Kvartað var yfir svörum ríkisskattstjóra við fyrirspurn um meðferð virðisaukaskatts við sölu á vörum í verslunum á vegum Fangelsismálastofnunar.
Af gögnum málsins var ljóst að ríkisskattstjóri svaraði erindinu í samræmi við óskráða svarreglu stjórnsýsluréttarins og gerði grein fyrir rökstuddri afstöðu embættisins ásamt því að leiðbeina um hvert leita mætti með frekari athugasemdir um breytingar á lögum. Ekki var því tilefni til að gera athugasemdir við svörin.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. janúar 2022, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar, sem barst 3. janúar sl., yfir svörum ríkisskattstjóra 7. desember sl. við fyrirspurn yðar um meðferð virðisaukaskatts við sölu á vörum í verslunum á vegum Fangelsismálastofnunar. Þér hafið áður leitað til umboðsmanns Alþingis með kvörtun í tengslum við greiðslu fanga í fangelsinu Litla-Hrauni á virðisaukaskatti við vörukaup, sem fékk málsnúmerið 11370/2021, en athugun á þeirri kvörtun lauk með bréfi til yðar 23. nóvember sl.
Samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð að því leyti sem þeir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Í 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, svo sem ákvæðinu hefur verið breytt með 1. gr. reglugerðar nr. 601/1995 og 1. gr. reglugerðar nr. 287/2003, er nánar kveðið á um hvaða starfsemi teljist vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
Þar segir m.a. að með því sé átt við það þegar viðkomandi vara eða þjónusta er almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum hér á landi, enda sé útskattur af hinni skattskyldu starfsemi að jafnaði hærri en frádráttarbær innskattur. Þá segir einnig að lögbundin starfsemi opinberra aðila teljist m.a. ekki vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi 1. mgr. þegar öðrum aðilum er ekki heimilt að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum eða þegar viðkomandi þjónusta beinist eingöngu að öðrum opinberum aðilum, hún verður ekki veitt af atvinnufyrirtækjum nema í umboði viðkomandi opinbers aðila og að því tilskyldu að virðisaukaskattur af viðkomandi vinnu og þjónustu fáist endurgreiddur samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar.
Í fyrrgreindu svari ríkisskattstjóra var vísað til viðeigandi laga- og reglugerðarákvæða. Kom sú afstaða embættisins m.a. fram að umrædd starfsemi væri virðisaukaskattsskyld í samræmi við ákvæðin og að leggja bæri virðisaukaskatt á við vörusöluna. Var yður þá jafnframt leiðbeint um að ábendingum um breytingar á lögum um virðisaukaskatt skyldi beint til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Af framansögðu má ljóst vera að ríkisskattstjóri svaraði erindi yðar, í samræmi við óskráða svarreglu stjórnsýsluréttarins, og þar var gerð grein fyrir rökstuddri afstöðu embættisins til þess álitaefnis sem þér báruð undir það, auk þess sem yður var leiðbeint um hvert þér gætuð leitað með frekari athugasemdir um breytingar á lögum.
Þegar stjórnvöld svara fyrirspurnum, eins og þeim sem þér beinduð til ríkisskattstjóra, eru þau ekki að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvæði þeirra laga gilda því ekki um afgreiðslu stjórnvalda á slíkum erindum. Þrátt fyrir það ber stjórnvöldum í slíkum tilvikum að fara að almennum ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins og fylgja vönduðum stjórnsýsluháttum. Eftir að hafa kynnt mér svarbréf ríkisskattstjóra sem og fyrrgreind lagaákvæði er það niðurstaða mín að ekki sé tilefni til að gera athugasemdir við þau svör sem þér fenguð við fyrirspurn yðar.
Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar.