Máli lokið með bréfi, dags. 9. nóvember 1992.
X bar fram kvörtun f.h. A út af meðferð og niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í ágreiningsmáli A og fyrrverandi eiginkonu hans, B, um forsjá barna þeirra C og D.
A taldi í fyrsta lagi að ekki hefði átt að taka við skýrslu móðursystur konunnar, en A áleit skýrsluna meiðandi og særandi í sinn garð. Umboðsmaður benti á, að málsaðilar ættu rétt á því að koma að gögnum og upplýsingum til þess að upplýsa málsatvik. Bæri stjórnvaldi að taka á móti öllum gögnum frá aðilum, sem almennt væru til þess fallin að upplýsa mál. Stjórnvaldi bæri hins vegar að hafna viðtöku á gögnum, sem væru óviðkomandi því stjórnsýslumáli, er í hlut ætti. Þó að umrædd skýrsla móðursystur konunnar hefði ekki verið til þess fallin að koma að gagni við úrlausn málsins, hefði hún snert málið engu að síður og taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til að gagnrýna ráðuneytið fyrir að hafa tekið við henni, en óumdeilt væri, að A hefði fengið aðgang að skýrslunni og tækifæri til að tjá sig um hana.
Í öðru lagi kvartaði A yfir því, að málinu hefði ekki verið vísað til Barnaverndarráðs Íslands. Umboðsmaður áréttaði, að á stjórnvöldum hvíldi sú skylda að afla fullnægjandi upplýsinga um málsatvik, áður en það afgreiddi mál. Á stjórnvöldum hvíldi hins vegar einnig sú skylda að afgreiða mál svo fljótt sem unnt væri. Takmarkist því rannsókn máls við það að afla þeirra upplýsinga, sem almennt yrði að telja nauðsynlegar til þess að hægt væri að taka rétta ákvörðun í málinu. Bæri að forðast að draga mál á langinn með því að afla umsagna og gagna, sem lítil þörf er á. Með tilliti til þeirra upplýsinga og gagna, sem aflað hafði verið, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til athugasemda við þá ákvörðun ráðuneytisins að tefja ekki úrlausn málsins, eins og á stóð, með því að afla umsagnar Barnaverndarráðs Íslands, enda væri ekki lögboðið að afla skyldi slíkrar umsagnar.
Í þriðja lagi kvartaði A yfir því, að rökstuðningur úrskurðar ráðuneytisins í málinu væri haldinn annmörkum, þar sem ekki væri vikið að því, hvers vegna niðurstaða barnaverndarnefndar hefði ekki verið lögð til grundvallar. Umboðsmaður gerði grein fyrir þeim kröfum, sem gera bæri til efnis rökstuðnings úrskurða ráðuneytisins í forsjármálum. Taldi hann, að úrskurður ráðuneytisins uppfyllti almennt þessar kröfur. Hins vegar taldi hann, að æskilegt hefði verið, eins og málið var vaxið, að skýrar hefði komið fram, hvaða sjónarmið lágu til grundvallar því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið komst að annarri niðurstöðu í málinu en meirihluti barnaverndarnefndar.
Í fjórða lagi kvartaði A yfir því, að ekki hefði verið tekin afstaða af hálfu ráðuneytisins til þeirrar kröfu sinnar, að þau hjónin fengju hvort sitt barnið til forsjár. Þar sem ekki varð séð af gögnum máls, að slík krafa hefði verið gerð, taldi umboðsmaður ekki tilefni til athugasemda við þennan þátt málsins.
Í fimmta lagi kvartaði A yfir því, að úrskurður ráðuneytisins væri byggður á ólögmætum sjónarmiðum. Á því væri byggt, að umgengni barna og móður myndu ganga erfiðar og valda meira álagi á börnin en umgengni föður og barna, ef forsjá yrði falin móður. Umboðsmaður benti á, að í VIII. kafla þágildandi barnalaga nr. 9/1981 væri mælt fyrir um gagnkvæman umgengnisrétt foreldra og barna. Í 1. mgr. 40. gr. laganna kæmi fram, að barnið ætti rétt á umgengni við það foreldri sitt, sem ekki hefði forsjá þess, og væri foreldrinu skylt að rækja umgengni og samneyti við barn sitt. Þessi réttur foreldra og barna nyti sérstakrar verndar samkvæmt 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Með þetta í huga féllst umboðsmaður ekki á, að við ákvörðun forsjár, hefði verið óheimilt að líta til þess sjónarmiðs, hvernig ætla mætti, að umgengnisréttur yrði sem greiðastur við það foreldri, sem ekki fengi forsjána. Þá taldi A, að óheimilt hefði verið að byggja á því, að ungur aldur barnanna mælti með því, að konunni yrði fengin forsjá þeirra. Umboðsmaður taldi að skilja yrði rökstuðning úrskurðarins svo, að byggt hefði verið á því sjónarmiði, að það mælti með því, að forsjá barnanna yrði falin því foreldri, sem börnin töldust tengdari og háðari. Hefði það verið heimilt, enda hefði ráðuneytinu borið að líta meðal annars til þess, hvaða skipan forsjá barnanna hentaði hag þeirra og þörfum best, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 9/1981. Þá taldi A einnig, að óheimilt hefði verið að byggja á því sjónarmiði, að góð reynsla hefði komist á skipan forsjárinnar í höndum móðurinnar. Umboðsmaður féllst ekki á, að óheimilt hefði verið að líta til þess við forsjárskipan hvaða reynsla hefði fengist af bráðabirgðaforsjá. Hins vegar féllst hann á það með A, að þar sem forsjármál drægjust oft mjög á langinn, án þess að aðilar gætu þar nokkuð að gert, gæti þetta sjónarmið oft verið óhagstætt því foreldri, sem ekki færi með bráðabirgðaforsjána. Taldi umboðsmaður þetta sýna, hve brýnt það væri, að ekki tæki langan tíma að afgreiða forsjármál. Að síðustu taldi A, að óheimilt hefði verið að byggja á því sjónarmiði, að það mælti með forsjá í höndum móður, að börnin mundu þá áfram búa á sínu gamla heimili og því yrði minni röskun á högum þeirra en ella. Umboðsmaður féllst heldur ekki á, að óheimilt hafi verið að líta til þessa sjónarmiðs og ekki yrði séð af málsgögnum, að því hefði verið gefið meira vægi en efni stóðu til.
Loks kvartaði A yfir því í sjötta lagi, hve langan tíma það tók að afgreiða málið hjá barnaverndarnefnd og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Umboðsmaður taldi að koma yrði í veg fyrir ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu þessara mála. Áleit hann sérstaka ástæðu til að málum þessum væri hraðað bæði af tilliti til barna og foreldra. Bæri þar einnig að hafa í huga, að aðstæður þær, sem ákvörðun um forsjá byggðist á, breyttust gjarnan undir rekstri máls, þegar afgreiðsla þess tæki langan tíma.
I.
Héraðsdómslögmaðurinn X bar fram kvörtun f.h. A út af meðferð og niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í ágreiningsmáli A og fyrrverandi eiginkonu hans, B, um forsjá barna þeirra C og D, sbr. úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. mars 1992.
Kvörtun A beindist fyrst og fremst að eftirtöldum atriðum:
1) Að tekið hefði verið við skýrslu móðursystur konunnar, en A taldi skýrsluna meiðandi og særandi í sinn garð.
2) Að málinu hefði ekki verið vísað til Barnaverndarráðs Íslands.
3) Að rökstuðningur úrskurðar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. mars 1992, væri haldinn annmörkum, þar sem ekki væri vikið að því, hvers vegna niðurstaða barnaverndarnefndar hefði ekki verið lögð til grundvallar.
4) Að ekki hefði verið tekin afstaða af hálfu ráðuneytisins til þeirrar kröfu mannsins, að hjónin fengju hvort sitt barnið til forsjár.
5) Að úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. mars 1992, væri byggður á ólögmætum sjónarmiðum, en þar væri byggt á því:
a) Að líkur væru taldar til þess, að umgengni barna og móður myndu ganga erfiðar og valda meira álagi á börnin en umgengni föður og barna, ef forsjá yrði falin móður, vegna þess meðal annars að maðurinn væri haldinn reiði í garð konunnar.
b) Að réttara væri að fela móðurinni forsjá barnanna vegna ungs aldurs þeirra.
c) Að góð reynsla hefði komist á skipan forsjárinnar í höndum móðurinnar.
d) Að það mælti með forsjá í höndum móður, að börnin myndu þá áfram búa á sínu gamla heimili og því yrði minni röskun á högum þeirra en ella.
6) Að of langan tíma hefði tekið að afgreiða málið hjá barnaverndarnefnd og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
Með bréfi, dags. 15. apríl 1992, óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið skýrði afstöðu sína til kvörtunarinnar og léti mér í té þau gögn, er málið snertu. Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst mér í bréfi, dags. 19. ágúst 1992. Með bréfi, dags. 25. ágúst 1992, gaf ég A síðan kost á að gera athugasemdir við fyrrnefnt bréf ráðuneytisins. Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 4. september 1992.
Í bréfi mínu, dags. 9. nóvember 1992, gerði ég X svohljóðandi grein fyrir niðurstöðum mínum í máli A:
II.
„1. Viðtaka skýrslu móðursystur konunnar.
Í fyrsta lagi er kvartað yfir því, að tekið hafi verið við skýrslu móðursystur konunnar, en þér teljið að skýrslan sé meiðandi og særandi í garð [A].
Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 1992, segir svo um þetta atriði:
"Vegna ummæla í bréfi lögmanns mannsins um að í niðurstöðu úrskurðar ráðuneytisins um forsjá barnanna til bráðabirgða hafi verið vitnað til greinargerðar [móðursystur konunnar] óskar ráðuneytið að taka fram, að vísun til greinargerðar þessarar í umræddum úrskurði gæti gefið ástæðu til að ætla að á henni hafi verið byggt, eða hún lögð til grundvallar í málinu. Ráðuneytið vill sérstaklega taka fram, að svo var ekki, enda styðst ráðuneytið við þá meginreglu, að leggja ekki til grundvallar úrskurðum skýrslur og yfirlýsingar sem fram koma af hálfu aðstandenda aðila eða annarra aðila tengdum þeim."
Áður en ákvörðun er tekin í máli, ber stjórnvaldi að sjá til þess að málsatvik séu nægjanlega upplýst. Aðilar máls eiga rétt á því að koma að gögnum og upplýsingum til þess að upplýsa málsatvik. Ber stjórnvaldi að taka á móti öllum gögnum frá aðilum, sem almennt eru til þess fallin að upplýsa mál. Stjórnvaldi ber hins vegar að hafna viðtöku á gögnum, sem eru óviðkomandi því stjórnsýslumáli, er í hlut á.
Umrædd skýrsla móðursystur konunnar var ekki til þess fallin að koma að gagni við úrlausn málsins, enda var að sögn ráðuneytisins ekki á henni byggt. Skýrslan snerti málið engu að síður og tel ég ekki ástæðu til að gagnrýna dóms- og kirkjumálaráðuneytið fyrir að hafa tekið við henni. Er óumdeilt, að maðurinn fékk aðgang að þessari skýrslu og tækifæri til að tjá sig um hana. Af þessum sökum tel ég ekki ástæðu til athugasemda af minni hálfu við þennan þátt málsins.
2. Málinu var ekki vísað til Barnaverndarráðs Íslands.
Þá er kvartað yfir því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi ekki vísað málinu til Barnaverndarráðs Íslands til þess að fá úr því skorið, hvort umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur væri nægilega vel unnin.
Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 1992, segir svo um þetta atriði:
"Ástæða þess að ráðuneytið leitaði ekki að eigin frumkvæði umsagnar barnaverndarráðs í umræddu máli er sú, að ráðuneytið taldi sig hafa þær upplýsingar, er það þyrfti til þess að taka ákvörðun í málinu. Ráðuneytið hefði hins vegar að öllum líkindum orðið við óskum aðila málsins, annars eða beggja, um að senda það til umsagnar barnaverndarráðs hefðu af þeirra hálfu komið fram um það óskir, en svo var ekki.
Ráðuneytið bendir sérstaklega á í þessu sambandi, að í bréfi lögmanns mannsins til ráðuneytisins, dags. 21. janúar 1992, segir, að af hálfu konunnar hafi verið vikið að hugsanlegri ósk um að mál aðila fengi meðferð hjá barnaverndarráði. Því sé hins vegar alfarið mótmælt að málinu verði vísað til barnaverndarráðs. Af þessu, svo og öðrum ummælum í bréfi lögmannsins, hlýtur að mega ráða, að hann hefur á því tímamarki talið málið það vel upplýst að unnt væri að taka það til úrskurðar. Það var einnig álit ráðuneytisins, eins og áður greindi."
Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. þágildandi barnalaga nr. 9/1981 og 2. mgr. 47. gr. laga nr. 60/1972 skyldi dóms- og kirkjumálaráðuneytið úrskurða, hvort foreldra skyldi fara með forsjá barns við skilnað eða samvistarslit, þegar foreldra greindi á. Bar dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að ráða málinu til lykta, að fenginni umsögn barnaverndarnefndar, eftir sanngirni og því, sem best þætti henta hag og þörfum barns.
Á stjórnvöldum hvílir sú skylda að afla fullnægjandi upplýsinga um málsatvik, áður en það afgreiðir mál, eins og áður segir. Á stjórnvöldum hvílir hins vegar einnig sú skylda að afgreiða mál svo fljótt sem unnt er. Takmarkast því rannsókn máls við það að afla þeirra upplýsinga, sem almennt verður að telja nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka rétta ákvörðun í málinu. Ber að forðast að draga mál á langinn með því að afla umsagna og gagna, sem lítil þörf er á.
Úrlausn stjórnvalda um ágreining foreldra um forsjá barna er vandasöm og varðar mikilvæga hagsmuni foreldra og barna. Er því sérstök ástæða til að vanda meðferð slíkra mála. Í umræddu máli hafði dóms- og kirkjumálaráðuneytið aflað lögboðinnar umsagnar barnaverndarnefndar, en þar á meðal voru greinargerðir tveggja félagsráðgjafa og sálfræðings. Þá sést af gögnum máls, að aðilar þess hafi lagt sig fram við að upplýsa málið. Aðilar óskuðu ekki eftir því að málið væri sent Barnaverndarráði Íslands til umsagnar. Var því ennfremur hafnað af hálfu mannsins með bréfi, dags. 21. janúar 1992, þar sem "ekkert það má finna að meðferð umsagnaraðila og starfsmanna nefndarinnar á máli þessu, sem réttlætir að máli þessu verði vísað til umsagnar Barnaverndarráðs...", eins og segir í fyrrnefndu bréfi.
Að framansögðu athuguðu og með tilliti til þeirra upplýsinga og gagna, sem aflað hafði verið, tel ég ekki ástæðu til athugasemda við þá ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að tefja ekki úrlausn málsins, eins og á stóð, með því að afla umsagnar Barnaverndarráðs Íslands, enda er ekki lögboðið að afla skuli slíkrar umsagnar.
3. Rökstuðningur úrskurðar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
Þá er kvartað yfir því, að rökstuðningur úrskurðar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. mars 1992, sé haldinn annmörkum, meðal annars vegna þess að ekki sé vikið að því, hvers vegna niðurstaða barnaverndarnefndar hafi ekki verið lögð til grundvallar.
Eins og nánar greinir í skýrslu minni fyrir árið 1989, bls. 70-71, tel ég að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu beri að rökstyðja skriflega úrskurði sína í forsjármálum.
Almennt ber að ganga út frá því, að í rökstuðningi fyrir úrskurðum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins skuli greina þær réttarheimildir, sem ákvörðun er byggð á. Ef ákvörðunin byggist á lögskýringu, sem ekki er almennt þekkt á umræddu sviði, ber stuttlega að gera grein fyrir henni. Að því leyti sem ákvörðun byggist á mati, ber að greina þau meginsjónarmið, sem matið byggist á, og loks, þegar ástæða er til, ber að rekja í stuttu máli þær upplýsingar um málsatvik, sem þyngst hafa vegið á metunum, og þá sérstaklega þegar staðreyndir máls eru umdeildar. Hafa ber rökstuðning það greinargóðan að aðili fái skilið, hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú, sem raun varð á. Almennt verður þess ekki krafist, að ákvörðunum stjórnvalda fylgi ítarlegur rökstuðningur. Þegar um er að ræða úrskurð æðra stjórnvalds, eins og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, verður hins vegar að gera ríkari kröfur í þeim efnum, þar sem réttaröryggi skiptir þar miklu og hér er um að ræða svo mikilsverð úrlausnarefni fyrir foreldra og börn.
Rökstuðningur úrskurðar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. mars 1992, hljóðar svo:
"Með hliðsjón af gögnum málsins telur ráðuneytið báða foreldra hæfa til að fara með forsjá barnanna og telur þá geta veitt börnunum fullnægjandi uppeldisaðstæður. Af gögnum málsins verður einnig ráðið að foreldrarnir hafa bæði tekið virkan þátt í umönnun barnanna frá fyrstu tíð og að forsjá þeirra verði vel borgið í höndum hvors foreldris sem er. Einnig kemur fram að báðir foreldrar geri sér vel grein fyrir ástandi og líðan barna sinna og séu í stakk búnir til að sinna þeim. Með vísun til þessa telur ráðuneytið að ekki sé þörf á að kanna málið nánar en gert hefur verið.
Þeir kostir sem mæla með forsjá hvors foreldris um sig virðast vera nokkuð jafnir. Þegar þannig hagar til er erfitt fyrir úrskurðaraðila að ákvarða um forsjá barna. Verður að líta til allra þátta málsins og meta heildstætt, út frá því grundvallarsjónarmiði hvað best henti hagsmunum barna, hjá hvoru foreldri betra er að forsjá liggi.
Þeir kostir sem virðast mæla með föður sem forsjáraðila eru einkum þeir, skv. umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur, að honum láti ívið betur að setja börnunum skýr mörk, auk þess sem hann virðist hafa meiri stöðugleika og hlýju til að bera og vera sveigjanlegri þegar um er að ræða að taka mið af þörfum barnanna. Í áðurnefndri greinargerð félagsráðgjafa barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þó bent á í þessu sambandi, að staða hans krefjist meiri sveigjanleika þar sem móðir hefur haft forsjá barnanna til bráðabirgða í tæpt ár.
Þeir kostir sem virðast mæla með móður sem forsjáraðila eru einkum þeir að hér er um tvær ungar telpur að ræða og skv. sálfræðiskýrslu þeirri sem liggur fyrir í málinu virðist eldri telpan hafa jákvæðari tengsl við móður og virðist telja að móðir komi betur á móts við þarfir hennar fyrir alúð og umhyggju auk þess sem móðir virðist nú vera mikilvægasti einstaklingurinn í augum hennar. Þá ber að hafa í huga að góð reynsla er komin á skipan forsjár í höndum móður og umgengni barnanna við föður hefur verið rífleg og virðist hafa gengið nokkuð vel, þrátt fyrir að gögn málsins beri með sér að breytingar hafi átt sér stað á fyrirkomulagi umgengninnar. Einnig mælir það með forsjá í höndum móður að börnin munu þá áfram búa á sínu gamla heimili og því yrði minni röskun á högum þeirra en ella. Ekki verður heldur litið framhjá því, að málflutningur mannsins gefur til kynna að hann telur að konan sé illa fær um að annast börnin, þó hið gagnstæða liggi fyrir í málinu, og að skv. greinargerð félagsráðgjafanna er fylgdi umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur virðist enn búa með manninum reiði í garð konunnar vegna samvistarslitanna. Ráðuneytið telur að þetta álit mannsins á hæfni konunnar og hinar neikvæðu tilfinningar hans gagnvart henni leiði líkur að því að umgengni barnanna og móður myndi ganga erfiðar og valda meira álagi á þau heldur en umgengni föður og barna, ef forsjá yrði falin móður.
Þegar framangreind sjónarmið eru virt, svo og gögn málsins að öðru leyti, þykja þau rök sem mæla með móður sem forsjáraðila vega þyngra á metunum en þau sem mæla með föður. Með hliðsjón af því og með vísun til 38. gr. barnalaga nr. 9/1981, ber því að fela konunni forsjá beggja barnanna.
ÚRSKURÐARORÐ:
[B] skal hafa forsjá barnanna [C], f. ..., og [D], f. ..."
Telja verður, að rök úrskurðar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins uppfylli almennt þau skilyrði, sem ber að gera til rökstuðnings stjórnvalda og hér að framan eru rakin. Ég tel hins vegar, að æskilegt hefði verið, eins og málið var vaxið, að skýrar hefði komið fram, hvaða sjónarmið lágu til grundvallar því að dóms- og kirkjumálaráðuneytið komst að annarri niðurstöðu en meirihluti barnaverndarnefndar Reykjavíkur.
Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 1992, segir meðal annars svo um þetta atriði:
"Ráðuneytið vill í þessu sambandi sérstaklega benda á, að í umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur er ekki vikið að sálfræðiskýrslu [Y] sálfræðings, dags. 2. desember 1991, er ráðuneytið taldi mjög mikilvægt gagn við mat á því hvoru foreldra skyldi falin forsjá.
Í niðurstöðu sálfræðiskýrslunnar kemur fram, að á fjölskyldutengslaprófi hafi eldri telpan sent móður fleiri skilaboð en föður (10 á móti 7) og öll jákvæð. Boð þau er telpan sendi föður voru eins og segir í skýrslunni "einnig nær öll jákvæð", en ekki öll eins og fullyrt er í bréfi lögmanns mannsins til yðar.
[...]
Með hliðsjón af framangreindu taldi ráðuneytið, að ofangreind skýrsla benti til þess að börnin, sérstaklega það eldra, hefði jákvæðari tengsl við móður en föður. Átti þetta ríkan þátt í að ráðuneytið úrskurðaði móður forsjá barnanna."
Með tilliti til skýringa dóms- og kirkjumálaráðuneytisins tel ég ekki ástæðu til frekari athugasemda við þennan þátt málsins af minni hálfu.
4. Krafa um að hvoru hjóna yrði falið forsjá hvors barnsins.
Í fjórða lagi er kvartað yfir því, að ekki hafi verið tekin afstaða af hálfu ráðuneytisins til þeirrar kröfu mannsins, að hjónin hefðu hvort sitt barnið í forsjá sinni.
Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 1992, segir svo um þetta atriði:
"Hér hlýtur að gæta misskilnings hjá lögmanninum.
Við fyrirtöku hjónaskilnaðarmáls aðila hjá borgardómaraembættinu í Reykjavík þann 22. mars 1991, gerði maðurinn þá kröfu að honum yrði falin forsjá beggja barnanna, sbr. endurrit úr hjónaskilnaðarbók Reykjavíkur, dags. þann sama dag.
Í bréfi lögmanns mannsins til ráðuneytisins, dags. 21. mars 1991, var þess krafist aðallega, að manninum yrði falin forsjá beggja barnanna til bráðabirgða, en til vara, að honum yrði til bráðabirgða falin forsjá eldra barnsins. Með úrskurði ráðuneytisins, dags. 12. apríl 1991, var bæði aðal- og varakröfu mannsins um forsjá barnanna til bráðabirgða, hafnað.
Þegar kom að því að ákvarða um endanlega forsjá barnanna laut krafa mannsins að því, samkvæmt framansögðu, að honum yrði falin forsjá beggja barnanna. Í gögnum málsins er hvergi að finna neitt um, að maðurinn hafi haft uppi um þá varakröfu að honum yrði falin forsjá annars barnsins til frambúðar."
Með vísan til skýringa dóms- og kirkjumálaráðuneytisins tel ég ekki ástæðu til athugasemda við þennan þátt málsins af minni hálfu.
5. Sjónarmið þau, sem niðurstaða dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er byggð á.
Þá er kvartað yfir því, að úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. mars 1992, sé byggður á ólögmætum sjónarmiðum.
Í fyrsta lagi teljið þér, að ólögmætt hafi verið að byggja á því, að umgengni barna og móður myndi ganga erfiðar og valda meira álagi á börnin en umgengni föður og barna, ef forsjá yrði falin móður, af þeim ástæðum meðal annars, að maðurinn væri haldinn reiði í garð konunnar.
Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 1992, segir svo um þetta sjónarmið:
"Það sjónarmið er ríkjandi í barnarétti, eins og lögmaður mannsins benti réttilega á í bréfi sínu til ráðuneytisins, dags. 21. janúar 1992, að það atriði, hvort foreldra sé líklegra til að greiða fyrir umgengni barna og hins forsjárlausa foreldris, vegur þungt við ákvörðun um forsjá.
Af gögnum málsins má ráða, að þann tíma sem forsjármálið var til meðferðar hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi faðir lengst af haft daglega umgengni við börnin, auk fastrar umgengni aðra hvora helgi. Ekki er unnt að ráða af gögnum málsins að móðir hafi reynt að standa í vegi fyrir umgengni, þó greinargerðir lögmanna aðila beri með sér að samningaumleitanir hafi staðið yfir á tímabili varðandi breytingar á fyrirkomulagi umgengni.
Telja verður, miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu, að umgengni föður og barna hafi verið rífleg og gengið nokkuð vel. Þetta atriði meðal annarra taldi ráðuneytið meðal kosta móður sem forsjáraðila barnanna."
Í VIII. kafla þágildandi barnalaga nr. 9/1981 er mælt fyrir um gagnkvæman umgengnisrétt foreldra og barna. Í 1. mgr. 40. gr. laganna kemur fram, að barnið eigi rétt á umgengni við það foreldri sitt, sem ekki hafi forsjá þess, og sé foreldrinu skylt að rækja umgengni og samneyti við barn sitt. Þessi réttur foreldra og barna nýtur sérstakrar verndar samkvæmt 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Af framansögðu verður ekki á það fallist að við ákvörðun forsjár, hafi verið óheimilt að líta til þess sjónarmiðs, hvernig ætla mætti að umgengnisréttur yrði sem greiðastur við það foreldri, sem ekki fengi forsjána.
Í öðru lagi teljið þér, að ólögmætt hafi verið að byggja á því, að ungur aldur stúlknanna mælti með því að konunni yrði fengin forsjá þeirra. Teljið þér, að í þessum rökum ráðuneytisins örli á kynbundinni mismunun.
Í forsendum úrskurðarins segir svo um þetta atriði:
"Þeir kostir sem virðast mæla með móður sem forsjáraðila eru einkum þeir að hér er um tvær ungar telpur að ræða og skv. sálfræðiskýrslu þeirri sem liggur fyrir í málinu virðist eldri telpan hafa jákvæðari tengsl við móður og virðist telja að móðir komi betur á móts við þarfir hennar fyrir alúð og umhyggju auk þess sem móðir virðist nú vera mikilvægasti einstaklingurinn í augum hennar."
Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 1992, segir svo um þetta sjónarmið:
"Varðandi vísun ráðuneytisins til ungs aldurs barnanna í forsendum fyrir niðurstöðu vill ráðuneytið fyrst taka fram, að í úrskurðum þess kemur fyrir að vísað er til ungs aldurs barna, sem rökum fyrir að forsjá verði falin foreldri.
Ráðuneytið telur að almennt megi gera ráð fyrir að ung börn séu, fremur en þau sem eldri eru, tengdari og háðari því foreldri, móður eða föður, sem sinnir grunnþörfum þeirra, líkamlegum og andlegum.
Í máli því sem hér er til umfjöllunar bendir ráðuneytið á, að í fyrrgreindri sálfræðiskýrslu [Y] segir m.a., að móðir virðist vera mikilvægasti einstaklingurinn í augum eldra barnsins, [C]. Þá kemur fram í skýrslunni, að [C] virðist tengja meiri mýkt við tilvist móður og móðir á þannig helst að hjálpa henni að baða sig, breiða yfir hana á kvöldin og aðstoða hana við að klæðast. Ráðuneytið taldi að af þessu mætti ráða, að barnið væri tengt móður með jákvæðari hætti en föður.
Hvað varðar yngra barnið [D], kemur ekki fram í sálfræðiskýrslunni að hún geri upp á milli foreldra sinna í tengslum en sálfræðingur sá er framkvæmdi könnun getur þess þó, að hann hafi náð heldur "fátæklegu samspili" við barnið. Ráðuneytið taldi hins vegar næsta víst að hið sama gilti um tengsl yngra barnsins, og hins eldra, við móður og hafði hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fyrr var getið um tengsl barns við það foreldri sem aðallega annast umönnun þess og því, að barnið hafði dvalið hjá móður frá samvistarslitum foreldra.
Með vísun til þess sem hér að ofan er rakið hafnar ráðuneytið ummælum í bréfi lögmanns mannsins um að í tilvísun ráðuneytisins til ungs aldurs barnanna örli á kynbundinni mismunun."
Skilja verður rökstuðning úrskurðarins svo, að byggt hafi verið á því sjónarmiði, að það mælti með því að forsjá barnanna yrði falin því foreldri, sem börnin töldust tengdari og háðari. Það var heimilt, enda bar dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að líta m.a. til þess, hvaða skipan forsjá barnanna hentaði hag þeirra og þörfum best, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 9/1981.
Í þriðja lagi er kvartað yfir því, að byggt hafi verið á því að góð reynsla hafi komist á skipan forsjárinnar í höndum móðurinnar.
Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 1992, segir svo um þetta sjónarmið:
"Í umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur kemur og fram, að athugun á börnunum hafi leitt í ljós að þau séu gerðarleg og þróttmikil og hafi búið við gott atlæti á allan hátt. Af þessari athugun taldi ráðuneytið að draga mætti þá ályktun að vel hafi farið um börnin þann tíma er þau voru í forsjá móður og þ.a.l. góð reynsla fengin á skipan forsjár í hennar höndum. Meðal annars með hliðsjón af framanrituðu taldi ráðuneytið minni áhættu fólgna í því að fela móður endanlega forsjá barnanna, en að raska því fyrirkomulagi er ríkt hafði í u.þ.b. ár og fela föður forsjá, sérstaklega með tilliti til þess að umsagnaraðili taldi að forsjá barnanna væri vel komin í höndum hvors foreldris um sig."
Ekki verður fallist á, að óheimilt sé að líta til þess, hvaða reynsla hefur fengist af skipan bráðabirgðaforsjár við úrlausn á skipan forsjár barnanna. Hins vegar má fallast á það með yður, að þar sem forsjármál dragast oft mjög á langinn, án þess að aðilar geti þar nokkuð að gert, getur þetta sjónarmið oft verið óhagstætt því foreldri, sem ekki fer með bráðabirgðaforsjána. Tel ég þetta sýna, hve brýnt það er að ekki taki langan tíma að afgreiða forsjármál.
Í fjórða lagi er kvartað yfir því, að byggt hafi verið á því að það mælti með forsjá í höndum móður að börnin mundu þá áfram búa á sínu gamla heimili og því yrði minni röskun á högum þeirra en ella.
Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 1992, segir svo um þetta sjónarmið:
"Það sjónarmið er ... ríkjandi í barnarétti, að við ákvörðun um forsjá barna skuli m.a. líta til þess hvort ákvörðun feli í sér röskun á stöðu þeirra og högum og hefur ráðuneytið oft í úrskurðum sínum vísað til þessarar röksemdar við ákvörðun um forsjá. Þegar um er að ræða mál þar sem báðir foreldrar eru hæfir til að fara með forsjá barna sinna, eins og hagar til í máli þessu, vegur það atriði að börn þurfi ekki að skipta um heimili/umhverfi, þyngra en endra nær. Í máli því sem hér er til umfjöllunar lá fyrir að með því að fela móður forsjá, myndu börnin áfram búa á sama heimili, a.m.k. miðað við þær aðstæður er voru fyrir hendi á þeim tíma, og þ.a.l. yrði minni röskun á stöðu þeirra og högum en ef föður yrði falin forsjá. Þetta atriði var því eitt af þeim atriðum sem mæltu með forsjá í höndum móður."
Ekki verður fallist á, að óheimilt hafi verið að líta til þess við úrlausn á skipan forsjár barnanna, hvort hún hefði í för með sér röskun á stöðu og högum þeirra. Hins vegar er það annað mál, að þegar báðir foreldrar eru hæfir til að fara með forsjá barnanna, og hafa auk þess báðir góðar heimilisaðstæður og náin tengsl við börn sín, hversu þungt vægi þetta sjónarmið á að hafa við úrlausn málsins. Ég tel þó ekki verða séð af gögnum málsins að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi lagt meira upp úr þessu sjónarmiði en efni stóðu til.
6. Afgreiðslutími málsins.
Loks er kvartað yfir því, hve langan tíma tók að afgreiða málið hjá barnaverndarnefnd og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
Af gögnum máls sést, að hinn 22. mars 1991 óskuðu [A] og [B] skilnaðar að borði og sæng og settu fram kröfur um forsjá barna sinna. Hinn 16. mars 1992 var síðan kveðinn upp úrskurður af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um að [B] skyldi hafa forsjá barnanna.
Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. ágúst 1992, segir m.a. svo um þetta atriði:
"Af þessu tilefni vill ráðuneytið taka fram, að það hefur ítrekað bent á, að meðferð forsjármála taki almennt of langan tíma sem að hluta til megi rekja til þess að mál þessi geta verið mjög tímafrek í meðferð og vinnslu...."
Ég tek undir það, sem fram kemur í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, og tel að koma verði í veg fyrir ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu þessara mála. Ég tel sérstaka ástæðu til að málum þessum sé hraðað bæði af tilliti til barna og foreldra. Ber þar einnig að hafa í huga, að aðstæður þær, sem ákvörðun um forsjá byggist á, breytast gjarnan undir rekstri máls, þegar afgreiðsla þess tekur langan tíma."
III.
Í bréfi mínu til A tjáði ég honum, að með hliðsjón af gögnum málsins væri niðurstaða mín sú, að í tilefni af kvörtun þeirri, sem hér hefði verið fjallað um, væri ekki ástæða til annarra athugasemda en að framan greindi.