Málefni fatlaðs fólks. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11412/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn um styrk. Jafnframt laut kvörtunin að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs sveitarfélagsins um að synja um styrk af sama tilefni.  

Þar sem synjun áfrýjunarnefndarinnar hafði ekki verið skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála og kæruleið þannig tæmd voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina hvað það snerti. Þar sem efni þeirrar ákvörðunar laut að sömu atvikum og fjallað hafði verið um úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar, taldi umboðsmaður rétt að bíða með að taka kvörtunina til frekari athugunar þar til niðurstaða nefndarinnar lægi aftur fyrir.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. janúar 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 20. nóvember sl. sem lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 294/2021 frá 16. september sl. Í þeim úrskurði staðfesti nefndin ákvörðun Reykjavíkurborgar 19. maí sl. um að synja umsókn yðar um styrk á grundvelli 24. gr. þá­gildandi reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til að greiða fyrir dvöl yðar á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hvera­gerði. Jafnframt lýtur kvörtun yðar að ákvörðun áfrýjunefndar vel­ferðar­ráðs sveitarfélagsins 29. september sl. um að synja yður um styrk fyrir sömu dvöl en sú ákvörðun var reist á a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. apríl sl.

Í rökstuðningi velferðarráðs Reykjavíkurborgar 26. október sl., vegna síðastnefndrar ákvörðunar, var vakin athygli á því að þér gætuð skotið ákvörðuninni til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða. Í símtali við starfsmann minn 3. janúar sl. tókuð þér fram að þér hygðust kæra ákvörðunina til nefndarinnar. Með tölvubréfi 9. janúar sl. staðfestuð þér að ákvörðunin hefði verið kærð.

Ástæða þess að þetta er rakið er að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðs­manns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórn­völd skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af ákvæðinu leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið fyrir af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar.

Í ljósi framangreinds eru ekki uppfyllt skilyrði til að fjalla um kvörtun yðar að því marki sem hún beinist að ákvörðuninni frá 29. september sl. Þar sem efni þeirrar ákvörðunar snertir sömu atvik og fjallað var um í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 16. september sl. tel ég rétt að bíða með að taka kvörtun yðar yfir honum til frekari athugunar þar til niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir í tilefni af kæru yðar á ákvörðuninni frá 29. sama mánaðar. Ef þér teljið ástæðu til, að fenginni niðurstöðu nefndarinnar í síðastnefndu máli, getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun yfir úrskurðum nefndarinnar. Ef kvörtun yðar þá berst að liðnum ársfresti 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 að því snertir úrskurð nefndarinnar 16. september sl. en án ástæðulausra tafa frá uppkvaðningu úrskurðar í málinu sem nú er til meðferðar verður litið svo á að ársfresturinn standi því ekki í vegi að kvörtunin verði tekin til athugunar.

Með vísan til alls framangreinds lík ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.