Skipulags- og byggingarmál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11446/2021)

Kvartað var yfir málsmeðferð, svörum og afstöðu Reykjavíkurborgar vegna lóðar.  

Af málavöxtum og gögnum málsins mátti leiða að deilan snerist m.a. um hver hefði gilda eignarheimild og ráðstöfunarrétt yfir viðkomandi lóðarhluta. Við úrlausn þess ágreinings gæti reynst nauðsynlegt að afla ýmissa sönnunargagna og meta sönnunargildi þeirra. Eðlilegt væri að dómstólar leystu úr þeim ágreiningi.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. janúar 2022, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 17. desember sl. f.h. A yfir málsmeðferð, svörum og afstöðu Reykjavíkurborgar í tengslum við lóð að [...]. Af kvörtun yðar má ráða að umbjóðandi yðar telji Reykjavíkurborg ekki búa yfir eignarheimild að lóðinni og að sveitarfélaginu sé því ekki heimilt að nýta hluta hennar undir bílastæði án samþykkis hans.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að umbjóðandi yðar hafi óskað eftir því við skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 14. júní sl. að bílastæði á lóð við [...] yrði skráð sem einkabílastæði. Skipulagsfulltrúi hafi synjað erindinu með bréfi 14. júlí sl. með vísan til þess að árið 1983 hafi þáverandi eigandi fasteignarinnar selt 55% hluta lóðarinnar til borgarsjóðs Reykjavíkur. Einnig að ráða mætti af deiliskipulagi að lóðinni hefði verið skipt í tvennt. Skipulagsfulltrúa hafi í kjölfarið verið sent annað erindi 23. september sl. þar sem fyrri kröfur voru ítrekaðar. Erindið hafi verið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 1. október sl. og Bílastæðasjóður Reykjavíkur talinn vera í fullum rétti til að starfrækja bílastæði á norðurhluta lóðarinnar við [...].

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að lög nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eru byggð á þeirri forsendu að ákveðin verkaskipting sé milli umboðsmanns og dómstóla og að mál geti verið þannig vaxin að heppilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna. Þar er tekið fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Af því sem að framan hefur verið rakið og gögnum málsins má leiða að deilur umbjóðanda yðar við Reykjavíkurborg snúist m.a. um það hvor þeirra hafi gilda eignarheimild og ráðstöfunarrétt yfir viðkomandi lóðarhluta. Við úrlausn þess ágreinings getur reynst nauðsynlegt að afla ýmissa sönnunargagna og meta sönnunargildi þeirra. Ágreiningi þessum er því þannig háttað að ég tel eðlilegt að dómstólar leysi úr honum. Með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort ástæða sé til að bera málið undir dómstóla.

Með vísan til alls framangreinds og c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er athugun minni á máli umbjóðanda yðar lokið.