði til frekari athugunar.

     

4

Kvörtun yðar yfir því að ríkislögreglustjóri hafi ranglega fullyrt um að hann hafi ekki haft aðkomu að máli nr. [...] er ekki fyllilega skýr. Að því marki sem þetta atriði í kvörtuninni byggist á því að handtökuskýrslan sé rituð á eyðublað merkt ríkislögreglustjóra bendi ég á að af 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 leiðir að ríkislögreglustjóri fer með tiltekið samhæfingar- og samræmingarhlutverk gagnvart lögreglustjóraembættum. Í samræmi við það var í 2. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 395/1997, um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu, mælt fyrir um að handtöku- og vistunarskýrslur lögreglu skyldu færðar í stöðluðu formi samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjóra.

Sambærilegt ákvæði er nú að finna í 3. mgr. 20. gr. gildandi reglugerðar nr. 651/2009, um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. Þá hefur ríkislögreglustjóri umsjón með og annast rekstur miðlægra upplýsingakerfa lögreglu og heldur m.a. skrá yfir handtekna menn, sbr. i-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1996 og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 577/2020, um skrár lögreglu og vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, sbr. áður 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 322/2001, um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, svo sem kom fram í samskiptum yðar við starfsmann ríkislögreglustjóra.

Að öðru leyti verður ekki ráðið að hvaða leyti þér teljið ríkislögreglustjóra hafa haft aðkomu að umræddu máli sem varðaði handtöku yðar og hvaða áhrif fullyrðing um annað hafi á hagsmuni yðar. Ég tel því ekki tilefni til að taka þetta atriði til frekari athugunar á grundvelli kvörtunar yðar.

  

5

Að endingu vík ég að athugasemdum yðar sem virðast varða það að umboðsmaður Alþingis hafi vísað kvörtun yðar yfir ríkissaksóknara og ákvörðun hans, dags. 28. febrúar 2014, í máli nr. [...], frá á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í upphafi tel ég rétt að taka fram að það leiðir af lögum nr. 85/1997 að umboðsmaður Alþingis er sjálfstæður og óháður í störfum sínum og ber einn ábyrgð á afgreiðslu þeirra mála sem honum eru falin. Hið sama á við um þá sem settir eru í embættið tímabundið. Það er því ekki gert ráð fyrir því í lögum um umboðsmann Alþingis að settur umboðsmaður taki þau mál sem kjörinn, eða annar settur umboðsmaður, hefur fjallað um til endurskoðunar.

Í kvörtun yðar að þessu leyti er ekki vísað í tiltekið málsnúmer. Þau gögn sem þér senduð með þessum hluta erindis yðar vísa til kvörtunar sem móttekin var hjá umboðsmanni hinn 2. maí 2014. Af gögnum málsins og málaskrá embættisins má ráða að um sé að ræða mál er fékk númerið 7982/2014 í málaskrá embættisins og lauk með bréfi setts umboðsmanns til yðar, dags. 12. júní 2014.

Eftir að hafa kynnt mér framangreint mál get ég ekki betur séð en að málinu hafi verið vísað frá á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 í ljósi þess að þér leituðuð til innanríkisráðherra hinn 28. maí 2014 með erindi, þ.e. eftir að þér kvörtuðuð til umboðsmanns. Settur umboðsmaður hafi talið erindi yðar til annars vegar hans og hins vegar ráðherra hafa í megindráttum lotið að sömu atriðum. Hann hafi því talið, með hliðsjón af sjónarmiðum er búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, að ekki væri tímabært fyrir hann að taka kvörtunarefni yðar til frekari athugunar í ljósi þess að málið var enn til meðferðar innan stjórnsýslunnar.

Af málaskrá umboðsmanns Alþingis má ráða að þér kvörtuðuð einnig til umboðsmanns hinn 25. september 2015. Sú kvörtun hafi hlotið númerið 8647/2015 í málaskrá embættisins og lotið að innanríkisráðuneytinu og drætti á svörum þess sem og inntaki svarbréfs þess við áðurnefndu erindi yðar. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við afgreiðslu innanríkisráðuneytisins á erindi yðar og lauk því máli yðar að þessu leyti með bréfi, dags. 29. október 2015.

Kvörtun yðar á sínum tíma virðist hafa verið skilin sem svo að hún lyti að framangreindri afstöðu innanríkisráðuneytisins en ekki ákvörðun ríkissaksóknara, enda einungis vísað til þess í kvörtuninni að hún beindist að ráðuneytinu sjálfu og afstöðu þess. Ég sé þess ekki merki í gögnum málsins eða af skráningu þess að öðru leyti í málaskrá embættisins að þér hafið gert athugasemdir við úrlausn umboðsmanns að þessu leyti á sínum tíma.

Að síðustu má af málaskrá embættisins sjá að þér kvörtuðuð til umboðsmanns hinn 7. október 2017 yfir meðal annars ríkissaksóknara. Mál yðar hafi fengið númerið 9474/2017 í málaskrá embættisins. Þeim hluta kvörtunar yðar er laut að ríkissaksóknara hafi verið vísað frá með vísan til þess að ársfrestur samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 hafi verið liðinn. Ekki verður annað séð en að þegar kvörtun yðar barst 7. október 2017 hafi verið liðin rúmlega 2 ár frá því að þér fenguð svör frá innanríkisráðuneytinu við framangreindu erindi yðar og rúmlega 3 ár frá ákvörðun ríkissaksóknara.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin eru hér að framan um sjálfstæði þess sem gegnir embætti umboðsmanns Alþingis hverju sinni tel ég mig ekki geta endurskoðað framangreindar úrlausnir í málum yðar efnislega. Þá er ljóst að lögum samkvæmt eru ekki skilyrði til þess að ég geti tekið ákvörðun ríkissaksóknara frá 28. febrúar 2014 til skoðunar á grundvelli kvörtunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, enda er ársfrestur laganna fortakslaus. Auk þess tel ég ekki tilefni til að taka mál yðar að þessu leyti til meðferðar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, enda hefur umboðsmaður litið svo á í framkvæmd að rétt sé að nýta heimild 5. gr. einkum til að taka til athugunar að eigin frumkvæði mál sem hafa verulega almenna þýðingu og horfa til umbóta í stjórnsýslunni til framtíðar. Hér hef ég einnig í huga að umrætt mál yðar var til lykta leitt fyrir allnokkru síðan.

  

III

Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson