Kvartað var yfir þeirri ákvörðun dómsmálaráðuneytisins að synja umsókn um gjafsókn.
Umboðsmaður benti á við mat á fjárhag umsækjanda um gjafsókn séu elli- og lífeyrisgreiðslur ekki sérstaklega undanskildar í reglugerð og því ekki ástæða til að gera athugasemdir við umfjöllun gjafsóknarnefndar, þótt knöpp væri á köflum.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. janúar 2022, sem hljóðar svo:
I
Vísað er til kvörtunar yðar 29. nóvember sl. fyrir hönd A yfir þeirri ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 17. september sl. að synja umsókn hans um gjafsókn vegna máls sem hann hyggst höfða til heimtu aukinna skaðabóta vegna umferðarslyss. Ágreiningsefni hins fyrirhugaða dómsmáls er hvort ökumaður þeirrar bifreiðar, sem ók á bifreið A umrætt sinn, hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Um þá afstöðu hafið þér m.a. vísað til dómaframkvæmdar en fyrir liggur að vátryggingafélag mannsins sem og úrskurðarnefnd í vátryggingamálum telja að gáleysi ökumannsins hafi ekki verið stórkostlegt.
Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið niðurstöðu ráðuneytisins efnislega ranga og að málstaður A hafi almenna þýðingu í tengslum við öryggi í umferðinni. Þá hafi verið gert mikið úr elli- og lífeyristekjum A, sem og eignastöðu hans, en umtalsverður kostnaður muni hljótast af hinum fyrirhugaða málarekstri.
II
1
Um skilyrði gjafsóknar er fjallað í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í upphafi málsgreinarinnar er kveðið á um það almenna skilyrði að gjafsókn verði aðeins veitt gefi málstaður umsækjanda „nægilegt tilefni“ til málshöfðunar eða málsvarnar. Að auki þarf annaðhvort að vera fullnægt skilyrði sem snertir fjárhagsstöðu umsækjanda, sbr. a-lið, eða að málið hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda, sbr. b-lið. Fjallað er nánar um skilyrði gjafsóknar í reglugerð nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar.
Í 7. gr. reglugerðarinnar er fjallað um fjárhagsstöðu umsækjanda, en þar segir m.a. í 1. mgr. að við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna efnahags umsækjanda skuli miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars og fjármagnstekjur nemi ekki hærri fjárhæð en samtals kr. 3.600.000. Sé umsækjandi í hjúskap eða sambúð beri að hafa hliðsjón af tekjum maka og skuli samanlagðar árstekjur ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur kr. 5.400.000. Í 8. gr. reglugerðarinnar er þó veitt heimild til þess að veita gjafsókn þótt tekjur umsækjanda séu yfir viðmiðunarmörkum samkvæmt 7. gr., við nánar tilteknar aðstæður.
Í ákvæðum 6. gr. a og 8. gr. a reglugerðarinnar er fjallað nánar um mat á verulegri almennri þýðingu máls og mat á áhrifum á atvinnu, félagslega stöðu og aðra einkahagi. Samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu skal við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna þess að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu m.a. höfð hliðsjón af því hvort úrlausn máls teljist mikilvæg og hafi verulega þýðingu fyrir fjölda einstaklinga og hvort dómstólar hafi áður leyst úr sambærilegu eða svipuðu málefni. Í síðarnefnda ákvæðinu er kveðið á um að við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna þess að úrlausn máls varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda skuli m.a. höfð hliðsjón af því hve rík áhrif úrlausn máls geti haft á hagi hans.
2
Í umsögn gjafsóknarnefndar 14. september sl., sem ráðuneytið lagði til grundvallar ákvörðun sinni 17. sama mánaðar, kemur ekki fram afstaða nefndarinnar til þess hvort hún teldi fullnægt fyrrgreindu skilyrði um nægilegt tilefni til málshöfðunar. Það var hins vegar afstaða nefndarinnar að hvorki skilyrði a- né b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 væru uppfyllt.
Vegna athugasemda yðar um að litið hafi verið til elli- og lífeyristekna A, sem og eignastöðu hans, árétta ég að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 45/2008 skal við mat á fjárhag umsækjanda um gjafsókn miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars og fjármagnstekna nemi ekki tiltekinni fjárhæð, og eru elli- og lífeyrisgreiðslur þar ekki sérstaklega undanskildar. Þá fjallaði gjafsóknarnefnd um það hvort beita ætti heimild 8. gr. reglugerðarinnar til að víkja frá umræddum viðmiðunarfjárhæðum, og var það mat nefndarinnar að ekki væru efni til þess, m.a. í ljósi eigna- og skuldastöðu A. Að þessu virtu tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það að litið hafi verið til þessara tekna við mat á fjárhagsstöðu hans eða framangreindrar afstöðu nefndarinnar að öðru leyti.
Þótt umfjöllun gjafsóknarnefndar um b-lið 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 hafi verið knöpp ber umsögnin með sér að nefndin hafi metið hvort skilyrði ákvæðisins hafi verið uppfyllt, en eins og orðalag þess gefur til kynna þarf nokkuð að koma til svo gjafsókn verði veitt á grundvelli þess. Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og þau gögn sem henni fylgdu tel ég ekki nægt tilefni til að taka til frekari athugunar þá afstöðu stjórnvalda að umsóknin hafi ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991.
III
Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á kvörtun yðar.