Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11469/2022)

Gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu setts umboðsmanns á kvörtun vegna ráðningar í starf hjá Fiskistofu og óskað eftir að umboðsmaður tæki málið upp aftur. Ekkert stæði því í vegi að kvarta tvisvar yfir sömu rangsleitni af hálfu stjórnvalds. 

Umboðsmaður benti á að ekki væri gert ráð fyrir að kjörnum umboðsmanni væri unnt að segja álit sitt á meðferð og niðurstöðum setts umboðsmanns. Þvert á móti væri settur umboðsmaður í sínum störfum óháður fyrirmælum frá öðrum og bæri einn ábyrgð á afgreiðslu þeirra mála sem honum væru falin. Ekki væri því gert ráð fyrir því í lögum að umboðsmaður tæki afgreiðslur setts umboðsmanns til endurskoðunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar 2. nóvember sl. þar sem þér gerið athugasemdir við afgreiðslu setts umboðsmanns Alþingis á kvörtun yðar í máli nr. 10883/2020. Lauk hann athugun sinni í málinu, sem laut að ákvörðun um að ráða annan umsækjanda en yður í starf sviðsstjóra [...] Fiskistofu, með bréfi 31. mars sl.

Athugasemdir yðar við niðurstöðu setts umboðsmanns byggjast á því að hún sé í ósamræmi við álit mitt 21. október sl. í máli nr. F79/2018, en þar var fjallað um stigagjöf við mat á hæfni þeirra sem sækja um opinber störf. Óskið þér eftir því að kvörtun yðar, sem fjallað var um í fyrrgreindu máli, verði tekin til meðferðar á ný en, verði ekki á það fallist, að litið verði á erindi yðar sem nýja kvörtun, enda sé ekki ár liðið frá umræddri ákvörðun stjórnvaldsins. Vísið þér einnig til þess að engin ákvæði í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, standi því í vegi að unnt sé að kvarta tvívegis yfir sömu rangsleitni af hálfu stjórnvalds.

Af ákvæðum laga nr. 85/1997 leiðir að ekki er gert ráð fyrir að kjörnum umboðsmanni sé unnt að segja álit sitt á meðferð og niðurstöðum setts umboðsmanns. Þvert á móti er settur umboðsmaður í sínum störfum óháður fyrirmælum frá öðrum, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna, og ber einn ábyrgð á afgreiðslu þeirra mála sem honum eru falin á grundvelli 14. gr. þeirra. Það er því ekki gert ráð fyrir því í lögum um umboðsmann að hann taki til endurskoðunar þau erindi sem fyrri umboðsmaður, kjörinn eða settur, hefur fjallað um. Af sömu sjónarmiðum sem og því svigrúmi sem umboðsmaður hefur samkvæmt 10. gr. laganna til að ákveða hvaða mál hann fjallar um leiðir að almennt er ekki nægt tilefni til að umboðsmaður taki til nánari athugunar kvörtun sem lýtur að sömu atvikum og fyrri umboðsmaður hefur tekið til athugunar. Tel ég ekki efni til að annað gildi um kvörtun yðar nú.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er kvörtun yðar ekki tekin til nánari athugunar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.