Dánarbú. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11413/2021)

Kvartað var yfir störfum sýslumannsins á Norðurlandi eystra í tengslum við sáttaumleitanir og meðferð krafna um dánarbússkipti.  

Ekki voru lagaskilyrði til að umboðsmaður gæti fjallað um kvörtunina að því marki sem hún laut að ákvörðunum sýslumanns um skipti umræddra dánarbúa. Þá taldi umboðsmaður hvorki forsendur á grundvelli fyrirliggjandi gagna til að gera athugasemdir við störf sýslumanns né nægilegt tilefni til að taka málsmeðferð hans til nánari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. janúar 2022, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 24. nóvember sl. sem lýtur að sýslumanninum á Norðurlandi eystra. Kvörtun yðar lýtur annars vegar að störfum sýslumanns í tengslum við sáttaumleitanir samkvæmt 107. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og hins vegar að meðferð krafna um dánarbússkipti.

Samkvæmt kvörtuninni var sýslumanni ætlað að leiða til lykta ágreining yðar við bræður yðar vegna reksturs X ehf. Þá bera gögn málsins með sér að skiptum á dánarbúi B hafi lokið 4. júní sl. á grundvelli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., en sýslumaður hafi krafist opinberra skipta á dánarbúi C fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra sama dag. Einnig synjaði hann sama dag beiðnum yðar um endurupptöku tveggja annarra dánarbúa. Þá er meðal gagna málsins bréf dómsmálaráðuneytisins til yðar 10. janúar sl. í tilefni af kvörtun yðar til ráðuneytisins. Þar kemur fram að af svörum sýslumanns verði ráðið að hann hafi brugðist við afturköllun sáttaumleitunar með því ljúka henni 4. júní sl. Ábendingum yðar um framkvæmd sáttaumleitunar hjá embættinu verði haldið til haga í málaskrá ráðuneytisins og hafðar til hliðsjónar við frekari skoðun á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í c-lið 4. mgr. 3. gr. laganna er sérstaklega tekið fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þetta ákvæði á við um ágreining um skipti dánarbúa, en samkvæmt ákvæðum XVI. kafla laga nr. 20/1991 er gert ráð fyrir að leysa skuli úr slíkum ágreiningi fyrir dómstólum. Af þeim sökum brestur lagaskilyrði til að ég geti fjallað um kvörtun yðar að því marki sem hún lýtur að ákvörðunum sýslumanns um skipti umræddra dánarbúa.

Samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga nr. 91/1991 geta aðilar komið sér saman um að vísa máli sínu til sáttaumleitana sýslumanns án atbeina dómara áður en mál er höfðað. Í 2. og 3. mgr. 107. gr. laganna er m.a. kveðið á um að hlutverk sýslumanns við sáttaumleitanir við þessar aðstæður sé að kveðja aðila á sinn fund og reyna með þeim sættir og fella niður sáttaumleitanir ef sáttafundur er ekki sóttur af hendi beggja aðila eða þegar hann telur annars sýnt að þær beri ekki árangur.

Af kvörtun yðar verður ráðið að sátt í ágreiningsmáli yðar og bræðra yðar hafi fyrst og fremst ekki tekist vegna atvika og aðstæðna sem varða aðila málsins. Í því sambandi er sérstaklega tekið fram í kvörtuninni að gagnaðilar hafi ekki sýnt sáttum neinn áhuga, en einnig eru gerðar athugasemdir við m.a. fundarstjórn sýslumanns og að hann hafi ekki hagað meðferð sáttaumleitana í samræmi við ákvæði laga.

Sem fyrr greinir liggur fyrir að umræddum sáttaumleitunum er lokið, sbr. erindi yðar 24. mars sl., og þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við dómsmálaráðuneytið, sem hefur yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart sýslumanni. Samkvæmt gögnum málsins stendur eftir að ekki hefur verið leyst efnislega úr ágreiningi yðar við bræður yðar, en sá ágreiningur er einkaréttarlegs eðlis og það fellur því ekki undir starfssvið umboðsmanns að taka hann til nánari athugunar, sbr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og þau gögn sem fylgdu henni tel ég, í ljósi alls framangreinds, hvorki forsendur á grundvelli fyrirliggjandi gagna til að gera athugasemdir við störf sýslumanns né nægilegt tilefni til að taka málsmeðferð hans á grundvelli 107. gr. laga nr. 91/1991 sérstaklega til nánari athugunar. Lýk ég því umfjöllun minni um kvörtunina, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.